Merkilegar rannsóknir á uppruna og sögu tamda hestsins

Í íslenska hrossastofninum er forn erfðafjölbreytileiki sem finnst ekki í öðrum hestakynjum.

5721
Rannsókn
Eitt af því sem varðveita ber í íslenska hrossastofninum er litafjölbreytileiki. ©asdishar

Athyglisverðasta niðurstaða stórrar alþjóðlegrar rannsóknar um uppruna og sögu tamda hestsins er að mati Prófessors Ludovic Orlando, sem fór fyrir 121 vísindamanni sem tók þátt í rannsókninni, að erfðafræðilegur fjölbreytileiki var mikill í hrossum og stöðugur fyrstu 4.000 árin af þeim 5.500 sem hesturinn hefur verið í þjónustu mannsins. Hins vegar hefur þessi fjölbreytileiki minnkað hröðum skrefum nokkrar síðustu aldir í kjölfar þróunar í ræktun og ræktunartækni.

Ólíkt því sem ætla mætti tók maðurinn hestinn seinna í þjónustu sína en t.d. hunda, nautgripi og svín. En þegar mannfólkið byrjaði að nota hesta til reiðar, mjólka hryssur og stjórna æxluninni, breyttist allt. Hesturinn breytti því hvernig stríð voru háð, hvernig maðurinn ferðast og hvernig flutningur á vörum fór fram, allt þar til á fyrri hluta 20. aldarinnar, eins og segir í fréttatilkynningu  um rannsóknina í vísindatímaritinu Cell. Rannsóknin gengur út á að draga upp mynd af flókinni sögu tamda hestsins. Raktar eru breytingar á erfðamengi hestsins víða um heim frá því hann var fyrst taminn og einnig er fylgt arfleifð mikilvægrar hestamenningar. Rannsóknin er þverfagleg og koma vísindamennirnir frá 85 menntastofnunum víðs vegar um heiminn og meðal þeirra eru sérfræðingar á sviði fornleifafræði, erfðafræði og þróunarlíffræði.

Íslensk og bresk hross þau einu sem skyld eru hrossum frá járnöld og rómverskum tíma

Óþekkt ætt hrossa sem lifði á Íberíuskaganum fyrir 4000 árum var meðal þess sem vísindamennirnir uppgötvuðu. Þessi ætt hrossa er útdauð og hefur haft áhrif á erfðamengi nútímahrossa að litlu leyti og telur Dr. Pablo Librado að ekki sé hægt að segja að nútímahesturinn eigi rætur sínar að rekja til þessarar ættar. Það sama á við um aðra ætt hrossa sem lifði í Síberíu frá forsögulegum tíma fram á 3. árþúsund f.Kr.

Rannsóknin sýnir því fram á að þrátt fyrir að aðeins tvær ættir hrossa séu nú á jörðinni, tamdi hesturinn og Przewalski hesturinn, sé ljóst að ættir hesta voru mun fleiri á þeim tíma þegar menn byrjuðu að temja hesta. Nútímahesturinn er því ekki afkomandi þessara ættarlína heldur enn annarrar sem talin er hafa breiðst út um Evrasíu snemma á bronsöld. Nýju erfðaupplýsingarnar sem nú komu fram hjálpa til við að finna hvernig þessi umrædda ætt hefur þróast síðan og orðið að þessum hundruðum hestakynja sem nú eru til í heiminum.

Przewalski hestar.

Prófessor Orlando segir að megin markmið vísindamannanna sé að skilja hvernig mennirnir breyttu hestinum í gegnum söguna í sína þágu með sínum gjörðum, hvaða hestkyn voru þróuð í mismunandi menningarheimum og hvernig þetta hafði áhrif á sögu mannkyns.

Miklar breytingar á þróun hestsins urðu á 7. til 9. öld e.Kr. í Evrópu samkvæmt greininni. Svo miklar að einu hrossakynin sem erfðafræðilega eru skyld hrossum sem uppi voru á járnöld og rómverskum tíma er að finna á sumum bresku eyjanna og á Íslandi. Líklegt er talið að þessir hestar hafi verið fluttir til þessara landa af norrænu fólki. Hins vegar varð annað hrossakyn mjög vinsælt á meginlandi Evrópu sem rekja má uppruna sinn til Persíu á tímum Sassanída (226–651 e. Kr.) og mega flest nútíma hrossakyn, bæði í Evrópu og Mið-Asíu, rekja ættir sínar til þess.

