Reglugerð um velferð hrossa er nauðsynlegt tæki fyrir eigendur og umráðamenn hrossa

3376
Velferð hrossa
Eigendur og umráðamenn hrossa bera ábyrgð á velferð þeirra. ©asdishar

Nokkur umræða hefur skapast að undanförnu á samfélagsmiðlum um ýmis mál sem varða velferð hrossa. Það virðist vera að þeir sem halda hross hafa ekki allir kynnt sér reglugerð um velferð hrossa, en sú nýjasta öðlaðist gildi 1. janúar 2014. Þar kemur skýrt fram hverjar skyldur eigenda og umráðamanna hrossa eru.

Ef til vill gera ekki allir sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem fylgir því að eiga og halda hross, en markmiðið með reglugerðinni er að líta á dýr sem skyni gæddar verur sem eiga að vera laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsl og sjúkdóma. Tekið er fram að lögin innihalda lágmarksreglur um dýr. Í reglugerðinni segir m.a. að hver sá sem heldur hross skal hafa aflað sér grunnþekkingar á eðli þeirra og þörfum. Kunnáttuleysi er því ekki gild rök fyrir því að ekki sé allt sem skyldi. Umráðamaður hrossa, hvort sem það er eigandi eða einhver sem falin er umsjá hrossa, er því alltaf ábyrgur, eins og Hestamennska hefur áður fjallað um.

Sérstakt fagráð er skipað af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til þriggja ára í senn. Í því sitja fimm manns, fagfólk, og jafn margir varamenn. Hlutverk ráðsins er að vera Matvælastofnun til ráðuneytis um stefnumótun og einstök álitaefni er varða málefni á sviði velferðar dýra, að veita Matvælastofnun umsögn um umsóknir vegna dýratilrauna, að fylgjast með þróun dýravelferðarmála og upplýsa Matvælastofnun um mikilvæg málefni á sviði velferðar dýra og taka til umfjöllunar mál á sviði velferðar dýra að beiðni einstakra fagráðsmanna.

Þeir sem skipaðir eru í fagráð eru á sviði dýralækninga, dýrafræði, dýraatferlisfræði, dýravelferðar, dýratilrauna, búfjárfræði eða siðfræði. Núverandi fagráð sem situr frá 2017-2020 er skipað Sigurborgu Daðadóttur, yfirdýralækni sem er formaður, Ernu Bjarnadóttur aðstoðarframkvæmdastjóra Bændasamtaka Íslands sem er tilnefnd af Bændasamtökum Íslands, Katrínu Andrésdóttur dýralækni sem tilnefnd er af Dýralæknafélagi Íslands, Ólafi Dýrmundssyn PhD í búfjárfræðum sem tilnefndur er af Dýraverndarsambandi Íslands og Henry Alexander Henryssyni nýdoktor sem tilnefndur er af Heimspekistofnun Háskóla Íslands.

Ýmsar spurningar á samfélagsmiðlum sem reglugerðin svarar

Meðal þess sem rætt hefur verið um á samfélagsmiðlum er innistaða folaldshryssna, hvernig stjórna megi beit þegar sumir hestar þurfa að grennast en aðrir að fitna, hver beri ábyrgð á því þegar stóðhestur fer illa með hryssu og margt fleira.

Tekið er skýrt fram í reglugerðinni að óheimilt er að hafa folaldshryssur án fóðurs eða vatns lengur en í tvær klukkustundir. Því getur verið erfitt að halda þær á húsi. Einnig er óheimilt að hafa hross ein á húsi eða í beitarhólfi og er spurning hvort folaldið sé hryssunni nægur félagsskapur og sama á við um folaldið, hvort það þurfi ekki að umgangast fleiri hross, en húsvist og annað hrossahald skal taka mið af félagslegum og líkamlegum þörfum hrossa samkvæmt reglugerðinni. Auk þess má einungis halda folaldshryssur og fylfullar hryssur á síðustu fjórum mánuðum meðgöngu í stíum sem að lágmarki eru 8 m² að flatarmáli og þar sem einstaklingsfóðrun er tryggð.

Það getur verið snúið að vera með hross með mismunandi holdarfar í sumarhaga, en á undanförnum árum hefur sífellt reynst erfiðara að koma í veg fyrir að þau verði of feit. Það er ekki eðli hrossa að standa lengi án þess að éta og því getur verið flókið að halda þeim mátulegum. Í reglugerðinni segir að hross skulu alla jafna ekki vera grennri en sem nemur reiðhestsholdum (holdastig 3). Ef þau eru grennri en það eiga þau að njóta hvíldar og þarf umsjónarmaður að huga að þeim sérstaklega og bæta fóðrun. Ef holdstig fer undir 2 telst það ill meðferð á hrossi. En einnig þarf að gæta þess að hross verði ekki feitari en sem nemur holdastigi 4,5. Ef grenna á hross verður samt að fara eftir þeim skilyrðum sem sett eru fram í reglugerðinni í kaflanum um fóðrun. Það er því ekki einfalt að halda hross þótt þau séu í sumarhaganum og kallar það á meira eftirlit og stundum er nauðsynlegt að ráðfæra sig við dýralækni um hvernig best sé að haga beitarstjórnun svo öllum skilyrðum sé fullnægt.

Allir hestamenn ættu að kynna sér reglugerðina

Eins og áður segir fylgir því mikil ábyrgð að vera umráðamaður hrossa. Þegar þau eru í sumarhaga ber umráðamanni að hafa vikurlegt eftirlit með þeim. Ef um folaldshryssur er að ræða hvort sem þær eru nálægt köstun eða nýkastaðar þarf að hafa aukið eftirlit. Sama á við um sjúk eða slösuð hross. Umráðamaður stóðhests þarf að hafa daglegt eftirlit með stóðhestagirðingu og ber hann ábyrgð á að hryssur og folöld sem verða fyrir áreiti eða slysum í girðingunni séu tekin frá strax.

Hestamennska mælir með að fólk kynni sér vel reglugerð um velferð hrossa og fari eftir þeim reglum sem þar eru settar fram um hross og hrossahald. Þarna eru góðar leiðbeiningar um hvaðeina sem umráðamenn hrossa þurfa að vita og tileinka sér. Ekki skal spara sér að hringja í dýralækni þegar þörf krefur og spurningar vakna um heilbrigði og velferð hrossanna, enda eru þeir réttu aðilarnir til að veita ráðgjöf og lækna ef þarf. Hægt er að fá sér tryggingu sem nær m.a. yfir dýralæknakostnað.

 

 

 

Fyrri greinAð járna á aðeins þyngri skeifur er betra fyrir hestinn en að safna hófum
Næsta greinSveittir lófar, ör hjartsláttur og maginn í hnút