Valhopp

    4543

    Kannski það sé liðin tíð að sjá hest á valhoppi undir manni. Í það minnsta þótti það ekki fín reiðmennska eftir að hætt var að nota hesta sem samgöngutæki og á seinni hluta 20. aldar var jafnvel talað niður til þeirra sem létu sjá sig á valhoppi innan bæjar- eða borgarmarka. Valhopp er afbrigði af hægu stökki en hesturinn verður þá vaggandi og mjúkur á ganginum, eins og lýst er í bókinni Hestar (1931) eftir Theodór Arnbjörnsson.

    Í Búnaðarritinu 1897 er valhoppi lýst þannig: „Á hinn bóginn getur hesturinn líka stokkið svo hægt að hófaskellirnir heyrist fjórir, hann setur þá fæturna niður með svo jöfnu millibili, að skellur heyrist af hverjum fæti, og er það kallað valhopp.“ Þar er því reyndar haldið fram að valhoppið sé þægilegt fyrir manninn en erfitt fyrir hestinn.

    Þetta ganglag er létt fyrir hestinn og verður hann síður móður. Í bókinni Íslenskir þjóðhættir (1936) eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili segir að hestamenn hafi oft vanið langferðahesta við valhopp því þannig gátu þeir ferðast á drjúgri ferð án þess að þreytast og auk þess sem þessi gangur fór vel með manninn á baki.

    Reyndar hvetur G.H.F. Schrader íslenska reiðmenn til að velja frekar valhopp en tölt. Hann segir í bók sinni Hestar og reiðmenn á Íslandi (1915): „Valhoppið (“lope”) sem nautasmalar (Cowboys) þeysa með hestum sínum langa leiðir, eins og þeir séu óþreytandi og vinni ekkert á þá, er miklu mun þægilegra en töltið og þarf engrar taumstjórnar með. Það sést stundum á Íslandi, en þó sjaldan.“

    Hvað sem öðru líður þá er ljóst að ekki eru allir sammála um hvort valhoppið sé gott fyrir hestinn, þótt flestir séu á þeirri skoðun.

    Fyrri greinMargt hægt að gera til að forðast slys
    Næsta greinHafa hestamenn gagn af hugarþjálfun?