Íslenskir vísindamenn í hópnum

Tveir  starfsmenn Landbúnaðarháskóla Íslands tóku þátt í rannsókninni, þau Jón Hallsteinn Hallsson prófessor og Albína Hulda Pálsdóttir dýrabeinafornleifafræðingur og doktorsnemi við Háskólann í Osló. Þau hafa í nokkur ár rannsakað forn-erfðafræði íslenska hestsins í samstarfi við erlenda fræðimenn. Einnig tóku þátt vísindamennirnir Arnar Helgason og Kári Stefánsson hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Hestamennska hafði samband við þau Jón og Albínu og spurði hvers vegna farið var út í þessa rannsókn og hverjar eru helstu niðurstöður hennar.

Þau sögu að landnám í Norður-Atlantshafi, með áherslu á Færeyjar, Ísland og Grænland, byði upp á mjög áhugavert tækifæri til að rannsaka flutning og aðlögun búfjár að nýjum búsvæðum, á tímum loftslagsbreytinga og hrörnunar vistkerfa sem hófst fljótlega eftir að landnámsmenn námu fyrst land. Jafnframt hefur jafnan verið talið að þessi kyn hafi verið að einhverju leyti einangruð frá landnámi. „Landnámsmenn fluttu með sér fjölbreytt safn húsdýra, þar með talið hænur, hunda, hross, svín, nautgripi, sauðfé og geitfé, í fjölbreytilegar umhverfisaðstæður og aðlöguðu búskaparhætti að nýjum vistkerfum og veðurfari. Þrátt fyrir mikilvægi búfjárræktar fyrir landnámsmenn er frekar lítið vitað um uppruna búfjárins, áhrif landnámsins eða aðlögun mismunandi tegunda. Rannsóknir okkar miða að því að varpa ljósi á áhrif landnáms og vals á byggingu stofna og fjölbreytileika búfjárstofna á áhrifasvæði víkinganna. Þetta er verkefni sem við vonumst til að varpi ljósi á aðlögun búfjárkynja að norðurslóðum en það er einnig ljóst að samhliða auknum þrýstingi á náttúruauðlindir þá er varðveisla búfjárkynja mikilvægt forgangsatriði í rannsóknum.“

Uppruni „skeiðgensins“ enn óþekktur en elstu dæmin frá Íslandi

Það eru ekki öll kurl komin til grafar hvað varðar sérstöðu íslenska hrossakynsins í heiminum að þeirra mati, en samkvæmt þessari nýjustu rannsókn er íslenski hesturinn í dag skyldastur hjaltneska hestinum, Jeju, mongólskum hestum og hestum frá Yakutíu í Síberíu. „Af þeim fornu hrossum sem voru í rannsókninni er mestur skyldleiki við íslensk hross frá víkingaöld og hross frá piktneskum tíma (6.-8. öld) frá Orkneyjum og eistneskan hest frá miðri 9. öld, en einnig við ýmis hross frá rómverskum tíma frá Þýskalandi og Frakklandi t.d. Fyrri rannsóknir hafa sýnt mikinn skyldleika við norsk hestakyn og mongólska hestinn. Þessar nýjustu niðurstöður mæla ekki á móti því. Það hefur mikil áhrif niðurstöðurnar hvaða kyn eru höfð með til samanburðar. Í þessar rannsókn er unnið með heil erfðamengi að mestu en slík gögn eru ekki til fyrir öll hestakyn ennþá. Líklegt er að frekari rannsóknir á næstu árum muni skýra þetta enn frekar.“

En hvernig tengist þetta t.d. gangtegundunum? Hvers vegna hefur íslenski hesturinn varðveitt allar fimm gangtegundirnar frekar en önnur kyn?

