Við þurfum að taka samtal um þróun íslenska hestsins

-segja höfundar bókarinnar Tölum um hesta.

2907
Tölum um hesta
Benedikt Líndal og Sigríður Ævarsdóttir. ©asdishar

Tölum um hesta er falleg bók. Bæði hvað útlit varðar og innihald. Í bókinni segja hjónin Benedikt Líndal og Sigríður Ævarsdóttir frá reynslu sinni og lífi með hestum í leik og í starfi. Bæði kynntust þau hestum barnung og hafa fylgst með þróun mála í hestamennsku og hestahaldi síðan og lifað og hrærst með hestum. Benedikt er tamningameistari, reiðkennari og hrossabóndi og Sigríður er hómópati manna og hesta, alþýðulistakona og jarðarmóðir.

„Þótt margt hafi verið gott í gamla daga, á það svo sannarlega alls ekki við um allt og stundum er fortíðin fegruð meira en efni standa til,” sagði Benedikt þegar ég heimsótti þau Sigríði í hesthús þeirra í Borgarnesi. Annars búa þau á Gufuá í Borgarfirði þar sem þau hafa komið sér vel fyrir með bústofn sinn. En af því að þau eru alltaf kölluð Benni og Sigga, meðal annars í bókinni, þá verða þau nöfn notuð hér.

Undirrituð fékk bókina í hendurnar og gat ekki lagt hana frá sér. Í textanum kemur fram upplifun tveggja einstaklinga af hestum og hestamennsku í sinni fjölbreyttu mynd. Henni miðla þau í gegnum sögur af hestum, með beinni fræðslu, hugleiðingum og myndum og kemst stemmningin vel til skila, hvort sem um er að ræða lýsing á einstökum hestum, hestum úti í náttúrinni, samskiptum þeirra við hesta og hvernig hestar taka tamningu og þjálfun. Sögurnar snerta svo sannarlega strengi þeirra sem hafa upplifað eitthvað svipað og eru líklegar til þess að hreyfa við mörgum. Hægt er að lesa bókina eins og sögubók þ.e. byrja á byrjuninni og klára eða grípa niður í hana og taka með sér hugleiðingu eða kafla til að hugsa um og vinna með.

Talað um hesta

-En það er ekki á hverjum degi að hjón setjist niður til þess að skrifa bók saman. Hvernig gekk það fyrir sig?

Þau segjast alltaf hafa ætlað að skrifa saman bók, en það var bara aldrei tími. Svo kom covid og þá kom tíminn til að setjast niður og skrifa.  Benni ákvað að hætta að ríða út eftir síðustu áramót og lokaði hesthúsinu svo þau gætu einbeitt sér að bókinni. Þau búa í pínulitlu húsi en sátu við skriftir í sitt hvorum endanum og skrifuðu að minnsta kosti til hádegis um nokkurra vikna skeið.

„Ég vissi ekkert hvað hann var að skrifa og hann vissi ekkert hvað ég var að skrifa,“ segir Sigga. „Svo kom að því að mér fannst ég vera komin með fullt af efni en vissi ekkert hvernig gekk hjá Benna. Þegar mánuður var í skilafrest  ákváðum við að bera saman bækur okkar svona til þess að vita hvort við værum kannski að skrifa um allt það sama. Þá kom í ljós að þetta var bara í góðu lagi og við gátum farið í að raða efninu upp og setja upp hina endanlegu bók.“ Benni bætir við að sumt hafi þau reyndar ákveðið að skrifa saman.

Sigga málar vatnslitamyndirnar sem eru í bókinni og prýða hana mjög. Á myndunum má sjá íslenska hesta í allri sinni fjölbreyttu og litríku mynd. Þær eru ekki skýringarmyndir í sjálfu sér heldur styðja við textann og skreyta bókina.

Eigum að láta okkur varða velferð hestsins

Gefum Benna orðið: „Sem betur fer hefur orðið þróun til góðs á flestum sviðum hestamennskunnar. Við megum samt ekki horfa gagnrýnislaust á þessa þróun. Við eigum að láta okkur allt, sem tengist velferð íslenska hestsins, varða. Einnig þurfum við að taka samtal um hvernig við viljum að málin þróist áfram til þess að geta staðið á því að hesturinn okkar sé þessi náttúrulegi og upprunalegi sem við segjum hann vera. Við höfum alls ekki tekið þá  umræðu.“

Margar skemmtilegar sögur eru í bókinni og lýsa ýmsu brasi sem fólk stóð í, sérstaklega hér áður fyrr. „Þær eru bæði til til fróðleiks og skemmtunar þessar sögur og einnig til að leiða fólk inní þann veruleika sem hesturinn okkar hefur lifað í og er sprottinn úr. Svona var og er líf íslenska hestsins á Íslandi, þetta er sú tilvera sem skapar honum sérstöðu og gerir hann að því sem hann er,“ segir Sigga.

„Það er ekki ætlunin að predika í þessari bók og vonandi hefur okkur tekist að forðast það þó að við liggjum svo sem ekkert á skoðunum okkar á ýmsu,“ heldur hún áfram.  „En við þurfum að tala saman um ákveðna hluti og við erum einnig með ýmsum ráðum að reyna að leiða fólk inní að gera hlutina meira í flæði og af tilfinningu.“

Þegar þau eru spurð um markhóp bókarinnar eru þau sammála um að þau hafi í raun ekkert hugsað út í hann þegar þau voru að skrifa bókina, heldur hafi efni hennar verið eitthvað sem þau þurftu að koma frá sér, miðla til annarra. En þau reikna með að hún höfði til breiðs hóps hestafólks og falli hiklaust undir fræðslu- og skemmtiefni.

Vonumst til að fólk skilji hestinn sinn betur

-En hvaða áhrif vonast þau til að bókin hafi?

„Helst það að fólk skilji hestinn sinn betur. Hestamennska er lífsstíll og þeir sem ekki hafa velt þeim hlutum fyrir sér sem við erum að tala um, tengja vonandi við það og vonandi horfir hesturinn og hestamennskan öðruvísi við þeim að loknum lestri. Sem sagt, að það sem við tölum um staðfesti hjá sumum það sem þeim hefur fundist og minni hina á, að ef til vill mætti sjá hlutina í öðru ljósi og frá fleiri sjónarhornum” segir Benni.

„Við vonum að fólk treysti okkur út frá okkar reynslu og taki skynsamlega afstöðu. Við leggjum þetta á borð fyrir fólk til að vinna úr,“ sögðu þau.

„Svo minnum við líka á að hestamennskan á að vera skemmtileg … það gleymist stundum,“ segir Sigga og brosir.

Bókin Tölum um hesta er hugsuð sem fyrsta bók af þremur.

Tölum um hesta

 

 

 

 

Fyrri greinHuga þarf vel að hrossum sem fá holdhnjúska
Næsta greinMagasár mun algengara í íslenskum hrossum en áður var talið