Nokkur tilfelli smitandi hósta staðfest í hrossum

Veikin landlæg eftir að hún greindist 2010, segir Sigríður Björnsdóttir dýralæknir hrossasjúkdóma.

4991
Smitandi hósti
Algengt er að hross gangi í gegnum þessi veikindi folaldsárið sitt, en það geta verið hópar sem aldrei hafa sýkst. ©asdishar

Nokkur umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum að undanförnu um veikindi í hrossum. Hafa ýmis einkenni verið nefnd, en Sigríður Björnsdóttir dýralæknir hrossasjúkdóma telur líklegt að í einhverjum tilfellum a.m.k sé um að ræða sömu bakteríusýkingu og olli faraldri smitandi hósta hér á landi árið 2010, Streptococcus zooepidemicus (S.zoo).

Smitandi hósti lýsir sér fyrst og fremst með hósta og oft sést hor í nösum hrossa sem fá hann. „Það er líklegt að þetta sé sama bakterían enda er hún nú landlæg hér á landi,“ sagði Sigríður „Hún virðist aðeins vera að ná sér á strik, sérstaklega í yngri hrossum. Við höfum verið að taka sýni en höfum ekki fengið greiningu úr þeim öllum. En einhver tilfelli eru staðfest. Hiti var alls ekki einkenni þegar veikin kom upp 2010 og er ekki einkenni á smitandi hósta. Þó geta verið undantekningar á því. Ef hestur er með hita getur verið um aðra stofna að ræða af S.zoo eða eitthvað annað.“

Ef hross eru með hita eða eru mikið veik segir Sigríður mikilvægt að kalla á dýralækni. Dýralæknirinn tekur þá sýni í samráði við hana ef ástæða er til en ekki ætti að gefa hrossum sýklalyf fyrr en búið er að greina sýnið. Ef einkennin samræmist smitandi hósta sé hins vegar óþarfi að taka sýni og svo framarlega sem hrossin eru ekki með hita ætti alls ekki að meðhöndla þau því þá ná þau ekki að mynda ónæmi fyrir veikinni. Sigríður segir að veikindin hafi komið upp á ákveðnum svæðum á landinu núna, en ekki sé hægt að segja að það sé mikið um þau.

Hún bendir hins vegar á að ef grunur leikur á að hross séu með óþekktan smitsjúkdóm sé mikilvægt að fólk tilkynni það til næsta dýralæknis, héraðsdýralæknis eða til Matvælastofnunar og raunar skylt. Þá er hægt að setja ákveðin viðbrögð í gang.

„Miðað við lýsingar fólks á veikindum sem nú hefur borið á virðast yfirgnæfandi líkur á að þetta sé smitandi hósti og ég hef enga ástæðu til að ætla að um annað sé ræða,“ segir Sigríður. „Þetta smitefni getur magnast upp inni í hesthúsum. Við verðum að átta okkur á því að nú eru hross sem fæddust eftir að pestin gekk árið 2010 orðin 8 vetra. Það er algengt að hross gangi í gegnum þessi veikindi folaldsárið sitt, en það geta verið hópar sem aldrei hafa sýkst. Þá eru þau næm fyrir þessu. Það er heldur engin trygging fyrir ævilöngu ónæmi gegn smitandi hósta þó þau hafi byggt upp ónæmi. Munurinn á stöðunni núna og 2010 er sá að meirihluti hrossastofnsins er með ónæmi þannig að við eigum ekki von á faraldri.“

En eins og áður segir getur bakterían magnast upp innan ákveðinna hesthúsa, helst þar sem er mikið af hrossum sem eru ekki með ónæmi. „Þá gildir að loka hrossin ekki allt of mikið inni og lofta vel út,“ segir hún. „Einnig þarf að halda húsunum hreinum og minnka smit í andrúmsloftinu. Það vill brenna við að ekki er nógu góð loftun í hesthúsum og fólk hefur hóstandi hesta mest inni. Þá magnast smitefnið gríðarlega upp. Menn verða að vara sig á þessu og þetta var einmitt brýnt fyrir fólki þegar faraldurinn gekk yfir 2010 en gekk ekki nógu vel að fá það til að fara eftir þessu.“

Fyrri greinÁbyrgðartrygging og slysatrygging eru grunntryggingar fyrir hestafólk
Næsta greinAukin hætta er á slysum á hestum úti í gerði á þessum árstíma