Mannsævin dugar ekki til að læra allt um hesta

- segir Rúna Einarsdóttir sem býður upp á fjarkennslu í reiðmennsku

4182

Rúna Einarsdóttir hefur sett á fót fjarkennslu í reiðmennsku eða eins og segir svo skemmtilega á vefnum Fjarkennsla Rúnu (fjarkennslarunu.is): „Einstaklingsmiðuð fjarkennsla fyrir íslenska hesta og knapa þeirra“. Það lýsir ef til vill best markmiðum kennslunnar því Rúna leggur áherslu á gagnkvæman skilning manns og hests á forsendum knapans en fyrst og fremst á forsendum hestsins.

Hestamennska tók hús, eða réttar sagt hesthús, á Rúnu á svæði Spretts á Kjóavöllum til þess að fræðast nánar um fjarkennsluna og almennt um viðhorf og reynslu Rúnu. Óhætt er að segja að aðstaðan í hesthúsi Rúnu sé til algjörrar fyrirmyndar og þar fer vel bæði um hesta og menn. Þeir sem hafa fylgst með hestamennsku hennar í gegnum tíðina minnast þess eflaust að hún var fræg fyrir snyrtimennsku þegar hún starfaði á Stóðhestastöð ríkisins í Gunnarsholti á sínum tíma og setti vafalaust ný viðmið í umgengni í hesthúsum.

Fjarkennsla Rúnu er eins og nafnið gefur til kynna reiðkennsla sem fer fram á netinu. Um er að ræða tvenns konar áskrift. Annars vegar Reiðkennsluáskrift og hins vegar Fræðsluáskrift. Enn sem komið er er efnið allt á íslensku en stefnt er að því að bjóða einnig upp á kennslu á ensku og mögulega þýsku.

 

Fór á Hvanneyri til að vinna Morgunblaðsskeifuna

Rúna ólst upp á Mosfelli í Austur Húnavatnssýslu. Hún segist hafa lært mikið af föður sínum, hinum kunna og vel metna hestamanni Einari Höskuldssyni. Til gamans má rifja upp að þegar Landssamband hestamannafélaga heiðraði Einar fylgdu m.a. þessi orð í ræðu af því tilefni: „Að lokum er rétt að geta þess að Einar hefur alla tíð verið ræktandi. Hápunkturinn á þeirri vegferð er þegar hann gaf okkur hana Rúnu Einarsdóttur, sem breytti viðhorfum okkar íslenskra hestamanna til hins betra í tamningum, meðferð hrossa og snyrtimennsku þau ár sem hún starfaði á Stóðhestastöð ríkisins í Gunnarsholti. Rétt er að taka fram að það gerði hann með hjálp eiginkonu sinnar Bryndísar Júlíusdóttur, sem er stödd hér líka.“

Rúna segir að pabbi hennar hafi þó oft látið hana sjálfa um að leysa vandamál og sagt við hana að ef hún mundi ekki sjálf finna út úr hlutunum mundi hún aldrei læra. „Það er ekki meðfætt að kunna að temja og fóðra hesta þannig að ég naut góðs af því að læra af föður mínum. Hann hvatti mig alltaf til að prófa mig áfram. Ég er sveitastelpa sem var á hestbaki frá því að ég man eftir mér. Þótt ég væri alltaf á hestbaki fékk ég ekki skipulagða reiðkennslu. En ég vildi óska þess að ég hefði getað byrjað fyrr í skipulagðri reiðkennslu,“ segir hún.

