Fylgt úr hlaði

Viðbrögð lesenda hafa farið fram úr björtustu vonum

4199
Spegill ©asdishar

Nú, nokkrum dögum eftir að vefurinn Hestamennska var opnaður, hafa viðbrögð lesenda farið fram úr björtustu vonum. Það staðfestir þá tilfinningu að hinn almenni hestamaður, útreiðarfólkið, hafi verið nokkuð afskiptur hópur í fjölmiðlum á undanförnum árum.

Markmiðið með vefnum er að koma upplýsingum og fræðslu til hestamanna, um flest sem tengist hestum og hestamennsku. Slíkar upplýsingar hafa ekki verið nógu aðgengilegar á einum stað og er vonast til þess að úr því verði bætt hér.

Við erum með lifandi skepnur í höndunum og þeim þarf að sinna á sem bestan hátt. Nauðsynlegt er að hestamenn séu forvitnir um eðli og þarfir hesta sinna. Ef þörfum hestanna er mætt og þeim búin sem best umgjörð, vetur, sumar, vor og haust, stuðlar það að meiri ánægju í samskiptum manns og hests. Hestamennska mun leitast við að fræða og upplýsa um hestamennskuna á sem breiðustum grunni.

Ekki er þó hugmyndin að birta úrslit hestamóta, tilkynningar um mót eða aðra slíka viðburði, enda er því sinnt á öðrum hestavefjum. Aftur á móti verður leitast við að svala forvitni og upplýsingaþrá þess stóra hóps sem heldur hross og stundar útreiðar og ferðalög á hestum.

Allar ábendingar um efni og það sem betur má fara eru vel þegnar og er hægt að koma þeim á framfæri undir flipanum „Hafa samband“ efst á síðunni.

Með von um langt og gott samband við ykkur, kæru lesendur Hestamennsku.

Ásdís Haraldsdóttir

ritstjóri

Fyrri greinFóðrun hrossa almennt ekki byggð á heyefnagreiningu
Næsta greinMiklar upplýsingar fást við heyefnagreiningu