Menn og hestar á hásumardegi

  4037
  ... í hóp á þráðbeinum, skínandi vegi ©asdishar

  Í gamla bændasamfélaginu á Íslandi voru útreiðar með helstu skemmtunum sem fólk gat veitt sér, svo framarlega sem þeir höfðu aðgang að hestum. Margar frásagnir eru úr sveitum landsins af ungu fólki sem hittist og reið út og þótti það hin besta skemmtun. Í bókinni Íslenskir þjóðhættir eftir Jónas Jónasson nefnir hann að almennustu „útreiðirnar“ hafi verið kirkjuferðir á helgum. Þá var komið við á bæjunum aðallega á heimleiðinni „og þá stundum ekki alveg laust við, að brygði fyrir óreglu, en ekki bar mikið á því“ segir hann. Stundum var riðið til annarra kirkna en sinnar sóknarkirkju og tekinn góður tími í það. Jafnvel riðið af stað á laugardagskvöld og stundum ekki komið heim fyrr en undir morgun á mánudeginum. Þótti stundum „slörkulegt“ í þessum ferðum.

  Einnig er þess getið að hver sem betur mátti reyndi að komast ríðandi í réttir og algengt var að bændur færu í sunnudagsreiðtúr, einkum þeir „er gott þótti neðan í því … margir hinna meiri og efnaðri brennivínsberserkja áttu úrvalshesta, sem þeir máttu treysta, hvað sem í skarst, enda slysaðist þeim ekki að jafnaði, þótt djarflega væri farið …“

  Burtséð frá lýsingum Jónasar á drykkjunni minnir frásögn hans óneitanlega á ljóðið Fáka eftir Einar Benediktsson sem hefst svona:

  Í morgunljómann er lagt af stað.

  Allt logar af dýrð, svo vítt sem er séð.

  Sléttan, hún opnast sem óskrifað blað,

  þar akur ei blettar, þar skyggir ei tréð.

  – Menn og hestar á hásumardegi

  í hóp á þráðbeinum, skínandi vegi

  með nesti við bogann og bikar með.

  Betra á dauðlegi heimurinn eigi.

  Fyrri greinMiklar upplýsingar fást við heyefnagreiningu
  Næsta greinLeggur upp móðu