Fullorðnir, reyndir og vel tamdir hestar henta byrjendum

- segir Súsanna Sand Ólafsdóttir formaður Félags tamningamanna með meiru.

5396

Hestamenn ræða stundum um, bæði við hátíðleg tækifæri og í spjalli sín á milli, að það vanti nýliðun í hestamennskuna. En til þess að svo megi verða þarf fyrst og fremst trausta, vel tamda og ganggóða hesta sem passa fyrir börn og byrjendur, eldra fólk og þá sem eru að byrja aftur í hestamennsku til dæmis eftir hlé eða áföll. Hvar er slíka hesta að finna? Á að kaupa tamið hross eða ótamið? Hvernig hestur hentar? Hestamennska leitaði til Súsönnu Sand Ólafsdóttur tamningakonu, reiðkennara, dómara og formanns Félags tamningamanna um svör við þessum og fleiri spurningum.

Fyrst barst talið að tamningum og við hverju fólk megi búast að lokinni frumtamningu. Súsanna benti á frumtamningareglugerð sem finna má á vefsíðu Félags tamningamanna. Þar er reyndar um að ræða kröfur sem gerðar eru um árangur úr frumtamningu til þeirra sem læra tamningar við Háskólann á Hólum.

Gott fyrir hestamennskuna að taka aftur upp utanskólapróf í tamningum

„Víða er verið að temja hross og mér finnst vanta heildstæðari vinnubrögð heilt yfir þannig að við séum öll að tala sama tungumál þegar við tölum um fortamningu, frumtamningu og grunnþjálfun. Ég held að það sé klárlega gott fyrir hestamennskuna í landinu og tímabært að taka upp aftur utanskólapróf – verknám – verkfærni í frumtamningum til að samræma vinnubrögð og auka gæði og þekkingu starfandi tamningamanna. Einnig til að koma til móts við þá starfandi tamningamenn sem ekki hafa átt heimangengt til að mennta sig. Stjórn FT er að vinna í þessu um þessar mundir. Það dýrmætasta í öllu tamningaferlinu er upphafið,” sagði Súsanna.

Í frumtamningareglugerðinni er miðað við tamningatímabil sem er 10-12 vikur eða allt að þrír mánuðir, 4-5 stundir á viku.  Á þeim tíma er nemendum kennt að byggja upp jákvætt viðhorf hjá trippinu gagnvart manninum og æfingar gerðar sem styrkja leiðtogahlutverk mannsins. Trippinu er kennt að teymast með manni og á hesti, unnið er með trippið í hringtaumi og það undirbúið undir járningu og reið. Síðan fer fram byrjunarþjálfun undir manni. Grunngangtegundir eru þjálfaðar, svo og skilningur á ábendingum. Markmiðið er að við lok frumtamningatímabilsins sé hesturinn óttalaus og virðir manninn sem leiðtoga.

„Auðvitað eru hross mjög misjöfn og taka þarf tillit til geðslags og ganglags og fleira. Ekki má búast við því að það sé búið að gangsetja þau eftir eins mánaðar tamningu, en hins vegar er mjög mikilvægt og auðvelt að fá hrossin þannig að þau sé þjál og óhrædd, þau færi afturhlutann í umgengni og snúi sér alltaf að manninum, færa sig að framan og aftan. Það ríki virðing og traust í hesthúsinu og hægt sé að teyma hrossin út og inn.

Mikilvægt að eigandi og tamningamaður tali saman

Eigandinn þarf að geta talað við tamningamanninn um sínar væntingar. Tamningamaðurinn þarf að útskýra sín vinnubrögð og við hverju eigandinn má að búast að lokinni frumtamningu. Tamningamaðurinn þarf að láta eiganda vita ef hann er með annan í vinnu hjá sér og temur ekki allt sjálfur þó hann hafi yfirumsjón með hrossinu og fá samþykki fyrir því. Einnig er mikilvægt að vera í samskiptum á einhverra vikna fresti og fara hreinskilningslega yfir stöðuna. Það er öllum fyrir bestu. En stundum er pressan of mikil bæði hjá tamningamönnum og eigendum. Maður á ekki að vera kominn í reiðtúr áður en hesturinn kann eitthvað, eða ríða tölt þegar engar forsendur eru fyrir því eða að hesturinn skilji hvað hann á að gera.“