„Það er mörgum spurningum ósvarað enn varðandi uppruna „skeiðgensins“ svokallaða. Í rannsókn sem við birtum ásamt samstarfsfólki árið 2016 kom fram að elstu dæmin um þessa stökkbreytingu finnast í íslenskum hestum úr kumlum frá víkingaöld og í nokkrum hrossum frá sama tíma frá York á Englandi, þar sem vitað er að víkingar höfðu bækistöðvar. Þessar niðurstöður komu nokkuð á óvart þar sem talið var að þessi stökkbreyting væri mun eldri og líklega upprunninn í Mongolíu. Í þessari nýjustu grein eru enn elstu dæmin um „skeiðgenið“ frá Íslandi. Uppruni þessarar mikilvægu stökkbreytingar er í raun enn þá óþekktur en það er mjög líklegt að þetta muni skýrast á næstu árum með frekar rannsóknum. Það hafa ýmsar tilgátur verið settar fram um að þessi eiginleiki hafi verið ræktaður úr erlendum hrossakynjum en í raun vitum við mjög lítið um það enn sem komið er.“

Mikilvægt að vernda íslenska hrossastofninn og verja hann gegn sjúkdómum

Þegar þau Jón og Albína eru spurð um mikilvægi þess að varðveita íslenska hrossastofninn sögðu þau að áframhaldandi verndun íslenska hrossastofnsins væri mjög mikilvæg af mörgum ástæðum. „Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið undanfarið, þar með talin þessi sem nýverið var birt í Cell, sýna ótvírætt að í íslenska hrossastofninum er forn erfðafjölbreytileiki sem finnst ekki í öðrum hestakynjum. Við berum því ríka skyldu til þess að halda áfram að vernda íslenska hestinn, í því felst að sjúkdómavarnir þurfa að vera sterkar. Mikilvægt er líka að styðja við fjölbreytta nýtingu íslenska hestsins, til sýninga og ræktunar, í ferðaþjónustu, til almennra útreiða og kjötframleiðslu.

Fjölbreytt nýting er mikilvæg til að stuðla að varðveislu erfðafjölbreytileika. Íslenski hesturinn er líka mikilvægur íslenskri menningu og það er ekki síður mikilvægt að vernda þann þátt og styðja við. Með aukinni áherslu á umhverfismál má líka sjá fyrir sér að aftur verið farið að nýta auka-afurðir t.d. hrosshár og hrosshúðir til að koma í staðinn fyrir ýmis plastefni. Hrosshár var mikið notað til forna og er ótrúlega sterkt og gott efni sem mætti nýta meira.“

Erfðafjölbreytileiki getur tapast þegar kyn verða stöðluð með tilheyrandi fábreytni

Nú er oft talað um mikilvægi erfðafjölbreytileikans. Hvað ber sérstaklega að varðveita?

„Rannsóknir okkar og samstarfsaðila hafa sýnt að hið svokallaða „skeiðgen“ hefur þekkst í íslenska hestinum frá landnámi. Þær hafa líka sýnt að alltaf hafa verið til staðar í stofninum hestar sem eru arfhreinir fyrir þessu breytileika, arfblendnir einstaklingar og hestar sem hafa ekki þennan breytileika.

Það virðist vera mjög aukin áhugi á að varðveita þann mikla litafjölbreytileika sem er til staðar innan íslenska stofnsins og það er vel. Hestafólk og ræktendur vilja veg íslenska hestsins sem mestan og gerir sitt besta og til þess að það geti haldið áfram sínu góða starfi þá er mikilvægt að skilja vel sögu stofnsins og stöðu í dag og þar kemur vísindafólk til sögunnar.

Það er auðvitað ræktenda að ákveða hvert stefna á með útlit íslenska hestsins. Það sem erfðafræðingar hafa áhyggjur af er þegar kyn verða stöðluð með tilheyrandi fábreytni – þá getur tapast erfðafjölbreytileiki. Þess má geta að rannsóknir Rúnars Leifssonar dýrabeinafornleifafræðings á hrossum úr kumlum frá víkingaöld sýndu að fyrst eftir landnám var nokkur dreifing á hæð íslenska hestsins og það hlýtur að vera ræktendum einhvers virði að halda í þann fjölbreytileika. Það sama á við um litabreytileika, en rannsóknir á kumlhrossum hafa jafnframt sýnt fram á breytileiki í þeirri arfgerð.“

Að lokum leggja þau Jón Hallsteinn og Albína áherslu á að mikilvægt sé að samtal milli vísindamanna og ræktanda sé lifandi, þannig getum við best tryggt að við verndum íslenska hestinn til framtíðar.

 

Fyrri greinHestar þurfa alltaf að hafa aðgang að góðu vatni
Næsta greinAð járna á aðeins þyngri skeifur er betra fyrir hestinn en að safna hófum