AppFengur smáforritið er í stöðugri þróun

2370
Það er skemmtilegt og þægilegt að hafa allar upplýsingar úr gagnagrunninum WorldFeng í símanum. Mynd frá AppFeng.

Ný tækni léttir okkur lífið og mikil þróun er í alls konar smáforritum eða öppum sem stuðla að því. Á Landsmótinu í Reykjavík síðastliðið sumar prófuðu margir að nota fyrstu útgáfu af AppFeng til þess að fylgjast með kynbótadómum í símanum sínum jafnóðum og þeir voru kveðnir upp.

AppFengur er í raun snjalltækjavæn upprunaættbók íslenska hestsins og notar smáforritið nýjustu tækni sem fylgir snjalltækjum til að auka þægindi, spara tíma og tryggja öruggari skráningar við lestur og skráningu í gagnagrunn WorldFengs, eins og segir í kynningu á forritinu. Þeir sem nota WorldFeng eru vanir því að geta flett upp ættum allra skráðra hrossa á Íslandi og skráðra íslenskra horssa úti í heimi, dómum og öðrum upplýsingum svo sem um ræktendur og eigendur, hvort hrossið er lifandi eða dautt og hvar það er statt í heiminum. Það er því þægilegt að hafa allar þessar upplýsingar í smáforriti í símanum. Fleiri en ræktendur geta haft mikil not fyrir forritið því t.d. þeir sem eru að kaupa sér hest geta flett hestinum upp í símanum sínum og fengið allar upplýsingar um hann þar.

Mikil þróun hefur átt sér stað frá fyrstu útgáfu AppFengs. Nú geta notendur fengið úrslit kynbótasýninga og keppni beint í símann, leitað að hrossum, skráð þau og skannað örmerki með þráðlausum örmerkjalesara sem tengst getur forritinu. Þá er hægt að velja uppáhalds hesta til að fylgja, fá áminningar og skilaboð og skoðað helstu fréttamiðla sem fjalla um íslenska hestinn. Nýjasti eiginleikinn er að nú er hægt að útbúa t.d. stóðhestalista með því að merkja listann ákveðnum stóðhesti og skanna svo inn upplýsingar um hryssur sem fara eiga undir hestinn.

Nú er verið að þróa AppFengPro sem hugsaður er fyrir fagfólk. Þar munu dýralæknar geta skráð heilsuskýrslur, merkingarfólk getur skráð nýjar örmerkingar og dómarar fá sérstakt viðmót þar sem hægt er að skrá úrslit á rauntíma. Ætlunin er að þannig verði val- og lögbundin skráning einfölduð og skráningarferli verði flýtt svo koma megi í veg fyrir rangfærslur og að gera öll skil auðveldari. Hægt er að skrá á vettvangi upplýsingar og þarf ekki nettengingu til. Upplýsingarnar skila sér svo í gagnagrunninn um leið og notandi kemst í netsamband. Einnig tryggir tenging við örmerkjalesara gæði gagna.  Nú er verið að prófa fylskráningu með AppFengPro.

Næstu skref í þróun AppFengs eru að bjóða upp á nýja og öflugri útgáfu sem byggir á tækni Google. Sú útgáfa mun skila öruggari og hraðari virkni, fleiri möguleikum og auðveldar að viðhalda og bæta inn nýjum eiginleikum.

Hingað til hefur bara verið hægt að lesa gögn úr AppFeng, en á næstunni mun koma út útgáfa sem býður notendur upp á að skrá gögn í heimarétt eins og gert er í WorldFeng. Þá verður notendum gert kleift að fylla út skýrslur á einfaldan og fljótlegan hátt, ná í pdf- eða exelskjöl, kvittað á og skilað inn. Einnig verður reiknivél þar sem hægt er að fá fram valparanir kynbótahrossa og dómaspá.

Kaupa þarf áskrift að AppFeng sem er í boði bæði fyrir Apple og Android snjalltæki. Nú er sérstakt tilboðí gangi fyrir félagsmenn hestamannafélaga. En allar nánari upplýsingar um AppFeng má finna á www.appfengur.comog
www.facebook.com/appfengur