Hestur í toppþjálfun er mjög líklega aumur einhvers staðar

-segir Auður Sigurðardóttir hestanuddari og -sjúkraþjálfari

10714
Auður nuddar keppnishest ©asdishar

Auður Sigurðardóttir flutti ásamt fjölskyldu sinni til Noregs árði 2015 og ákvað að fara í nám. Þrátt fyrir að grunnur hennar sé í sálfræði hafði hún alltaf áhuga á lífeðlisfræði og líkamanum og hvernig allt virkar, ekki síst hjá hestum. Hún sá auglýsingu frá Nordisk heste- og hundeterapiskolen og hún ákvað að innrita sig í þriggja ára nám.

„Í náminu fékk ég víðtæka þjálfun í að greina og meta meiðsli eða vandamál hjá hestum, sérstaklega í mjúkvefjum, t.d. vöðvum, og einnig í stoðkerfinu. Þessi vandamál geta leitt til heltis eða annarra vandamála og haft áhrif á hreyfigetu hestsins. Auk þess hef ég sótt námskeið í acupressure fyrir hesta, notkun laser í meðferð, um tannheilsu hrossa og hófaheilsu, í hnykkingum og í mátun reiðtygja, þ.e. hnakka, höfuðútbúnaðar og méla,“ segir Auður.

Eftir námið er Auður fullgildur hestanuddari og er félagi í IEBWA (International Equine Body Worker Association). Sem hestanuddari metur hún og meðhöndlar hesta sem hafa orðið fyrir skaða eða meiðslum eða sýna merki um einhvers konar vandamál í hreyfingu og frammistöðu. Hún segir mikilvægt að vera athugul. Sem hestanuddari og meðferðaraðili greinir hún hreyfingu og ásamt þekkingu á líffæra- og stoðkerfi hestsins getur hún komið auga á vandamál og finnur lausn og meðferðir sem henta.

Auður segir mjög mikilvægt að vinna vel með öðrum og vera alltaf í samráði við fagaðila þegar þörf er á. Til dæmis gefur hún aldrei út sjókdómsgreiningu án samráðs við dýralækni.

Allt námið byggt á rannsóknum

„Ekki hefur verið nógu mikið hugsað um þessi mál hér á landi,“ segir hún. „Aftur á móti er það mun algengara t.d. úti í Noregi. Allt okkar nám í skólanum er byggt á rannsóknum og efnið sett fram samkvæmt þeim. Sem manneskja með bakgrunn í sálfræði er ég vön því að hugsa á vísindalegan hátt og því hentaði mér þessi nálgun mjög vel. Stór hluti námsins fór fram í fjarnámi en einu sinni í mánuði hittumst við í skólanum frá fimmtudegi til sunnudags. Það tók mig sjö tíma að komast í skólann með lest og þetta gerði ég í þrjá ár.“

Aðallega er fjallað um hestanudd á fyrsta árinu í náminu og þurfti hver nemandi að nudda 100 hesta og skrifa skýrslu um hvern og einn. Auður meðhöndlaði hesta af mörgum ólíkjum kynjum og segir hún að þótt íslenski hesturinn sé að mörgu leyti sérstakur glími hestar við svipuð vandamál þrátt fyrir fjölbreytta notkun. Þarna öðlaðist hún gríðarlega reynslu en hún segir reynslu sína af íslenskum hestum hafi komið sér vel og gat hún miðlað henni til hinna nemendanna. En hestarnir úti í Noregi eru notaðir við fjölbreyttari verkefni en hér og hafi þurft að nálgast hvern og einn þeirra samkvæmt því.

Á öðru ári var fjallað um acupressure eða þrýstipunkta. Þá er þrýstingi beitt á sömu punkta og þegar notaðar eru nálastungur og sama hugmyndafræðin að baki. Hins vegar eru nemendur í þessu námi ekki dýralæknar og ekki með leyfi til að rjúfa húð og því er þrýstingur notaður í staðinn. Það þarf meiri tíma til að læra nálastungur, tvö til þrjú ár. „Þetta var mjög áhugavert og þurfti maður að hugsa hlutina upp á nýtt,“ segir Auður. „Þessi meðferð á grunn í austurlenskri læknisfræði sem er öðruvísi en sú vestræna og mjög áhugavert að kynnast henni. Það er gott að nota þetta með annarri meðferð og ég nota þetta nánast í hverju tilfelli.“

Á þriðja ári læra nemendur um endurhæfingu og sjúkraþjálfun. Fjallað er um hreyfingu og aðlögun liða svipað og í hnykkingum, en notuð er mildari aðferðir, enda er þetta styttra nám. „Það er eins með þetta að það krefst lengra náms til að geta titlað þig sem hnykkjara eða kírópraktor og viðkomandi verður að vera dýralæknir eða dýrakírópraktor til að teljast fullnuminn í þessum fræðum,“ segir Auður.

