Vetrarreiðskóli fyrir börn og fullorðna, byrjendur og lengra komna

- Hentar til dæmis þeim sem vilja læra meira, ríða út og þróa hestamennskuna án þess að eiga hest, hnakk eða beisli.

5180
Vetrarreiðskóli
Nemendur í sumarreiðskólanum hjá Hestalífi vildu eiga kost á vetrarreiðskóla. Mynd frá Þórdísi Önnu.

Marga dreymir um að stunda hestamennsku en eru kannski ekki tilbúnir til að kaupa sér hest, hnakk og beisli og allt annað sem til þarf til þess að byrja. Þá getur komið sér vel að geta haft aðgang að hesti og búnaði og auk þess lært allt sem þarf að læra um hestinn og hestamennsku. Reiðskólinn Hestalíf, sem staðsettur er í Spretti og hefur starfað undanfarin tvö sumur býður nú einnig upp á vetrarreiðskóla.

Fyrst verður jólareiðskóli þar sem boðið er upp á tvö þriggja daga námskeið, en að sögn Þórdísar Önnu Gylfadóttur reiðkennara er þegar uppselt í jólareiðskólann. Í janúar hefst vetrarreiðskólinn og er þá boðið upp á fjögurra vikna námskeið þar sem kennt er tvisvar í viku, annars vegar fyrir börn og unglinga og hins vegar fyrir fullorðna. Einnig er boðið upp á sex vikna námskeið og er þá kennt einu sinni í viku, annars vegar fyrir börn og unglinga en hins vegar fyrir fjögurra til sjö ára börn. Einkatímar eru líka í boði.

Kennsla fer fram í reiðhöll, í reiðgerði og í reiðtúrum á svæði hestamannafélagsins Spretts. Farið verður yfir öll helstu atriði sem snúa að hestamennskunni en aðeins eru fjórir til fimm í hverjum hópi. Námskeiðin eru fyrir fólk á öllum getustigum og er boðið upp á trausta og vel tamda hesta við hæfi hvers og eins. Þórdís Anna er með mikla reynslu en hún er menntaður reiðkennari frá Háskólanum á Hólum.

„Þetta er í fyrsta skipti sem við bjóðum upp á vetrarreiðskóla,“ sagði Þórdís Anna í samtali við Hestamennsku. „Ég og Erla Guðný systir mín höfum rekið reiðskólann Hestalíf yfir sumarið en við fundum að krakkarnir sem koma til okkar á sumrin vilja gjarnan halda áfram yfir vetrartímann. Foreldrarnir kvarta yfir því hve lítið er í boði á veturna og vilja mjög gjarnan styðja börnin sín í hestamennskunni sem þeim finnst vera heillandi.  Krakkarnir læri að umgangast dýrin og taka ábyrgð, en jafnframt þykir mörgum það of mikil skuldbinding að kaupa hest og hugsa um hann alla daga.

Það vantar einhverja brú þarna á milli og því fannst mér liggja beint við að bjóða upp á vetrarreiðskóla. Við byrjum á þriggja daga námskeiðum í kringum jól og áramót og mér finnst það sýna að áhugi er á þessu að þegar er uppselt á þau námskeið,“ sagði Þórdís Anna.

Þó nokkuð er farið að bókast á námskeiðin sem hefjast í janúar og sagðist Þórdís Anna hafa fengið mörg símtöl frá fullorðnu fólki sem hefur áhuga á að byrja í reiðskólanum. „Þetta er fólk sem er í alls konar aðstæðum. Sumir hafa átt hest og hafa kannski vaxið upp úr honum. Þeir hafa áhuga á að fá sér nýjan hest, en vilja geta prófað sig áfram með alls konar hesta áður en þeir ákveða að kaupa. Það getur verið mikið stökk að skipta um hest eftir að hafa kannski verið á sama hestinum í 10 ár. Aðrir hafa keypt hest sem ekki hefur reynst þeim vel eða eitthvað hefur komið upp á og vilja byggja kjarkinn upp aftur. Enn aðrir hafa verið í hestamennsku sem börn og þá langar að byrja aftur, en vilja ekki kaupa sér hest og allan búnað til að byrja með. Fólkið er því að forvitnast um hvort þessi námskeið henti því, sem ég tel að þau geri.“

Þórdís Anna segist vera með góða og vel tamda hesta en hvernig hefur henni gengið að koma sér upp slíkum hestum?

