Knapamerkin eru markvisst, stigskipt nám í hestamennsku

Námið hentar jafnt byrjendum sem vönu hestafólki sem vill auka við þekkingu sína og færni

4966
Nemendur á 5.stigi Knapamerkja hjá hestamannafélaginu Neista ásamt reiðkennara sínum Heiðrúnu Ósk Eymundsdóttur. Mynd frá Þórdísi Önnu.

Athugið að greinin var upphaflega skrifuð í apríl 2019. Neðst í henni má finna tengil á frétt um að nú hafa Knapamerkin verið endurskoðuð.

Formaður Landssambands hestamannafélaga, Lárus Ástmar Hannesson, segir í viðtali hér á Hestamennsku að menntun sé lykillinn inn í framtíðina hjá okkur hestamönnum. Hann nefnir Knapamerkin sem dæmi um góða leið fyrir hinn almenna hestamann til að auka þekkingu sína og færni. Knapamerkin eru markvisst, stigskipt nám í hestamennsku. Nemandinn er leiddur, stig af stigi, í takt við getu hans og áhuga og honum kennd reiðmennska og allt um hestinn og hestamennsku. Þannig henta Knapamerkinn jafnt fyrir algjöra byrjendur í hestamennsku og þá sem stundað hafa hestamennsku lengi en vilja bæta við þekkingu sína.

Skipulagt nám sem hentar öllum

Þórdís Anna Gylfadóttir nýráðin verkefnisstjóri Knapamerkjanna og reiðkennari segir að markmið námsins sé að bæta þekkingu, stuðla að auknum áhuga og auðvelda aðgengi að skipulagðri og markvissri menntun í reiðmennsku. „Námið hentar öllum, byrjendum sem lengra komnum en lágmarksaldur er 12 ára.“

Þórdís segir námið mjög skipulagt. Farið er yfir nánast alla þætti hestamennskunnar og lagður grunnur að árangri og öryggi í hestamennskunni hvort sem markmiðið er að stunda hestamennsku sér til skemmtunar eða til keppni.

Á 1. stiginu er lögð áhersla á grunnatriði; s.s. að skilja grunnþætti í atferli, eðli og hegðun hesta, læra að umgangast hestinn af öryggi, farið yfir gangtegundir og lögð áhersla á ásetur og taumhald.

Á hverju stigi fyrir sig aukast kröfurnar jafnt og þétt og námsefnið verður viðameira.

Á 5. og síðasta stiginu á knapinn að hafa mjög gott vald á gangtegundum, mismunandi ásetum, mismunandi fimiæfingum og skilja hvernig á að byggja upp og þjálfa reiðhest. Einnig á 5. stigið að leggja grunninn að því að knapinn geti lagt fyrir sig frekara nám í tamningum og þjálfun ungra hesta.

Vant hestafólk getur tekið stöðupróf

Fólk sem hefur jafnvel stundað hestamennsku lengi og býr yfir grunnþekkingu en langar til að bæta við sig meiri þekkingu og efla sig sem reiðmenn geta tekið stöðupróf á 1. og 2. stigi. Hins vegar er mælt með að stunda nám á öllum stigum því þar er farið yfir efni sem nýtist öllum og er mjög góður og mikilvægur grunnur. Miðað er við að nemendur séu orðnir a.m.k. 14 ára til að þreyta stöðupróf.

Þórdís segir að gefin séu út ákveðin viðmið fyrir fjölda bóklegra og verklegra tíma á hverju stigi fyrir sig og má finna allarn nánari upplýsingar um Knapamerkin á heimasíðu þess – knapamerki.is. Algengt er að bóklega námið sé kennt að hausti og verklega námið eftir áramót þegar fólk er búið að taka hesta á hús og þeir aðeins komnir í þjálfun.

Fólk getur nánast tekið þann tíma sem það vill í Knapamerkin og er jafnvel miðað við að þau séu kennd yfir lengra tímabil, einkum á efri stigum. Þannig er stuðlað að aukinni ástundum og þjálfun í reiðmennsku samfara aukinni þekkingu og færni. Kröfur í Knapamerkjaprófum eru stigvaxandi í samræmi við æskilega þróun knapans og eru kröfurnar undir sífelldu gæðaeftirliti.

Góðar kennslubækur, fullar af fróðleik

Blaðsíða úr námsefni Knapamerkjanna.

Þórdís segir að Knapamerkjabækurnar sem gefnar eru út og notaðar í náminu, ein fyrir hvert stig, séu mjög góðar, markvissar, vel skrifaðar og vel myndskreyttar. Á þessu ári verður lokið  við að uppfæra bækurnar og í bókunum fyrir 4. og 5. stig er virkilega mikið og þétt námsefni að mati Þórdísar. „Það má segja að allir hestamenn hefðu gott af því að eiga Knapamerkjabækurnar því efnið er miklu meira en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Núna, þegar uppfærslan er komin eru þær orðnar mjög góðar með viðamiklu efni. Þá er verið að þýða bækurnar á ensku, enda mikill áhugi hjá erlendum eigendum íslenskra hesta á Knapamerkjunum.“

Byrjað er að kenna Knapamerkin í Bandaríkjunum á 1., 2. og 3. stigi.  Allir sem hafa áhuga geta keypt sér bækur, annaðhvort í gegnum Háskólann á Hólum  eða á vefsíðu Hrímnis 

Ein bók fyrir hvert stig

Mörg hestamannafélög hafa boðið upp á Knapamerkin, en einnig eru þau kennd á hestabrautum við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Þá hafa einstaklingar og hópar, t.d. vinahópar, einnig ráðið reiðkennara og farið þannig í gegnum Knapamerkin. Möguleikarnir eru því margir.

Þórdís bendir á að einnig sé hægt að fá nám í Knapamerkjunum metið til eininga sem annaðhvort val- eða íþróttaáfanga í mörgum grunn- og framhaldsskólum landsins.

Þegar öllum fimm stigunum er lokið er kominn ákveðinn grunnur fyrir nám við Háskólann á Hólum. Þórdís segir Knapamerkin góðan grunn fyrir námið þar og eru þau einnig notuð sem kennsluefni fyrir verðandi reiðkennara.

„Alltaf er gaman að sækja sér reiðkennslu því maður getur alltaf bætt sig og lært meira í hestamennsku,“ segir Þórdís. „Knapamerkin eru einmitt kjörin til þess að bæta við sig þekkingu, stig af stigi.“

Sjá um endurskoðun á Knapamerkjanáminu 2020 hér

 

Fyrri greinHestar þurfa gott skjól, nægt fóður og vatn í haust- og vetrarhaganum
Næsta greinEfnaskiptaröskun í hrossum vegna offóðrunar er vandamál víða