Eftir að fyrstu haustlægðirnar hafa skollið á okkur er rétt að huga að haustbeitinni fyrir hrossin. Lengi hefur það verið hefð á Íslandi að hvíla reiðhestana á haustin. Flestir hestamenn gera þetta enn, þótt færst hafi í vöxt að hross séu á húsi eða í notkun nánast allt árið hjá atvinnumönnum.

Ef hestar fá að fara í frí og á haustbeit eru skeifurnar dregnar undan þeim, hófar klipptir og þeim gefið ormalyf. Gott er að athuga hvort tagl sé of sítt, því betra er að taglið frjósi ekki við jörðina ef gerir umhleypinga. Aftur á móti veitir sítt fax og ennis-toppur skjól fyrir vondum veðrum.

Eigi hestar að vera á útigangi fram á vetur þurfa þeir að komast í góða óbitna haga að hausti með góðu skjóli fyrir vondum veðrum. Oft reynast náttúruleg skjól vel, en ef þau eru ekki til staðar er nauðsynlegt að bjóða hrossunum upp á manngerð skjól. Best er að hafa rúmt á hrossunum svo þau fái næga hreyfingu. Einnig þurfa þau að sjálfsögðu að hafa aðgang að vatni. Eftir rigningarnar að undanförnu ætti ástandið að vera gott víðast hvar, en betra er að vera viss.

Misjafnt er hvort og hvenær þarf að fara að gefa með haust- og vetrarbeitinni, allt fer það eftir um hvernig hrossahóp er að ræða, hvernig veðráttan er og hversu mikla beit svæðið býður upp á. Eru fylfullar hryssur eða mjólkandi í hópnum, folöld eða tryppi?  Ef til vill þarf að skipta hópnum upp eftir þörfum hrossanna. En tryggja þarf öllum hrossum nægilegt fóður svo þau leggi ekki af á þessum tíma.

Ef hross eiga að vera á útigangi frá hausti og jafnvel fram yfir áramót, hvað þá lengur, þurfa þau að vera með gott fitulag og góðan feld. Annars þola þau ekki misjöfn veður. Hross sem mynda eðlilegt fitulag eru fljót að leggja af þegar þau eru tekin á hús og fá reglulega brúkun. Aftur á móti er heldur ekki gott að hross standi í rúllu og hafi ótakmarkaðan aðgang að henni, sérstaklega ef um sterkt hey er að ræða, enda er offita í hrossum orðið mikið vandamál hér á landi. Það getur reynst erfitt að ná þeim aftur í eðlileg hold og þessi of mikla fitusöfnum veldur alls kyns vandræðum, þar á meðal hinni sársaukafullu hófsperru.

Margir hafa þá reynslu að hrossum sem ganga á blautu landi sé hættara við að fá holdhnjóska. Þau þurfa í það minnsta að geta gengið á landi sem að hluta til er þurrlent, enda velja þau það. Ef landið skiptist í blautt mýrlendi og vallendi er vallendið venjulega upp bitið og þau fara ekki í bleytuna nema þau hafi ekkert annað. Mýragróðurinn fellur líka fyrr og er því næringarlítill þegar kemur fram á haust. Holdhnjóskar myndast helst í rysjóttri og votviðrasamri tíð. Þá blotnar og eyðileggst efsta lag yfirhúðarinnar, fitukirtlarnir mynda útferð sem verður að hrúðri sem klístrast föst við hárin. Þar með hættir fitan í húðinni og hárin að veita þá vörn sem þau gera á heilbrigðu hrossi.

Ef hestar eiga að vera á útigangi fram á vetur þurfa þeir að komast í góða óbitna haga að hausti með góðu skjóli fyrir vondum veðrum.. ©axeljón

Vel þarf að fylgjast með hrossum sem fá hnjóska. Þau þurfa að hafa gott skjól og nægilegt fóður og nauðsynlegt er að hýsa þau fari þau að leggja af. Hross sem eru feit og með góðan vetrarfeld eru betur búin undir veturinn og ólíklegra að þau fái hnjóska. Á meðan hnjóskarnir eru til staðar er auðvitað ekki hægt að leggja hnakk á hrossin, enda geta þeir valdið töluverðum sársauka.

Reglulegt eftirlit með hrossum á haust- og vetrarbeit er því mjög mikilvægt svo hægt sé að taka í taumana í tíma ef eitthvað fer úrskeiðis.

Góða og ítarlega grein um haustbeit er að finna í bók Ingimars Sveinssonar Hrossafræði Ingimars, sem gefin var út af Uppheimum árið 2010.

Gömul grein um haustbeit, en í fullu gildi:
Haustbeit

Einnig má finna fróðleik um haustbeit hrossa hjá Helgu Gunnarsdóttur dýralækni:
Grein Helgu

Á síðu MAST er mjög góð grein um aðbúnað hrossa á útigangi:
Hross á útigangi

Fyrri greinMannsævin dugar ekki til að læra allt um hesta
Næsta greinKnapamerkin eru markvisst, stigskipt nám í hestamennsku