„Ég fór í nám á Hvanneyri á sínum tíma. Þar voru 120 nemendur og mikið fjör. Mig langaði meira að fara suður en á Hóla, enda var Hólaskóli nýbyrjaður aftur eftir ára hlé. Ef ég man rétt tók hann aðeins sjö nemendur á fyrsta ári og það þótti mér ekki nógu spennandi. Pabbi var frá Vatnshorni í Skorradal og þess vegna mig langaði í Borgarfjörðinn. Hestamennskan var á þeim tíma ekkert endilega í hávegum höfð á Hvanneyri, en ég fór í skólann bara til að reyna að vinna Morgunblaðsskeifuna. Ég viðurkenni það núna. Þetta voru sérstkök verðlaun þá. Maður gat bara keppt um Skeifuna einu sinni, á seinna árinu á Hvanneyri. Það var aðeins þessi eini möguleiki að vinna hana.  Það fannst mér spennandi.  Maður vissi líka að þeir sem höfðu unnið Skeifuna höfðu alltaf getað fengið vinnu við að temja. Það var aðalatriðið. Og ég vann Skeifuna og hún hangir hér uppi á vegg og mér þykir sérstaklega vænt um þessi verðlaun. En ég lærði líka að járna ein. Ég og einn strákur í hópnum vorum sérstaklega áhugasöm um að læra járningar hjá Sigurði Oddi Ragnarssyni og fengum því að æfa okkur á öllum skólahestunum.“ Þetta kom sér vel fyrir Rúnu því eftir námið á Hvanneyri tók hún að sér að dvelja ein á Hveravöllum og ríða með sauðfjárveikivarnargirðingum.

 

Reiðmennskuhefðir Íberíuskagans henta okkar hesti vel

Síðan lá leiðin til Þýskalands. „Ég fór út til Þýskalands fljótlega eftir að ég var á Hvanneyri og þar kynntist ég margs konar hestum. Mér fannst þá að Þýskaland væri Mekka gamalla hefða í reiðmennsku. Ég var dugleg að sækja námskeið og fór til dæmis í reiðkennslu til konu sem er mjög fær dressúrreiðmaður. En hefði ég vitað meira þá hefði ég örugglega farið frekar á Íberíuskagann,“ segir Rúna. „Þeirra reiðmennskuhefðir heilla mig mjög og mér þykja þær henta okkar hesti vel. Þeir nota hestinn t.d. eins og við þegar kemur að smölun bæði á kúm og kindum,” segir hún.

„Að fara á námskeið til Portúgalans Julio Borba er einmitt Það sem mér finnst hvað skemmtilegast í hestamennskunni núna. Hann er reiðmaður af guðs náð, mjög næmur. Hann hefur verið í reiðkennslu alla sína æfi í reiðmennsku sem byggir á gömlum hefðum og ómetanlegum fræðum. Sumir hnussa yfir þessu og spyrja hvort ég viti ekki allt eftir að hafa verið svo lengi í þessu. En maður veit aldrei allt um hestinn, hegðun hans, jafnvægi, líkama, sálarlíf og hugsun og hvernig við vinnum með hestinn til að auka skilninginn á samskiptunum. Þetta er svo mikill lærdómur að það dugar ekki mannsævin þótt maður gerði ekkert annað.“

Rúna flutti heim frá Þýskalandi eftir að hafa búið þar í 20 ár til þess að vera hér á Íslandi. „Eftir allan þennan tíma í hestamennsku hefði ég getað haldið mig við að vera alltaf að fara út til að kenna en mig langar bara að vera á Íslandi,“ segir hún. „Víðast hvar erlendis er miklu meiri hefð fyrir reiðkennslu. Einhver sagði mér að víða erlendis hugsi fólk að það eyði jafn miklum peningi í að læra á hestinn sem það keypti og hann kostaði. Víða tíðkast að vera meira og minna í reiðkennslu alla tíð, eða undir leiðsögn kennara eða þjálfara. Sem reiðkennari er mjög gaman að hjálpa nemanda í gegnum langt tímabil og sjá hann vonandi ná að bæta sig.“

Henni finnst umhugsunarvert að við þurfum að læra heilmikið til að fá að keyra bíl. En fólk megi hella sér út í að vera með lifandi skepnu þótt það viti allt of lítið um hana. „Þegar fólk byrjar í hestamennsku veit það eðlilega ekki mikið.“

