Einn eftirminnilegasti hestamaður síðustu áratuga er Sigurður Sigmundsson frá Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi, eða Siggi í Syðra eins og hann var jafnan kallaður. Siggi reið út, keppti, skrifaði um hesta og tók ljósmyndir. Hann þekkti ótrúlega margt hestafólk um allt land og margt af því voru góðir vinir hans. Siggi var mikið á ferðinni, hvort sem var í hestaferðum, á hestamótum eða að aka um sveitir landsins til þess að heilsa upp á sína fjölmörgu vini.

Hestar í kvöldsól. ©sigurðursigmunds

Siggi hafði næmt auga fyrir hestum og tók margar mjög góðar ljósmyndir. Segja má að hann hafi verið að læra ljósmyndun fram á síðasta dag. Hann hafði metnað og var ófeiminn að leita ráða hjá reyndum ljósmyndurum. Árið 2000 hélt Siggi ljósmyndasýningu þar sem hann sýndi afrakstur vinnu sinnar.

Ég man fyrst eftir Sigga á 8. áratug síðustu aldar. Hann kom og hitti hestaferðahóp sem ég var með þar sem við gistum í Hreppunum. Ekki var annað tekið í mál en að bjóða öllum hópnum heim í Syðra-Langholt þar sem móðir hans hafði útbúið mikið hlaðborð af kræsingum. Ferðafélagar mínir þekktu Sigga vel og fengu hann til að segja sögur m.a. af því þegar hann var kúreki í Ameríku.

Nokkrum árum seinna var ég í ritnefnd með honum á Eiðfaxa auk þess sem við hittumst oft á Morgunblaðinu þar sem ég starfaði og hann var fréttaritari. Síðar unnum við saman á Eiðfaxa og eftir það hittumst við oft í hringnum á hestamótum þar sem við vorum við myndatöku.

Við sem vorum samstarfsmenn Sigga í „hófapressunni“ minnumst hans með hlýju. Inni í hringnum á hringvelli ýmissa hestamóta naut hann sín. Það var alltaf eitthvað skemmtilegt að ræða um og stundum var tekist á um „hestapólitík“ og auðvitað voru ekki allir sammála um strauma og stefnur í hrossarækt og reiðmennsku. En alltaf var gaman, hvernig sem viðraði, og tilhlökkun að hittast aftur.

Sigurður lést árið 2013, aðeins 75 ára að aldri.

Fyrri greinNammigjafir þurfa að vera markvissar
Næsta greinHestur í toppþjálfun er mjög líklega aumur einhvers staðar