Fólk forvitið og áhugsamt en líka tortryggið

Auður er í fullri vinnu við annað en tekur hesta í meðferð eftir vinnu. „Auðvitað væri óskandi að geta unnið við þetta eingöngu. Um helgar hef ég ferðast víða um land. Ég fer um helgar t.d. á Suðurlandið og sinni hestum þar og hef svolítið farið á Norður- og Vesturland einnig. Svo er ég alltaf á leiðinni lengra austur eftir Norðurlandi. Þetta hefur spurst út en í upphafi vissi ég ekki alveg hvernig ég ætti að koma mér inn í þetta. Ég fann fyrir forvitni og áhuga en einnig var fólk svolítið tortryggið. Þetta er nýtt hér á landi en þegar maður fer að útskýra þetta fyrir fólki þá breytist viðhorfið.

Fólk fer til sjúkraþjálfara þegar eitthvað bjátar á í stoðkerfinu eða eftir meiðsl eða slys. Oft er þetta vandamál sem læknar geta ekki bætt, en með sjúkraþjálfun og nuddi batnar ástandið. Ef maður setur hestinn í þetta samhengi þá sér fólk að þetta á líka við um þá. Ef þú ert með hest í toppþjálfun sem þú þjálfar 5-6 sinnum í viku þá má bóka að hann er aumur einhvers staðar.“

Auður segir að auðvitað sé regluleg ástandsskoðun á hestinum ekki skylda eins og við á um bíla, en slíkt getur hjálpað eiganda eða þjálfara hestsins að átta sig á hvernig líkamlegt ástand hans er. Þannig er hægt að uppgötva ýmsa þætti sem geta haft áhrif á áframhaldandi þjálfun og frammmistöðu hestsins til lengri tíma. Eftir því sem vandamálin uppgötvast fyrr er auðveldara að grípa í taumana og leysa vandann áður en hann veldur skaða.

Meðferðaraðili getur greint frávik í byggingu hestsins og þá er hægt að aðlaga þjálfunin að því og vinna með styrkleika hestsins og minnka áhrif veikleika hans. Þar með er hægt að fyrirbyggja vandamál. Ef hestur er t.d. hærri á lend en herðar veldur það miklu álagi á frampart hestsins. Hægt er að styrkja frampartinn til þess að hann þoli álagið betur.

Hef mikinn áhuga á að fræða og kenna

„Með því að þekkja vel líkama hestsins þegar hann er heilbrigður og í góðu ástandi, er mun auðveldara að átta sig á því þegar upp koma vandamál. Ég hef mikinn áhuga á að fræða fólk og kenna því og sýna því hvernig t.d. vöðvabólga er og hvernig er hægt að finna hana. Mig langar að fá fólk til að þreyfa á hestinum sínum til þess að vita hvernig hann er þegar hann er frískur. Ef við vitum það erum við fljót að átta okkur á ef eitthvað er að. Hestar venjast því ef þeir eru þreifaðir og og finnst snerting góð og eru þá betur undir meðhöndlun og skoðun búnir. Hesturinn er þá líklegri til að treysta meðferðarðilanum. Ef allt er nýtt, hættulegt og hugsanlega sársaukafullt er meiri hætta á að fyrsta skoðun verði erfið fyrir hestinn og meðferðaraðilann.

Það er mikilvægt fyrir mig að vita sem mest um hestinn áður en ég meðhöndla hann. Dýr eru misviðkvæm fyrir sársauka og ef meðferðaraðilinn fær góðar upplýsingar og þekkir hestinn þar með betur er mun auðveldara fyrir hann og eiganda hestsins að uppgötva það sem máli skiptir hverju sinni. Mikilvægt er að gera þjálfunaráætlun til lengri eða skemmri tíma til að vinna á rót vandans og vinna með hana til að uppræta vandamálið og koma í veg fyrir að það endurtaki sig.“

 

Mikinn fróðleik er að finna á facebooksíðu Auðar, Hestanudd og heilsa

Meira er fjallað um hestanudd og meðferð hér á hestamennska.is

Einnig er grein eftir Auði þar sem fjallað er um of þjappaðan höfuðburð

Fyrri greinSiggi í Syðra hafði gott auga fyrir fallegum mótífum
Næsta greinHnakkur, knapi og tannheilsa meðal þess sem veldur stoðkerfisvanda hjá hestum