Hrossafellir

5232

Hrossafellir. Þetta orð tengir maður við harðindi og erfiðleika á öldum áður en ekki nútímann. Samt gerðist það í óveðrinu á dögunum og þó nokkur fjöldi hrossa fennti í kaf og drapst, önnur eru enn týnd og enn önnur bíða þess ekki bætur að hafa lent í óveðrinu og hafa verið felld. Hvílíkt og annað eins!

Aldrei hef ég heyrt áður að hross fenni í kaf. Ég hef spurt hestafólk á förnum vegi og enginn sem ég hef talað við hefur heyrt um slíkt. Núna er þetta sorgleg staðreynd og bændur og aðrir hestaeigendur sjá á eftir ungviði og uppáhaldsgripum sem lifðu ekki af. Samúð mín er öll hjá þeim.

En er þetta eitthvað sem við megum búast við að gerist aftur? Hvernig getum við undirbúið okkur? Hingað til hafa hestaeigendur yfirleitt getað verið rólegir yfir því að eiga hross á útigangi. Það er sem betur fer löngu liðin tíð að hross séu bara sett á guð og gaddinn og í seinni tíð er fylgst vel með útigangshrossum, þeim gefið og séð fyrir skjóli, enda hafa verið settar reglugerðir sem beinlínis skylda fólk til að hugsa vel um hrossin sín. Þeir sem fylgjast með hrossum sjá að þeim líður yfirleitt vel á útigangi ef þau hafa nóg af fóðri, skjól, vatn og rúmt land til að ganga á.

Nú ber svo við að skjólið var þeim skeinuhætt. Það fennti yfir hrossin í skjóli, þar sem þau stóðu kannski í rúllu og hreyfðu sig ekki yfir á hættuminna svæði. Ég held að það megi segja að þetta sé fordæmalaust. Við getum því lært af þessu áhlaupi að ef spáð er miklum vindi og fannfergi er betra að gefa á opnu svæði, frekar á holtum en í lægðum.

Það er mjög sorglegt að hugsa til þess að eigendur hesta sem lentu í þessum hræðilegu atburðum hafa verið ásakaðir um vanrækslu. Jafnvel þeir sem örþreyttir lögðu líf sitt og limi í hættu við að reyna að bjarga hrossunum. Aðgát skal höfð í nærveru sálar og ég er þess fullviss að allir gerðu sitt besta til að bjarga því sem bjargað varð.

 

Ásdís Haraldsdóttir

Fyrri greinFullorðnir, reyndir og vel tamdir hestar henta byrjendum
Næsta greinVetrarreiðskóli fyrir börn og fullorðna, byrjendur og lengra komna