Mesta fóðurbreyting sem hross verða fyrir er þegar þeim er sleppt á vorin

595
Mesta fóðurbreyting
Athuga þarf ástand hagans áður en hrossum er sleppt. Er næg beit? Eða kannski of mikil? ©asdishar

Búast má við að margir hestamenn, sérstaklega á Suður- og Vesturlandi, stefni á að sleppa reiðhestum sínum í sumarhagana á næstu dögum eða vikum. Að mörgu er að hyggja fyrir sleppitúrinn, sem er einn af hápunktum hestamennskunnar hjá mörgum.

Gróður fór ágætlega af stað í upphafi vors en síðan kom langur þurrka- og kuldakafli sem varð til þess að spretta stoppaði og fór ekki af stað fyrr en nú í upphaf júnímánaðar þegar loksin kom væta og hlýna tók í veðri. Úthagi er þó víða enn grár yfir að líta og sums staðar á mörkunum að kominn nægur gróður til þess að sleppa húshestum á.  Ekki er heldur hægt að treysta því að hrossin fái nóg í sig á leiðinni enn sem komið er með því að grípa niður. Fólk verði því að huga að því að hafa fóður meðferðis ef sleppitúrinn verður farinn næstu daga.

Ágætur siður er gefa hrossum rúlluhey með beitinni fyrst eftir að þeim er sleppt í hagann ef beitin er á mörkum þess að vera næg. Þetta hlífir gróðrinum auk þess sem viðbrigðin fyrir hrossin verða ekki eins mikil.

En það er fleira sem hafa verður í huga þegar farið er af stað í sleppitúrinn. Hvert er hitastigið á næturna? Nauðsynlegt er að hafa það í huga þegar hestum er sleppt á áningarstöðum á leiðinni og kanna fyrirfram hvernig haginn er á leiðinni og á áfangastað.

Mikill hraði og óþolinmæði gagnvart búfé

Þó herferð hafi verið í gangi að undanförnu til þess að minna vegfarendur á hvernig hestar bregðast við umferð og áreiti verður ekki litið framhjá því að vaxandi hraði og óþolinmæði gagnvart búfé er áberandi í umferðinni. Mikil slysahætta getur skapast vegna tillitsleysi ökumanna bifreiða eða bifhjóla og jafnvel hjólreiðamanna og þurfa hestamenn að hafa þetta í huga ef þeir eru með mörg hross í taumi eða reka lausa hesta nálægt þjóðveginum, sem teljast verður áhættusamt nú til dags. Þá hefur umferð um sveitavegi víða á landinu einnig aukist á undanförnum árum og hraðinn að sama skapi. Því sé ekki hægt að treysta því að ástandið þar sé betra.

Kurteisi getur skipt sköpum

Hestamenn sjálfir þurfa að sjálfsögðu einnig að sýna tillitssemi. Með aukinni umferð hrossa um landið hafa komið upp ýmis vandamál í samskiptum landeigenda og hestamanna. Mörg dæmi eru um að hestamenn fari með rekstur eða fjölda hrossa yfir eignarlönd án leyfiss og noti jafnvel mannvirki eins og fjárréttir og safngirðingar án leyfis. Þess eru dæmi að fjárréttir séu nánast rústir einar eftir að hestar hafa verið skildir þar eftir, jafnvel yfir nótt, enda byggðar fyrir fé en ekki hross. Þá ber hestamönnum sem fara í gegnum eignarlönd, með leyfi að sjálfsögðu, að loka hliðum og ganga vel um.

Svo friður ríki um ferðir hestamanna um landið þurfa hestamenn að fá leyfi landeigenda og umsjónarmanna mannvirkja fyrir afnotum af eignum þeirra áður en lagt er af stað. Kurteisi kostar ekkert og getur skipt sköpum um hvort ferðin verður til ánægju eða leiðinda. Góð regla er að skilja við staðinn sem maður kemur á eins og maður vill koma að honum sjálfur, eða kannski frekar eins og ef maður ætti hann sjálfur.

Ekki má gleyma hundunum sem stundum fylgja með. Þeir geta gert verulegan usla í fé bæði í heimalöndum og á afrétti og ættu ekki að vera með í för nema eigendur þeirra hafi fullkomna stjórn á þeim og láti þá ekki komast upp með að eltast við fé, hross eða nautgripi. Ef eitthvað kemur upp á, t.d. að lömb þvælist frá mæðrum sínum eða eitthvað þaðan af verra, ber að hafa samband við bændur á næstu bæjum og láta vita strax.

Mesta fóðurbreyting sem hestur verður fyrir

Í bók sinni Hestaheilsu segir Helgi Sigurðsson dýralæknir að hestar verði aldrei fyrir eins miklum fóðurbreytingum og þegar þeim er sleppt á vorin. Viðbrigðin séu mun meiri en þegar þeir eru teknir á hús. Þrátt fyrir það er þetta breyting til hins betra og mörg vandamál sem hesthúsvistin hefur í för með sér eru úr sögunni. En stundum er hestum sleppt of snemma og eru þá viðbrigðin mikil frá því að vera kappgefið bæði hey og fóðurbætir í maí. Helgi bendir á að ekki er hægt að fara eftir dagatalinu þegar hestum er sleppt, heldur árferði.

Hinar öfgarnar eru ekkert betri, þ.e. þegar hestum er sleppt á kafgras. Allar slíkar snöggar fóðurbreytingar eru slæmar fyrir hestinn og geta til dæmis leitt til hófsperru. Mikilvægt er því að fylgjast með hestunum fyrstu dagana eftir að þeim er sleppt og ef gróður er of mikill að takmarka beitina hluta úr degi. Helgi bendir jafnframt á að nauðsynlegt sé að gefa hrossum ormalyf um hálfum mánuði áður en þeim er sleppt, sérstaklega ef beitarhólf eru þröng.

Með hóflegri beit, nægu vatni og mátulegri þjálfun ættu hestarnir að sjá fram á betri tíð með blóm í haga og eflaust langþráð frelsi úti í náttúrunni.

 

Sjá einnig eldri grein hér á hestamennska.is um undirbúning reiðhesta fyrir sumarbeitog um afleiðingar offóðrunar, nauðsynlegt aðgengi að vatni o.fl o.fl.