Of „þjappaður“ höfuðburður heftir hreyfingar hests og öndun

11669
Hestur í „þjöppuðum“ höfuðburði. ©axeljon

„Hestur er mjög eftirgefanlegur í hálsi, en sveigir hálsinn of nærri herðum og kemur þar með í of djúpan höfuðburð, eða eins og kallað er fer á bakvið lóðlínu. Þessi galli í höfuðburði kallar á of mikla spennu í herðum og baki, og heftir eðlilega hreyfingu herðablaða og bóga. Fjöðrun í baki verður lítil eða engin. Bakið of hátt, og þar af leiðandi erfitt að færa afturfætur inn undir hestinn. Stundum blekkir svona höfuðburður sé hann ekki mjög djúpur, þ.e. knapanum finnst hann vera með hestinn í söfnun, en svo er ekki.“

 Trausti Þór Guðmundsson

Hross sem eiga við þessa lýsingu Trausta Þórs sjást æ oftar, jafnvel í keppni meðal bestu knapa. Hestamennsku lék forvitni á að vita hvaða áhrif slík reiðmennska hefur á hestinn og fékk Auði Sigurðardóttur hestanuddara og -sjúkraþjálfara til að fjalla um málið.

HYOID APPARATUS – Hyoid beinið/tungubeinið

Tungubeinin á hestinum eru 2 bein sem tengjast saman í eina heild og mynd Y laga strúktur. Tungubeinið tengist hnakkabeini hestsins með sterkum liðböndum og tengjast neðri kjálkanum og barkakýli (larynx) hestsins. Hlutverk tungubeinsins er meðal annars að bera þunga tungunnar og vera festa fyrir vöðva og liðbönd tungunnar, barkakýlis, háls og brjóstbeins. Í raun hreyfist tungubeinið afar lítið en örlítið í samræmi við hreyfingar tanna og kjálka.

Tungubeinið og beinin sem tengjast því mynda svokallað „tungubeins-apparatus“ (hyoid apparatus).

Tungubeinið tengist barka og barkakýli. (Heimild: Large Animal Osteology Of The Head And Neck/Angela Franks)

Við mennirnir erum einnig með tungubein (stundum kallað málbein) en ólíkt hestinum þá er okkar meira skeifulaga.

Tungubeinið getur haft töluverð áhrif á hreyfingar hestsins. Eins og fram hefur komið þá tengist tunga hestsins tungubeininu og ef höfuð hestsins er óeðlilega sveigt mikið undir bita (á bak við lóðlínu) veldur það því að tungan dregst upp. Þetta hefur þau áhrif að munnur hestsins spennist upp og öndunarleið þrengist og hesturinn á erfiðara með eð anda.

Svokallað „rollkur“ er algengt í klassískum reiðstíl. Þarna er höfuð hestsins ofsveigt undir bitann og gott dæmi um stöðu sem þrengir að öndun hestsins og veldur gríðarlegu álagi á hálshryggjarliði og yfirlínuliðbandið (ligament nuchae).

Um 10 vöðvar tengjast tungubeininu. Þessir vöðvar mynda meðal annars undirlínu hálsins og hafa mikil áhrif á hreyfingar í framparti hestsins. Hestur sem spennir kjálkana getur átt það til að gnísta tönnum, leggjast á taum, rúlla höfðinu eða kasta til höfði. Hestar anda einungis í gegnum nefið og ef loftflæðið er skert kemur það klárlega niður á frammistöðu hestsins og veldur miklum óþægindum fyrir hann.

Tunguvandamál er yfirleitt alltaf hægt að rekja til tungubeinsins og kjálkaliðarins (TMJ-Tempo-mandibular joint).

Eftirfarandi vöðvar eru dæmi um vöðva sem tengjast tungubeins-apparatus: m. Geniohyoideus, m. Genioglossus, m. Sternohyoid, m. Omohyoideus, m. Thyrohyoideus, m. Hyoglossus og m. Styloglossus.

