Hröð öndun í miklu frosti getur skaðað lungu hrossa

2778
Að ríða út í frosti
Nota þarf almenna skynsemi og meta hvað má leggja á hrossin í miklu frosti. ©asdishar

Kuldakastið undanfarnar vikur er bæði óvenju langt og kuldinn óvenju mikill. Frostið hefur farið í undir -20° í Víðidal í Reykjavík, stærsta hesthúsahverfi landsins. En hvað segja vísindin? Hefur eitthvað verið rannsakað hvaða áhrif þetta hefur á hestana okkar? Er óhætt að ríða út í þessum kulda?

Hestamennska hafði samaband við Helgu Gunnarsdóttur dýralækni sem sérhæfir sig í hestalækningum. Hún segir að gerðar hafi verið rannsóknir á viðbrögðum hesta í kulda erlendis en engin slík sé til varðandi íslenska hestinn. Í rannsóknunum kemur fram að þegar hitastigið er komið niður í -5° þá ná hrossin ekki að hita loftið áður en það er dregið niður í stóru og miklu lungun þeirra. Loft þarf að vera búið að ná vissu hitastigi áður en það nær niður í lungnablöðrurnar.

„Ef hrossin reyna á sig í miklum kulda og anda hraðar og ná því ekki að hita loftið áður en það kemur í lungun þá bregst líkaminn við. Efsta lagið á frumunum í öllu öndunarkerfinu er þakið mjög fínum hárum. Sú starfsemi fer úr skorðum og framleiðsla á hvítum blóðkornum eykst og það verður aðeins meiri vökvaframleiðsla í efri hluta öndunarfæranna,“  segir Helga. „Þetta er meira rannsakað hjá mannfólkinu og afreksíþróttafólki hefur verið bent á að þegar það reynir á sig í kulda er hætta á  vandamálum, eins og þurrasma. Hugsanlega má leiða líkum að því að svipað sé með hrossin, en við þekkjum það ekki nógu vel. Það eru ekki nógu mikið til af staðfestum rannsóknarniðurstöðum um þetta. Þegar ég var við störf erlendis sá ég mörg tilfelli asma hjá horssum. Sem betur fer er ekki algengt að hann greinist í þeim íslensku.  Við vitum að íslensku hestarnir eru aðlagaðir að kulda, en ekki hversu mikið þeir eru aðlagaðir að áreynslu í svona miklum og langvarandi kulda.“

Helga segir að samkvæmt rannsóknum erlendist hafa verið gefnar út ráðleggingar um að ríða ekki út þegar hitastigið er komið í -5° eða niður fyrir það.

„Það er ekki endilega rétt að segja að hrossin megi ekki vera úti eða að þau séu ekki hreyfð í þessari óvenjulegu kuldatíð,“ segir hún. „Við verðum að nota almenna skynsemi því vísindin eru ekki alveg með svörin. Þú þarft að hafa tilfinningu fyrir hestinum þínum og spyrja spurninga. Hóstar hann? Eða er eins og hann nái ekki að uppfylla kröfur sem þú gerir til hans í þessu frosti?“

Hestamennskan er orðin fjölbreyttari en áður var. Reiðskemmur eru víða og þá birtist annar vinkill. Margir vilja bæði geta þjálfað hestana sína inni og úti, en líklega er ekki skynsamlegt að ríða rökuðu hrossunum úti núna.

„Ég er hlynnt því að hross, sem er riðið mikið inni, séu rökuð því að hitinn sem þau framleiða verður að geta gufað upp. Ef þau eru mjög loðin nær ekki að gufa upp af þeim inni. Það eru til rannsóknir sem benda til þess að ef reynt er á hross inni sem eru mjög loðin eru þau með mun hraðari hjartslátt. Þau eru því undir meira álagi en rökuðu hrossin.

Mörgum þykir gaman að ríða út í þessu góða færi, en fólk þarf að hafa tilfinningu fyrir hvað má bjóða hrossunum. Ef til vill gætum við farið eftir þessum erlendu leiðbeiningum og leggja ekki mikið á hestinn ef komið er niður í -5°. Auðvitað eru hestar misjafnir og í mismikilli þjálfun. Margir eru að taka inn um þessar mundir og hestarnir því ekki komnir í neina þjálfun, þeir eru enn þá að heyjast og venjast breyttri fóðrun. Að ríða þeim í þessum kulda er því auka álag. Hjá öðrum byrjar tímabilið fyrr, til dæmis þeim sem þjálfa fyrir keppni, sem byrjar snemma árs núna. Það er breyting frá því sem áður var og hjá vissum hópi hestamanna liggur meira á að þjálfa hrossin á þessum árstíma.

Hjá almennum hestamönnum sem eru kannski nýbúnir að heyja og járna hesta sína held ég að ástæða sé til þess að taka því frekar rólega í þessu frosti vegna öndunarfæranna, ríða hægt, helst á feti þannig að hesturinn nái að hitna í rólegheitum og öndunin nái að fylgja getu hans í kuldanum þannig að hann verði minna móður. Hestar eru með mjög stór lungu og öflug loftskipti og því skiptir miklu máli að þeir nái að hita upp loftið áður en það fer ofan í lungu. Hestar sem hafa svitnað eiga ekki standa úti í kuldanum eftir reiðtúrinn. Þetta er svona almenn skynsemi.“

 

Fyrir áhugasama. Neðst á síðunni sem opnast með þessum tengli er hægt að komast inn á margar fleiri greinar um efnið.

https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/17402479/

Fyrri greinMagasár mun algengara í íslenskum hrossum en áður var talið
Næsta greinMesta fóðurbreyting sem hross verða fyrir er þegar þeim er sleppt á vorin