Að járna á aðeins þyngri skeifur er betra fyrir hestinn en að safna hófum

-ef leiðrétta þarf ganglag

8703
Hófar sem hafa verið látnir vaxa til þess að breyta ganglagi auka mikið álag á fætur hesta.

Lögun hófa getur haft mikið að segja fyrir ganglag hesta, en ekki síður fyrir heilbrigði þeirra og endingu. En hvað er eðlileg lögun hófa?

Sigurður Torfi Sigurðsson járningameistari rannsakaði hófa reiðhesta og kynbótahrossa í BS-ritgerð sinni við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri árið 2011, Hófar íslenskra hrossa Samanburður hófa reið- og kynbótahrossa. Þar kemur m.a. fram að meðal framhófur íslenskra reiðhesta er 7,7 sm langur á tá en 3,03 sm á hæl. Hallinn er 51,15° í tá en 47,89° í hæl. Munurinn á hæl og tá er því 3,31°. Meðal afturhófur er 7,51 sm langur á tá, en 2,60 sm í hæl. Hann hallar 51,69°í tá og 45,75°í hæl.

Í rannsókn Sigurðar voru niðurstöðurnar fengnar með því að mæla 89 reiðhesta á aldrinum þriggja til tuttugu og eins vetra. Hestarnir voru járnaðir eða tálgaðir í grunnstöðu og mældar voru 14 mælistærðir, lengd táar og hæls, halli táar og hæls, breidd hófs, lengd hófs frá tá að hóftungu, lengd hóftungu á fram- og afturhófum. Út frá þessum mælistærðum var reiknaður mismunur á hófhalla og halla hæls, neðri lengd hófs og mismunur á milli tálengdar fram- og afturhófa.

FEIF, alþjóðasamtök eigenda íslenskra hesta, styrkti rannsókn sem leidd var af þeim Nina Waldern og Michael Weishaupt og staðfesti hún þessar lengdir og stærðir hófa á íslenskum hestum. Sumar rannsóknir benda einnig til að halli hófa fari mikið eftir umhverfisaðstæðum og því landi sem hestarnir fara um. „Breitt svið á hófhalla getur því verið eðlilegt við ákveðnar umhverfisaðstæður og breytingar á hófhalla gætu átt sér stað á fremur stuttum tíma. Í samanburði við rannsóknir … [ættu] íslenskir hestar sem aldir eru upp í votlendi að vera með flatari hófa en hross alin á grýttu landi eða fjalllendi. Form og vöxtur hófa fer því ekki einungis eftir erfðaþáttum, heldur einnig umhverfisaðstæðum. Inngrip mannsins með járningum eða hófsnyrtingu getur einnig haft áhrif á form og halla hófa…,“ segir Sigurður Torfi í rannsókn sinni.

Járna á hesta reglulega og klippa hófa í eðlilega hófstöðu, grunnstöðu hófs. ©Gunnar Halldórsson

Í samtali við Hestamennska sagði Sigurður Torfi að þó rannsóknin sé nokkurra ára gömul sé það sem hér að ofan komi fram enn gott og gilt. En tekið hefur verið á ýmsum málum í sambandi við hófa í kynbótadómi frá því að ritgerð hans var birt.

En hvaða áhrif hefur það að láta hófinn vaxa?

Lengri tá eykur þyngd hófsins og býr til meira vogarafl á fætinum. Eftir því sem hófur er lengri veltur hann hægar yfir, en skrefferillinn verður hraðari. Skrefferill er sú atburðarrás sem á sér stað eftir að táin veltur yfir og hófur lyftist frá jörðu og þar til hann lendir aftur og tekur við þyngd hestsins. Við það að skrefferillinn verður hraðari þá eykst fótaburður og skreflengd verður meiri. Þetta þykja jákvæðir eiginleikar í kynbótadómi og telur Sigurður Torfi að ef merkt er við þessa jákvæðu eiginleika hjá kynbótadómurum séu líkur á því að hófar þeirra hrossa séu langir. Samkvæmt reynslu hans sem járningamanns eru mörg hross mjög viðkvæm fyrir litlum breytingum í hóflengd og niðurstöður rannsóknarinnar benda til að hóflengd sé mikið notuð til að leiðrétta gangtegundir og auka fótaburð og skreflengd.