 

„Við þekkjum hvernig það er að komast ekki í hnitmiðaða reiðkennslu“

Fyrir nokkru síðan kom góður vinur Rúnu með hugmynd um að hún mundi koma á fót netkennslu í hestamennsku. Henni leist ekkert á það í fyrstu. Síðan kom Fanney Hrund Hilmarsdóttir líka með þessa hugmynd. Fanney Hrund og Rúna kynntust sumarið 2011 þegar Fanney vann ásamt eiginmanni sínum, Steinþóri Runólfssyni, á búgarði Rúnu í Þýskalandi. Fanney dvaldi einnig um tíma í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi og kynntist eigendum íslenskra hesta þar. Þar kviknaði hugmyndin um fjarkennslu.

„Ég var að kíkja á hest hjá Fanneyju og við stóðum í skafrenningi fyrir utan reiðhöllina í Spretti þegar hún skellti því fram hvort ég vildi ekki vera með netkennslu. Ég fór að hlæja af því að hún veit hvað ég var klár á tölvu, eða þannig,“ segir Rúna og hlær. „En svo segi ég við hana: Allt í lagi, ef þú ert með mér. Þannig byrjaði þetta og ég vissi að þetta yrði í lagi því Fanney er mjög vandvirk og klár í öllu sem hún gerir. Hún sér um öll tæknimálin auk þess sem hún er mjög góður penni og vel máli farin. Hún kemur úr sveit eins og ég og þekkir hvernig það er hvernig er að vera svolítið ein í hestamennskunni, þ.e. hafa ekki aðstöðu til að komast í hnitmiðaða reiðkennslu. Það kyndir enn undir því markmiði okkar að færa reiðkennsluna nær þeim sem eiga ekki endilega heimangengt. Við fengum styrk í fyrra og tíminn fram að því að kennslan byrjaði í apríl fór í undirbúning við að byggja upp vefinn, tökur á myndböndum og skipulagningu.“

 

Fjarkennsla Rúnu
Fjarkennsla Rúnu er aðgengilegur og fallegur vefur (Skjáskot)

Reyni að mæta fólki þar sem það er statt í sinni hestamennskku

Með fjarkennslunni vill Rúna höfða til fólks á flestum stigum reiðmennskunnar, fólks sem komið er misjafnlega langt og með alls konar hesta. „Ég reyni að meta hestana út frá upplýsingum og myndböndum sem fólk sendir mér og einnig svara þeim spurningum og vangaveltum sem fólkið ber fram. Ég reyni að hjálpa fólki þar sem það er statt í sinni hestamennsku og koma með verkfæri og hugmyndir um hvernig ég mundi leysa vandamálin sem það stendur frammi fyrir.  Í fyrsta hópnum voru nemendur á ýmsum stigum og kennslan því einstaklingsbundin.“

„Ég vil ná til fólks sem til dæmis býr úti á landi og er ef til vill eitt í sinni hestamennsku. Í útlöndum er algengt að konur séu einar í sinni hestamennsku. Fjölskyldan hefur kannski engan áhuga og þær hafa ekkert bakland. Þær vilja geta stundað sína hestamennsku en upplifa alls konar hindranir og hafa þá kannski engan til að leita til nógu reglulega. Ég vil líka geta miðlað til fólks alls konar þumalputtareglum og leiðum sem hjálpa viðkomandi til að hann þurfi ekki vera sífellt að baksa með hestinn í sama vandamálinu.“ Rúna hefur sjálf reynslu af þessu. „Það hefði oft verið gott að geta ráðfært sig við reiðkennara eða haft aðgang að upplýsingum,” segir hún.

