Ábyrgð þeirra sem eiga hest er mikil og þarf ekki að vefjast fyrir neinum. Reglugerð um aðbúnað hrossa er skýr hvað þetta varðar og sífellt verður einfaldara að hafa eftirlit með upplýsingum um öll hross í gegnum gagnagrunninn WorldFengur.

Öllum hestaeigendum er í raun skylt að gera haustskýrslu en samkvæmt upplýsingum frá Sigríði Björnsdóttur, dýralækni hrossasjúkdóma, er nóg fyrir þá sem halda hross á húsi, kaupa hagagöngu, en heyja ekki sjálfir, að sjá til þess að upplýsingarnar um hross þeirra í WorldFeng séu réttar. Nú er BÚSTOFN þar sem skráður er búfjárfjöldi og heybirgðir á hverju hausti, beintengdur við WorldFeng og þar með nægja þær upplýsingar um hrossaeign sem þar er ef hún er uppfærð og rétt hverju sinni. Þeir sem halda mörg hross og heyja sjálfir gera áfram haustskýrslu í BÚSTOFNI. Þeir sem taka hross í hagagöngu og eru umsjónarmenn þeirra eiga að geta þeirra á sinni haustskýrslu.

Í raun er skylt samkvæmt reglum að sjá til þess að hross séu rétt skráð í WF

Gagnagrunnurinn gildir sem hestapassi sem hvert hross þarf að hafa samkvæmt reglum Evrópusambandsins. WorldFengur var viðurkenndur sem rafrænn hestapassi og segir Sigríður að því mikilvægt að hestamenn standi saman og sjái til þess að upplýsingar þar séu réttar til þess að það verði viðurkennt áfram.

Hvert hross þarf að vera örmerkt og skráð í WorldFeng. Hver sá sem skráður er í hestamannafélag getur sótt um ókeypis aðgang að gagnagrunninum. Þar geta svo hestaeigendur uppfært allar upplýsingar um hrossið, um afdrif þess, fang- og folaldaskýrslur hryssna, geldingu, sölu o.fl. Öll eigendaskipti skulu einnig skráð.

Ef hestur er settur í sumar-, haust- og/eða vetrarbeit þarf að skrá hver sé umsjónarmaður hans samkvæmt reglugerðinni. Að sögn Sigríðar getur fólk ekki bara haft sína hentisemi með það. Hestur þarf alltaf að vera á ábyrgð einhvers. Ef ekki eigandans þá umsjónarmanns. Þetta þarf að gera jafnvel þótt hagagangan sé aðeins tímabundin, enda er auðvelt að afskrá umsjónarmann í WorldFeng þegar hesturinn er aftur kominn til eiganda síns. Umsjónarmanni eða eiganda er skylt samkvæmt reglugerð um velferð hrossa að hafa eftirlit með hestinum a.m.k. einu sinni í viku, en oftar ef t.d. er um að ræða fylfullar hryssur eða hryssur með folöld undir sér.

Rétt er að benda hestaeigendum, sem ekki eru þegar með aðgang að WorldFeng, á að sækja um hann hjá sínu hestamannafélagi. Sjálfsagt er fyrir alla hesteigendur að ganga í hestamannafélag. Annars er hægt að kaupa aðgang að WorldFeng. Dæmi um árgjald í hestamannafélagi er 12.000 krónur, en ársáskrift að WorldFeng er 20.662.

Fyrri greinMenntun er lykillinn inn í framtíðina
Næsta greinNammigjafir þurfa að vera markvissar