Margt má bæta, en margt er á réttri leið að mati Súsönnu. En hún segir að alltaf sé best að allir séu hreinir og beinir. Það eigi bæði við um tamningarnar og kynbótastarfið. „Það verður að hafa allt uppi á borðinu. Það er til dæmis mjög slæmt þegar áhugamaður ætlar að halda uppáhaldshryssunni sinni undir stóðhest sem kemur vel fyrir á sýningarvellinum fær ekki að vita um ýmsa galla sem hægt er að fela og er gert. Það er alvarlegt mál.“

Góð upplifun betri en flottheit og fótlyfta

– En hvar er að finna hesta fyrir börn, byrjendur og fólk á öllum aldri sem er kannski að byrja aftur eftir áföll eða hlé? Og hvernig hest á að velja?

„Ég hef ráðlagt fólki, sem hefur til dæmis verið að spá í að hætta í hestamennskunni af því að það fann ekki hest, að hverju það ætti að leita. Ég tel að best sé að leita að að minnsta kosti 10 vetra hesti fyrir þennan hóp, jafnvel 14 til 16 vetra. Hesturinn þarf að vera traustur og með reynslu og hann þarf að vera vel taminn, hafi ekki bara verið riðið. Svo ráðlegg ég fólki að fara á reiðnámskeið með hestinn, fyrst í reiðhöll. Þar kemur í ljós hvað hann kann og hvað hann þarf að læra. Hann á að kunna að stöðva, vinna á hring og baug, hlusta, og fara rólega af stað. Hesturinn þarf ekki að vera flottur eða með mikla fótlyftu svo framarlega sem fólk fái góða upplifun af því að ríða honum.“

Súsanna
Súsanna Katarína og Röðull höfðu yndi af að sundríða. Mynd frá Súsönnu.

Talið berst að góðum hestum. Dóttir Súsönnu missti kjarkinn eftir fall þegar hún var 8 ára en þegar hún var 12 ára keypti Súsanna 19 vetra gamlan hest sem hún frétti af fyrir hreina tilviljun. „Dóttir mín fékk hann og mátti finna út úr því sjálf hvenær og hvort hún treysti sér á bak.  Eftir hálfan mánuð var hún farin að fara berbakt á þennan mjúka hest. Þau elskuðu hvort annað. Hann mátti ekki heyra röddina í henni þá kom hann hlaupandi. Hann hafði mjúkt tölt, brokk og stökk og lágan fótaburð. Lítil sinaskil en sterka liði, var alrauður með lítið fax. Hann virtist hafa gaman af alls konar bralli og leikjum og yngdist með árunum. Hann hafði yndi af því að synda og þegar gott var veður fór hún niður að Varmá að sundríða. Margir hræddir eða óvanir vinir dóttur minnar fengu að fara á bak honum og upplifa öryggið.

Súsanna
Ungi knapinn Kristján á gæðaklárnum Röðli. Mynd frá Heiðu Dís Fjeldsted.

Hann dó í fyrra, þrítugur, var í fullu fjöri fram á síðasta dag. Fjögurra ára gamall hestamaður fékk hann að láni til að stíga sín fyrstu spor í hestamennskunni og hann var hjá honum síðustu tvö árin.  Hann reyndist ungan knapanum vel því hann stoppaði ef knapinn hallaðist og beið eftir að hann lagaði sig á baki. Röðull var elskaður af mörgum.“

Skynsamlegt að hafa fagmann með þegar velja á hest til kaups

Súsanna segir að aftur og aftur hafi hún upplifað að verið sé að bjóða hesta til kaups sem ekki eru almennilega tamdir. „Þeim hefur verið riðið, en hestarnir kunna í raun og veru ekkert og ef þeir eru ekki með grunn þá veit maður aldrei hverju þeir geta tekið upp á hjá óvönum eða hræddum. Þeir eru þægir þangað til á reynir af því að þeir eru kannski latir en ekki mikið tamdir. Svo er kannski of mikið af ráðleggjendum í kringum fólk. Aftur og aftur bjóðast líka hestar sem eru stífir, ekki hægt að fara á þeim einum heldur elta þeir bara næsta hest. Jafnvel er erfitt að komast á bak þeim af því að þeir standa ekki kyrrir, ekki má koma við síðurnar á þeim, æða af stað ef hestar fara á undan þeim og fleira í þessum dúr.

