Tölum um hesta

Ný bók eftir Benedikt Líndal og Sigríði Ævarsdóttur væntanleg um næstu mánaðamót.

2527
Tölum um hesta
Tölum um hesta

Ný hestabók, Tölum um hesta, eftir hjónin Benedikt Líndal og Sigríði Ævarsdóttur á Gufuá í Borgarfirði, kemur út um næstu mánaðamót. Í bókinni er talað á hreinskilin hátt um reynslu þeirra hjóna af hestum og líf þeirra með hestum í gegnum tíðina, auk frásagna af hestum, ljóða og sagna og nýrra uppgötvana um hesta, svo eitthvað sé nefnt. Sigríður myndskreytir bókina. Nánar verður fjallað um bókina hér á Hestamennsku þegar hún kemur út, en hér birtist formáli bókarinnar þar sem þau Benni og Sigga segja frá sínum fyrstu kynnum af hestum.

BENNI
Þegar ég var að mótast sem unglingur og jafnframt pínu sem hestamaður var enginn sem ráðlagði manni neitt. Auðvitað er nauðsynlegt að læra af reynslunni, hvort sem hún er slæm eða góð, en samt sem áður, þegar ég hugsa til baka, þá hefði ég gjarna viljað stöku sinnum fá samtal um hvað væri skynsamlegt að gera. Hvort sem það var um lífið, að vera unglingur almennt, eða unglingur sem trúlega fann sína hillu sem verðandi atvinnuhestamaður löngu áður en ég gerði mér grein fyrir því sjálfur. Svona hélt þetta áfram eftir að ég fór að vinna fyrir mér sem tamningamaður víða um land og erlendis. Stundum var ég umkringdur mestu og bestu hestamönnum og reynsluboltum samtímasögunnar í hestum, en ég bara man ekki eftir að manni væri leiðbeint. Við vorum með ákveðið ferli í tamningunum og hjálpuðumst mikið að og það var frábært. Auðvitað varð maður fyrir áhrifum og fyrir það er ég afar þakklátur. Þetta voru allt saman snill­ingar, en svolítið hver á sinn hátt. Mjög sennilega allir leitandi, fullir áhuga og margt á tilraunastigi.

 

Fyrir þá sem þurftu að þola mig sem krakka — ungling og hesta­dellufyrirbæri, þá gæti það hafa gengið fyrir sig á eftirfarandi hátt:

Ég: 11–12 ára, þeir: Tveir fullorðnir hestakallar með hesta í bíl­skúr í næsta húsi við þar sem ég ólst upp í Reykjavík. Þeir: Það er aldeilis að hann er þrautseigur, hann er hér bara á hverjum degi. Á hann enga vini?

13–15 ára: Ég í sveit á sumrin á Þorgautsstöðum í Borgarfirði. Keli bóndi: Ég er hissa á hvað hann nennir að ríða út á kvöldin eftir vinnu. En hann vaknar alltaf í fjósið, svo þetta er bara í fínu lagi.

16–20 ára: Tamdi mikið einn, en líka með og hjá mörgum hesta­mönnum. Miklar umræður í gangi um alla nálgun og uppbygg­ingu en enn og aftur ekki mikið persónulega til mín. Kannski var þetta allt eins og það átti að vera. Ég var bara á fullu að temja. Án þess að ég hafi gert mér grein fyrir því þá, þá sögðu hestarnir mér hvernig ég ætti að nálgast þá. Stundum gekk vel, stundum illa. Það hlóðst inn á reikninginn í reynslubankanum.

Svo kom FT — Félag tamningamanna. Ég var lengi vel yngstur félags­ manna og tók öll þau próf sem þar voru í boði og mér þykir alltaf vænt um þennan félagsskap. Þetta voru allt tímabil og allt börn síns tíma með sín sérkenni, menningu og þróun.

Ástæðan fyrir innihaldi þessa formála er sú að okkur Siggu langar að eiga við ykkur „samtal“ sem við sjálf hefðum gjarna viljað fá. Sumt skrifar hún, sumt skrifa ég. Sumt skrifum við saman. Hún málar mynd­irnar.

Lesandi góður, við gerum ráð fyrir að flest ykkar séu áhugafólk um hesta. Raunhæft og gott samtal um hesta og okkur hin sem viljum hafa þá í lífi okkar er til bóta fyrir okkur öll — bæði hesta og menn. Að rifja upp það sem liðið er, hugleiða hvað er framundan, horfa raunsætt á það sem er í gangi núna, pæla í hlutunum saman, njóta og gleðjast yfir þeim forréttinum og þeirri ábyrgð sem því fylgir að fá að hafa hesta í lífi okkar.

Sem temjari, þjálfari og reiðkennari hefur starf mitt í gegnum tíð­ina snúist um að gera hesta „betri“ og bæta samskipti knapa og hests. Núna ætlum við Sigga að beina sjónum okkar svolítið í hina áttina og skoða hvað það er sem við þá sjáum. Við munum leyfa hestinum að sýna okkur sinn heim, þar sem hann er kennarinn. Þá opnast eiginlega dáldið ný veröld — ekki síður spennandi og skemmtileg en sú sem við nú þegar þekkjum. Við notumst við okkar eigin reynslu og ýmislegt sem aðrir eru að vinna með, setjum efnið fram með beinum og óbein­um hætti, segjum sögur, notum myndir og gerum allskonar — sumt alveg stórskrítið en allt mjög skemmtilegt — a.m.k. finnst okkur það. Og þó flestir séu í hestum til að stunda útreiðar þá verður ljóst að sú nálgun er bara einn af mörgum möguleikum sem í boði eru — allt eftir því hverjar forsendurnar eru. En nóg um það.