„Við systurnar og mamma okkar erum í hestamennskunni og eigum við orðið nokkuð stóran hóp af hrossum auk þess sem við ræktum hross frá Hofsstöðum í Garðabæ sem hafa reynst okkur mjög vel. Systir mín á þrjár stelpur sem eru allar á kafi í hestamennsku og hún hefur því þurft að eiga nokkur mjög góð hross fyrir þær í gegnum tíðina. Hestarnir sem eru í reiðskólanum eru hestar sem við systurnar höfðum keppt á og sumir hafa farið í gegnum Hólaskóla með mér. Þetta eru hestar sem mamma mín, sem er komin yfir sjötugt, ríður á og fer á í hestaferðir. Systurdætur mínar hafa keppt á þeim, riðið út á og leikið sér á þeim. Sem betur fer höfum við haldið í þá en ekki látið þá frá okkur. Þörfin fyrir svona hesta kemur alltaf upp aftur og aftur.

Við erum mjög duglegar að kaupa hesta og rækta hesta en mjög lélegar í að selja hesta þannig að hrossastóðið okkar stækkar jafnt og þétt.“ segir Þórdís Anna hlæjandi. „Við vorum því komnar með svolítinn hóp af fullorðnum, góðum hestum, og þeir voru bara að eldast í sveitinni og voru lítið notaðir. Við höfðum hugsað lengi um að stofna reiðskóla og þessir hestar smellpassa í hlutverk reiðskólahesta. Reiðskólinn hefur haft mjög góð áhrif á þá og segja má að þeir séu orðnir ungir aftur.“

Systurnar ákváðu að stofna reiðskólann og sjá alls ekki eftir því. Þær bjóða upp á bæði bóklega og verklega tíma og farið er á hestbak bæði fyrir og eftir hádegi. Hver og einn fær úthlutað hesti og búnaði sem viðkomandi hefur á námskeiðinu út af fyrir sig. Í sumarreiðskólanum eru aðeins 10-12 nemendur á hverju námskeiði og tveir reiðkennarar auk aðstoðarmanna.

„Við bjóðum upp á mikla kennslu og það er mikið farið á hestbak. Þannig er þetta í sumarskólanum og þannig verður það einnig í vetrarskólanum. Ég verð að vísu eini reiðkennarinn ásamt aðstoðarmanneskju, en þá verða bara fjórir til fimm nemendur á hverju námskeiði. Við höfum það einnig þannig að hver og einn fær sinn hest og búnað sem hann hugsar um allan tímann. Stóra systir verður samt á kantinum ef á þarf að halda.

Ég treysti hestunum mjög vel, enda góðir og mikið tamdir. Þarna eru fullorðnir, mjög lífsreyndir hestar en einnig yngri hestar sem ég þjálfa og ríð sjálf. Þeir eru líka í boði fyrir fólk sem er komið lengra. Hestarnir sem ég er með í reiðskólanum henta því fólki á breiðu getubili.

Í reiðskólanum fer ég alltaf með, það er því alltaf kennsla, þó mismikil. En þetta geri ég einnig til þess að ganga úr skugga um að allt sé í lagi og öryggið sé í fyrirrúmi. Ég vona að þessi þjónusta falli fólki vel í geð og að hún þróist áfram með tímanum,“ sagði Þórdís Anna að lokum.

Fyrri greinHrossafellir
Næsta greinGleðilega hátíð!