Ef við skoðum nokkra vöðva í þessu samhengi nánar sjáum við hvernig þessir vöðvar hafa áhrif. M. Omohyoid-vöðvinn á uppruna sinn frá herðablaðinu, nálægt axlarlið hestsins og festir í tungubeins-strúkturinn (bashyoid). Hlutverk hans er að draga tunguna aftur til að auðvelda hestinum að kyngja. Spenna í þessum vöðva heftir einnig hreyfingar herðanna. M. Sternohyoid-vöðvinn tengir tungubeinið við brjóstbein hestsins. Hlutverk hans er að draga tungubeinið aftur. M. Sternothyroid-vöðvinn á uppruna sinn á brjóstbeini og festir á skjaldkyrtilsbrjóski. Hlutverk hans er að draga barkakýlið aftur. Þessir vöðvar tengjast að lokum allir kviðvöðvunum að einu eða öðru leyti. Þessi vöðvakeðja liggur svo í gegnum maga- og kviðvöðva hestsins og aftur að mjaðmagrind og myndar tengingu á milli afturfóta og í munn hestsins.

Omohyoid-vöðvinn tengir herðar við tungubeinið. (Heimild: Temporo-mandibular joint pain-Hyoid muscles as the source/ Kerry J. Ridgway.)

 

Sternohyoid og Sternothyroid tengja brjóstbein við tungubeins-apparatus. (Heimild: Temporo-mandibular joint pain-Hyoid muscles as the source/ Kerry J. Ridgway.)

Öll spenna á svæði tungubeinsins myndar spennu í herðum sem getur haft þau áhrif að hesturinn byrjar að stytta skref. Hart taumhald, of þröng nefbönd, skarpar tennur og svo framvegis getur orsakað spennu á þessu svæði.

Smáir vöðvar tengja tungubeinið einnig við hnakka hestsins. Við hnakkann tengist svo yfirlínuliðbandið (Ligament Nuchae) sem svo festir í Supraspinatus liðbandið sem nær alveg aftur að sterti. Þar af leiðir spenna frá tungubeininu einnig í yfirlínu, bakvöðva og afturpart hestsins.

Myndin sýnir vöðvakeðju undirlínu og vöðvakeðju yfirlínu hestsins. Svo virðist sem nær allt kerfið tengist tungubeini hestsins á einn eða annan hátt.

Saman með kviðvöðvum, brjósthryggsvöðvum og bakvöðvum hefur þetta allt áhrif á getu hestsins til að safna sér þar sem hesturinn þarf að lyfta upp herðakambi og neðstu hálshryggjarliðum, teygja sig fram og lyfta baki.

Hér sést liðband yfirlínunnar (Nuchal Ligamen)t ofbeygt og spennt þegar höfuð hestsins er þvingað undir bita (efri mynd) (Heimild: False Collection & Evasions. Relative vs. Absolute Elevation).

Liðband yfirlínunnar umlykur einnig hálshryggjarliðina það þétt að það getur valdið mikilli spennu á hnakkasvæðinu, bólgumyndun, óvenjulegum beinvexti og liðbandið stífnar upp og missir teygjanleika sinn.

Og hvað? Hvernig hefur þetta svo allt áhrif á töltarana okkar? Öll viljum við sjá tölt sem er létt og að hesturinn ferðist í jafnvægi, með sterka og virka yfirlínu og virkan afturpart. Við viljum sjá hreyfingar frampartsins léttar og frjálsar.  En til að ná þessu þá þarf herðakamburinn að vera opinn, kvið- og brjósthryggsvöðvar verða að geta lyft búki á milli herðablaðanna og hreyfingar þurfa að vera frjálsar í herðum. Spenna í liðbandi yfirlínunnar veldur því að skref afturfótanna styttast og þar með myndast spenna í hálsi. Þetta er einmitt það sem gerist þegar hestur er settur í „þjappaðan“ höfuðburð. Ekki bara myndar það spennu í afturparti og styttir afturfótaskrefin og þar með flæði og hreyfingar heldur myndar það einnig gífurlega spennu á liðbönd og vöðva hálsins og yfirlínunnar. Þetta hefur svo einnig mikil áhrif á öndun og súrefnisflæði til hestsins.

Eflaust er hægt að nefna ýmislegt annað sem getur haft og hefur áhrif á hreyfingar hestsins og hvað gerist ef eitthvað er ekki í jafnvægi, en við látum þetta duga í bili með von um að fólk hafi gagn af.

Kær kveðja,
Auður Sigurðardóttir hestanuddari og -sjúkraþjálfari hjá Hestanudd og heilsa.

 

Fyrri greinAukin hætta er á slysum á hestum úti í gerði á þessum árstíma
Næsta grein„Góð og rétt járning skiptir sköpum fyrir hestinn“