Við skulum tala um hesta.

 

SIGGA

Ég hef verið í kringum hesta frá 7 ára aldri og heilluð af þeim frá fyrstu kynnum. Þetta einstaka dýr, sem er svo öflugt að það hefur verið notað af manninum til að sigra heiminn í svo mörgum skilningi. Sem farartæki og stríðstól, til að brjóta land til ræktunar, sem tákn frelsis og gleði og sem einstaklega blíður félagi, kennari og með­ ferðaraðili fyrir fólk til að vinna úr áföllum. Fyrir fatlaða, einhverfa og hreyfihamlaða. Ótrúlega margbreytilegur og fjölhæfur eftir landsvæð­um og þeim kröfum sem til hans hafa verið gerðar.

Frá því mjög snemma í samskiptum mínum við hesta hef ég sam­samað mig þeim á einhvern hátt sem gerðist ekki með sama hætti með önnur dýr, svo sem hunda og ketti. Það bara gerðist og ég spáði ekk­ert sérstaklega í það. En þegar ég sest niður og hugsa um það þá var það svoleiðis alla tíð. Þó það hljómi kannski undarlega þegar það er sagt upphátt, þá fannst mér ég finna andlegan skyldleika við þetta dá­samlega dýr. Við áttum eitthvað sameiginlegt sem var utan orða, ein­ hverskonar hlutlaust svæði sem við hittumst á. Þetta svæði, sem var eins og vefur ofinn úr þráðum reynslu, visku og þekkingar beggja tegunda í gegnum þúsunda ára samvinnu, sem bara var þarna og löngu tilbú­inn. Ég og hesturinn gátum komið okkur þar fyrir, án útskýringa og nokkurra formála. Það sem var á þessu svæði var á einhvern hátt svo stórt og mikið að það var ekki hægt að setja það í orð. Og þess vegna var það ekki gert. Enda eru orð aðeins ein leið til að eiga og skilja samskipti. Hestar nota ekki orð þannig að eftir á að hyggja er ekkert skrítið þó að ég eigi erfitt með að finna „réttu orðin“ fyrir þetta sem ég er að reyna að útskýra. Og gera það með þeim hætti að það hljómi ekki klisjulega eða verði einhvern veginn misskilið og snúið á hvolf.

Miðað við þann fjölda ungra stúlkna og kvenna sem sækjast í hesta er ljóst, að ég er ekki sú eina sem leita eftir tengingu við þá. Og ég fann að tengingin hafði að gera með þörf beggja og færni til að virkja og virða kvenlæg gildi og andlegi skyldleikinn byggðist að einhverju leyti á því. Hestar virka nefnilega út frá kvenlægum gildum og þar er ákaflega opið fyrir gagnkvæman skilning milli konu og hests. En málið er, að í þeim heimi sem hefur verið raunveruleiki manna í árþúsundir hafa þessi sömu gildi verið bæld og karllægum gildum gert hærra undir höfði. Fyrir unga stúlku með stóra drauma, væntingar og yfirsýn, var ekki alltaf auðvelt að finna sig beislaða og bundna af reglum samfélags sem viðhélt þessari skökku mynd.

Og það var kærkomin tilbreyting að finna skilning og andlega tengingu sem skapaðist úr þessum sameiginlega bakgrunni konu og hests. Það var á hlutlausa svæðinu sem ég hitti hestinn fyrir og átti þetta andlega samfélag við hann, án kvaða og krafna. Þar var í gangi samspil og báðir aðilar fengu að vera þeir sem þeir voru skapaðir til að vera.

Löngu, löngu síðar opnaði hestur dyrnar fyrir mér inn í heim óhefð­bundinnar meðferðar smáskammtalækninga og lagði þannig grunninn að lífsskoðun minni og vinnu sem fullorðinnar konu. Og það þvældist líka hestur inn í tilhugalífið hjá mér … svo það er ljóst að hestar eru og hafa verið stórir örlagavaldar í mínu lífi. Innlegg mitt í þessa bók litast af því sem að framan er talið. Það snýst mikið um aðrar hliðar hestamennskunnar, þeirra sem næstu kyn­slóðir hestafólks munu sennilega halda áfram að þróa og fínisera; hugs­unarinnar, tilfinningarinnar, upplifunarinnar, samverunnar og alls hins sem við ekki setjum endilega í orð en er stór ástæða þess að fólk er í hestum. Og það snýst um hlutlausa svæðið og marglita þræðina sem liggja þaðan í allar áttir og bjóða manneskju og hesti ýmsa möguleika þegar kemur að mynstri og vefnaði. Ég er ekki í vafa um að allt hestafólk veit af þessu hlutlausa svæði, þó það hafi sumt hvert ekki endilega verið meðvitað um það í orði eða komið þangað lengi. En ég vona að lesningin verði ykkur áminning og hvatning til að hitta hestana ykkar þar sem oftast. Og ég óska þess að þið gefið ykkur leyfi til að njóta vefnaðarins, mynstursins og litanna á meðan ofið er og síðan þegar horft er á fullunninn vefnaðinn.

Fyrri greinHugsa þarf vel um reiðtygi og olíubera oft og vel til að þau endist vel
Næsta greinHvíld er hestum nauðsynleg