„Á vefnum erum við til dæmis með nokkurs konar orðabók og gullkornabank þar sem við komum með ýmis ráð. Við reynum að svara spurningum eins og: Af hverju sveigir maður hest? Af hverju þarf að leyfa honum að teygja sig fram og niður?  Þarna verður bent á ýmislegt sem maður þarf að vita. Fólk sér aðra gera hluti og fer að prófa sjálft, en gerir þá kannski ekki rétt.

Við þurfum alltaf að byggja hestinn rétt upp með því að hugsa út í hvað hestinum finnst þægilegt að gera því þá getur hann svo lengi batnað og endst okkur svo mikið lengur.  Hugsum þetta þannig að þú og hesturinn gerið hlutina saman og hafið gaman,” segir Rúna. „Svo þurfum við að muna að umbuna hestinum þegar hann er góður svo að hann skilji hvað hann á að gera rétt. Hvernig í ósköpunum á hann að skilja það þegar hann er stanslaust skammaður? Þú getur umbunað honum á margan hátt. Þetta skiptir sköpum, jafnvel þótt þetta séu litlir hlutir.  Ég umbuna hestunum mínum á ýmsan hátt og gef þeim oft nammi, en alls ekki alltaf. Þetta getur orðið vandamál, en mínir hestar vita að sníkjur eru ekki í boði og ég gef þeim þegar þeir gera vel. En þeir verða að bíða kurteisir eftir molanum.“

 

Til að njóta hestsins sem best þarf maður að vera sanngjarn við hann

Rúna segist ekki vera að finna upp hjólið með fjarkennslunni. „Ég reyni að nota mína reynslu og það sem ég hef lært og miðla því áfram. Ég veit ekki allt og ég er enn að læra og maður lærir líka af nemendum sínum og þeim mismunandi hestum sem þeir eiga. Líkamleg vellíðan hestsins, fóðrun og sálrænt ástand hans skiptir miklu máli. Líka fólksins. Ef maður er illa upp lagður ætti maður alls ekki að þjálfa hestinn sinn. Ég hef oft hugsað það. Ég hefði betur látið það ógert ef ég er alls ekki stemmd til að fara á bak. Maður skemmir þá ekkert á meðan. En það þarf mikinn dugnað og mikla eljusemi til að ná framförum. Það vinnur enginn Ólympíuleikana ef hann æfir sig ekki. Þetta er ótrúlega mikil samhæfing milli tveggja ólíkra dýrategunda og með ólíkindum hvað hesturinn leyfir okkur að nota sig. Þetta er yndislegt dýr.

Ævi hestsins getur verið löng, en hann þarf að fá góðan tíma til að læra. Hann þarf líka að læra tungumál knapans. Það getur verið flókið fyrir hestinn ef það eru margir knapar sem ríða honum því við erum svo ólík  líkamlega, hvernig jafnvægið er, hæð, þyngd og einnig hvernig samband okkar er við hestinn. Það er erfitt fyrir hest að þurfa að stilla sig inn á marga knapa. Ég er mjög hestsár. Ég lána helst ekki hestana mína, bestu vini mína. Engir tveir knapar eru alveg eins og mér finnst ósanngjarnt að gera þá kröfu að hesturinn þurfi að stilla sig inn á það. Kannski er það fyrir hestinn eins og við þyrftum skyndilega að kunna reiprennandi eitthvert framandi tungumál. Þó er það skárra fyrir hestinn ef tvær manneskjur sem hafa lært mikið á sama grunni og tileinkað sér sömu hluti og eru að öðru leyti líkar skiptist á hestum. Þær nota sömu boð.

Almennt hjálpar það okkur í sambandi við svo margt í hestamennskunni að setja okkur í spor hestsins og til að njóta hestsins sem best þarf maður að vera sanngjarn við hann.“

 

 

 

Fyrri greinHófsperra – kvalarfullur velferðarsjúkdómur í hrossum
Næsta greinHestar þurfa gott skjól, nægt fóður og vatn í haust- og vetrarhaganum