Þarna eru vissulega mismunandi hugmyndir um hvernig hestar henta óvönum eða þeim sem hafa lent í áföllum. Þetta er því mjög ruglingslegt fyrir kaupendurna sem eru kannski ánægðir með að hafa fundið 6 vetra hest sem sagður er góður en hefur auðvitað ekki meira en tveggja ára reynslu í mesta lagi. Þótt þú kaupir hest sem er 10-16 vetra gætir þú átt eftir að ríða honum í a.m.k. 10 ár og á þeim tíma öðlast sjálf traust og reynslu. Það marg borgar sig.

Ég hef líka heyrt af fólki sem hefur lent í því að kaupa hesta sem auglýstir eru sem geldingar en hafa verið geltir seint og eiga kannski fjöldan allan af afkvæmum. Fólk athugar þetta ekki endilega þótt það skoði WorldFeng af því að hesturinn er ekki auglýstur þannig að hann hafi verið stóðhestur fram eftir aldri. Ef svona hesti er sleppt með öðrum hrossum geta komið upp hættulegar aðstæður og allt logað í slagsmálum, svo ekki sé talað um að vorlagi þegar hryssur fara að ganga. Einnig þarf að passa mjög mikið upp á virðingarstigann hjá stóðhestum, eða fyrrum stóðhestum. Þeir geta farið að færa sig upp á skaftið hjá þeim sem e.t.v. vita ekki að þarna er um fyrrverandi stóðhest að ræða og skapað hættu og alls kyns vandræði. Fólk þarf því að hafa varann á og hreinlega spyrja hvenær hesturinn hafi verið geltur.“

– En hvort er betra að velja sér gelding eða hryssu? Hvað segir Súsanna um það?

„Persónulega finnst mér að fólk sem er að byrja ætti að velja gelding. Það eru meiri sveiflur hjá hryssunum þótt þær geti verið þægar og yndislegar, en hormónasveiflurnar geta haft áhrif.“

Félag tamningamanna hefur verið að ræða um að koma með nokkurs konar tékklista bæði fyrir þá sem vilja taka út tamningu á hestunum sínum og eins hvernig hestur passar væntanlegum eiganda. Alþjóðasamtök eigenda íslenskra hesta, FEIF, hafa einmitt búið til slíka lista. Það er mjög skynsamlegt að fá fagmann, t.d. reiðkennara til þess að koma með og skoða og prófa hestinn sem verið er að hugsa um að kaupa.

Alltaf er möguleiki að seinna komi í ljós að ekki hafi verið keyptur réttur hestur og knapinn verði óöruggur. Maður á ekki að pína sig í sambandi sem gengur ekki. Það er ekki eins að dansa við alla. En það getur verið erfitt að viðurkenna þetta og fólk fer stundum í það að tala sjálft sig niður. Betra væri að finna hest við hæfi.“

Finndu stemninguna hjá hestinum áður en þú stígur á bak

Súsanna bendir einnig á að maður þurfi að velja sér aðstæður, vera þar sem maður er öruggur. „Stundum er gott að fara einn eða tveir saman í reiðtúr en ekki demba sér beint í hópreiðtúra. En alltaf er mikilvægt að vera í góðu sambandi við hestinn sinn og reyna að átta sig á hvernig honum líður og hvernig stemningin er hjá honum áður en stigið er á bak. Ég kenni fólki að vinna í hendi áður en farið er á bak. Þú getur komið þér upp rútínu sem tekur ekki nema fimm mínútur. Er hann eitthvað stífur? Af hverju er hann ekki nógu þjáll? Er hann kannski með strengi eftir æðislega reiðtúrinn í gær? Þá er um að gera að mýkja hann og finna tenginguna áður en þú ferð á bak. Það gefur þér svo miklar upplýsingar að aðeins láta hann víkja, setja tauminn upp, ganga með hann til þess að fá úr honum spennuna ef einhver er. Hestar fá oft harðsperrur og þá er gott að setja sig í hans spor og spyrja sig hvað þú mundir gera í sömu sporum. Það þarf að auka meðvitund um að við erum með ákveðna persónuleika í höndunum sem hver og einn þarf að fá að njóta sín.“

Fyrri greinKnapi í andlegu og líkamlegu jafnvægi hefur góð áhrif á hestinn
Næsta greinHrossafellir