Hestar á húsi. ©axeljón

Fóðrun hesta á húsi er vandaverk og skiptir miklu máli fyrir hestinn. Svo virðist sem flestir sem halda hesta fari meira eftir tilfinningu við fóðrun hrossa sinna en beinhörðum vísindalegum rannsóknum.

Í BS-ritgerð Sigríðar Birnu Björnsdóttur frá Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri árið 2015, Fóðrun hesta á húsi yfir vetrartímann, kemur meðal annars fram að fóðrun hrossa sé almennt ekki byggð á heyefnagreiningu. Í rannsókninni var spurningarlisti lagður fyrir hestamenn í fjórum hesthúsahverfum á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins um 5,6% þeirra sem voru í úrtakinu létu efnagreina heyið sem þeir gáfu hrossum sínum og innan við helmingur aðspurðra vigtuðu heyið ofan í hrossin sín. Út frá þeim gögnum sem fengust við þessa rannsókn kom í ljós að hestamenn á höfuðborgarsvæðinu byggja almennt ekki fóðrun á reiknuðum fóðurþörfum eða höfðu látið efnagreina heyið hjá sér.

Svipuð rannsókn var gerð af Pétri Halldórssyni árið 2000. Þá var hlutfall þeirra sem létu efnagreina heyið svipað. Bjóst Sigríður við að ástandið hefði batnað mun meira á þessum 15 árum, en sú var ekki raunin.

Tæpur helmingur vigtar hey ofan í hestana

Áhugavert var að skoða hvernig hestamenn mátu heyþarfir hestanna í sinni umsjón. Spurt var um þær aðferðir sem notaðar væru þegar heymagn væri ákveðið og kom það höfundi á óvart hversu margir sögðust vigta ofan í hesta sína, eða 47,2% og var það algengast, 38,9% sögðust meta gróffóðurmagn sjónrænt og 13,9% sögðust giska á magnið. Bjóst höfundur ekki við svona hárri prósentu af þeim sem vigtuðu ofan í hesta sína. Þetta mat hún sem þróun í rétta átt en næsta skref væri að auka áherslu á efnagreiningu heysins. Þá er hægt að reikna út magnið sem hver hestur þarf af gróffóðri.

Hvetja þarf hestamenn til að láta efnagreina hestahey

Sigríður segir að hvetja þurfi hestamenn til að nýta sér heyefnagreiningu og kynna hana betur fyrir þeim, annars sé hætta á vanfóðrun eða offóðrun. Jafnframt að heysalar láti efnagreina heyin hjá sér og láti þær upplýsingar fylgja með heyinu sem keypt er.

Niðurstöður um þekkingu á lýsi og notkun saltsteina komu einnig frekar illa út í rannsókninni. Sigrún segir að hestar í þjálfun ættu alltaf að hafa aðgengi að saltsteini til að viðhalda saltþörf líkamans. Salt fer úr líkamanum meðal annars í formi svita.

 

Ritgerð Sigríðar Birnu Björnsdóttur

Góð grein um fóðrun hesta á síðunni Helga Gunnarsdóttir – Dýralæknir hesta á Facebook

Efnagreining á Hvanneyri sér um að efnagreina heysýni, m.a. fyrir hestamenn

 

Fyrri greinHafa hestamenn gagn af hugarþjálfun?
Næsta greinFylgt úr hlaði