Undirbúa þarf reiðhesta áður en þeim er sleppt í sumarhagann

Gott er að nota hvert tækifæri til þess að leyfa hestum að grípa niður og smakka á nýgræðingnum.

4662
Gott er að undirbúa hrossin áður en þeim er sleppt í sumarhagann. ©asdishar

Eftir einstaklega gott vor á Suður- og Vesturlandi er gróður mun fyrr á ferðinni en í venjulegu árferði. Senn líður að því að fólk fari að huga að því að sleppa hestum sínum í sumarhagana. Hestamennska leitaði til Eddu Þórarinsdóttur dýralæknis um góð ráð og hvað beri að hafa í huga þegar hestum er sleppt og þeir fara á sumarbeit.

Edda segir að vorið núna hafi verið nokkuð öðru vísi hjá dýralæknum en oft áður. Hún hafi á síðustu dögum þurft að sinna hrossum sem hafa verið á beit á túnum og fengið hafa hófsperru. Segir hún það óvenju snemmt miðað við fyrri ár og telur ástæðuna vera að gróðurinn er um mánuði fyrr á ferðinni, enda er þegar farið að hleypa reiðhrossum út á beit. Þá nefnir hún að mun minna sé um að hildir séu fastar í hryssum, en það tengir hún einnig því að gróður er orðinn mun meiri en yfirleitt á þessum tíma og hryssurnar fái því meira af nauðsynlegum bætiefnum um það leyti sem þær kasta.

Líklegt er að flestir haldi sig við venjulegan tíma þegar kemur að því að sleppa reiðhestunum í sumarhagann. Fólk vill gjarnan nýta vorið, þegar hestarnir eru í hvað bestri þjálfun, og ríða út fram í júní. „Það verður því kominn bullandi gróður þegar þeir koma í hagana. Því er mikilvægt að einhver líti til með hrossunum. Ef fólk hefur ekki tækifæri til þess sjálft hlýtur að vera hægt að fá einhvern til þess, sem er nær þeim“ segir Edda.

Hún telur að reiðhestar í þjálfun séu betur í stakk búnir til að takast á við að komast skyndilega í mikinn gróður í haganum heldur en feit og óþjálfuð hross.  Útigengin hross í þriflegum holdum eru jafnvel í meiri áhættu að fá hófsperru. Þó þurfi reiðhestar vissulega aðlögun. Best er að leyfa þeim að grípa niður og bíta í áningu þegar líður á vorið og venjast þannig nýgræðingnum.

„Þó alls staðar hafi sprottið vel er úthagi þó aldrei eins grasmikill og gömul tún. Ef hestar eru settir á tún þarf sérstaklega að fylgjast með þeim. Þar er sterkur gróður og þar af leiðandi sterkt fóður fyrir hestana. Viðbrigðin eru því meiri þegar hestar eru settir á tún.”

Fólk notar ýmis ráð til þess að koma í veg fyrir að hrossin fitni mikið. Til dæmis randbeit. Þá er hrossunum hleypt smám saman á stærra land. „Þegar hrossum er randbeitt þarf sérstaklega að huga að ormalyfjagjöf,“ segir Edda. „Við slíkar aðstæður eykst ormasmit í haga og er þá jafnvel einnig um bandormasmit að ræða. Því er gott að hafa í huga að gefa ormalyf sem einnig drepur bandorma þegar hrossunum er síðan sleppt á stærra svæði.

Annars er ekki svo mikil hætta á ormasmiti í girðingum þar sem eingöngu eru fullorðin hross. Ormasmitið magnast hinsvegar þar sem ungviði er saman við. Verst er ástandið í vinsælum stóðhestagirðingum þar sem ormasmitið magnast með ómeðhöndluðum hryssum og sér í lagi með folöldunum. Þar getur ormasmit orðið mjög mikið og hafa folöld jafnvel drepist vegna þess. Ormasmitið eykst þegar líður á sumarið og eru þau folöld sem fæðast seint því í meiri áhættu að veikjast af ormasmiti. Þó ég mæli ekki með að vera alltaf að gefa hrossum ormalyf er nauðsynlegt að gefa hryssu og folaldi ormalyf áður en þeim er sleppt í stóðhestagirðingu alveg eins og þegar þau eru sótt. Folöld og trippi geta magnað upp ormasmit í haga og því þarf að gæta sérstaklega að ormalyfsgjöf þar sem ungviði er í hagabeit.

Almennt er ágæt regla að gefa hrossum ormalyf áður en þeim er sleppt í nýjan haga eða þegar verið er að færa þau á milli hólfa. Þá er gott að hafa hjá þeim saltstein eða bætiefnafötu. Bætiefnafötur með kalk/fosfór hlutfallinu á bilinu 1,5 til 2 nýtist hrossum best miðað við íslenskar aðstæður.“

Aðalatriðið, segir Edda, er að undirbúa hrossin vel áður en þeim er sleppt með því að leyfa þeim að bíta nýgræðinginn þegar tækifæri gefst til dæmis í reiðtúrum. Þá skal einnig hafa í huga að auknar líkur eru á því að hross, sem eru ekki vön að vera saman í girðingu, slasi hvort annað og þarf að fylgjast með því sérstaklega.

 

Fyrri greinHestur með straumfjaðrir og Pétursstingi er góður vatnahestur
Næsta greinHestar þurfa alltaf að hafa aðgang að góðu vatni