Breytingar á hóflagi getur haft þær afleiðingar að álag eykst á hófa og fætur hrossa. Einnig þegar halli tálínu verður minni en halli hófbeins, þ.e. þegar hælar eru hafðir of háir. Þá myndast álag á hvítu línuna þannig að kvikuslit getur myndast. Við þess háttar kvikuslit getur hófveggur brotnað frá hófkviku, eða óhreinindi borist upp með hvítu línu, inn í hófkviku og jafnvel valdið sýkingu sem leitt getur til hófsperru. Of háir hælar valda álagi og þrýstingi í aftanverðu hófhvarfi. Meiri hreyfing verður á hælsvæðinu, en ef hestar eru járnaðir í grunnstöðu, þannig að sveigja í þófunum verður meiri. Við þessar aðstæður getur myndast þófaskekkja, auk þess sem eðlileg hófvirkni er hindruð og mun meiri þrýstingur verður á hælsvæðið við hreyfingar hestsins en eðlilegt er.

Sigurður Torfi var spurður að því hvort fólk væri að safna hófum á reiðhestum sínum til þess að ná fram auknum fótaburði og leiðrétta ganglag.

„Það kemur alveg fyrir að venjulegt útreiðafólk safni hófum á hestum sínum, oft er það samkvæmt ráðleggingum „reyndra knapa“,  en ég hef líka heyrt slíkar ráðleggingar frá reiðkennara. Þetta er samt á undanhaldi. Ég held að meira hafi verið um þetta áður fyrir 15 til 20 árum,“ sagði hann.

Það sem fólk þurfi að hafa í huga, segir hann,  er að járna reglulega og klippa hesta sína í eðlilega hófstöðu, grunnstöðu hófs. Það er líka ágætt að hafa í huga að hófsöfnun hefur mismunandi áhrif á hesta. „Stundum hjálpar að safna aðeins hófum til að leiðrétta ganglag en yfirleitt vinnur það á móti hestinum. Hver millimetri sem bætist við eykur álag á fætur og hesturinn þarf að breyta líkamsbeitingu sinni og hann fer jafnvel að leggjast á taum. Hófsöfnun á þar af leiðandi alltaf að vera seinni kostur og þá til skamms tíma. Hún er ekki framtíðarlausn. Með skrokkstífa hesta virkar t.d. yfirleitt mun betur að nota heldur þyngri skeifur en safna hófum“.

Langur hófur klipptur. Hver millimetri sem bætist við eykur álag á fætur hestsins.

Sigurður segir að það gæti allskonar misskilnings í þessum efnum. „Sumir telja að hestarnir sínir verði sárfættir ef þeir eru klipptir í grunnstöðu og telja að t.d. í hestaferðum sé betra að vera með aðeins vaxna hófa. Það er náttúrulega tóm þvæla og verra í alla staði og mikið notaðir hestar ættu aldrei að vera með langa hófa. Einnig styrkist hófbotninn og vex meira við örvun og á eðlilega klipptum hófi er núningur og viðkoma hófbotns við jörðu líkari því sem eðlilegt er hjá hestum við náttúrulegar aðstæður og þar af leiðandi meiri vöxtur og endurnýjun á hófefni. Hins vegar er um að gera að nota botna og góð fylliefni ef menn telja að hestarnir geti orðið sárfættir t.d. í erfiðum hestaferðum. Einnig er það algengt að fólk telji eðlilegt að hófar „stækki“ þegar líður á vetur og vor, en það er ekki rétt. Hófar geta aðeins breyst í formi og oft þarf að stækka eða minka skeifur en grunneiningin stækkar ekki.“

Að lokum vill Sigurður Torfi benda hestaeigendum á eftirfarandi: „Hestaeigendur og járningamenn ættu alltaf að ráðfæra sig um hvernig á að járna. Eigandinn hefur alltaf upplýsingar sem járningamaðurinn veit ekki af og oft hugmyndir sem vert er að íhuga. Eigandinn á einnig að gera þá kröfu á járningamanninn að hann hafi þá þekkingu sem þarf til að járna hestinn eftir þörfum hestsins. Járningamaðurinn má ekki vera yfir það hafinn að hlusta á hugmyndir eða óskir eigandans. Járningamaðurinn á líka að geta fært rök fyrir máli sínu ef hann telur eigandann vera með rangar hugmyndir og óraunhæfar kröfur og ef hann er ekki viss á hann að afla sér þekkingar um það. Það er til fullt af efni á netinu og síðan er ekkert að því að spyrja aðra reyndari járningamenn ráða.“

 

Fyrri greinMerkilegar rannsóknir á uppruna og sögu tamda hestsins
Næsta greinReglugerð um velferð hrossa er nauðsynlegt tæki fyrir eigendur og umráðamenn hrossa