Hestar þurfa alltaf að hafa aðgang að góðu vatni

4681
Líkamsþyngd hesta er 62-68% vatn. Þeir þurfa alltaf að hafa aðgang að vatni, á húsi, á beit og á ferðalögum. ©asdishar

Þurrkar á Suður- og Vesturlandi hafa valdið því að sums staðar hefur þurft að brynna hrossum sem eru úti á beit. Erfitt er að gera sér grein fyrir hversu mikið vatn hross þurfa þegar þau eru á sumarbeitinni en nauðsynlegt er að þau hafi aðgang að vatni. Í 10. grein reglugerðar um velferð hrossa frá árinu 2014 segir að hross skulu hafa aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni og óheimilt er að hafa hross án vatns lengur en 6 klukkustundir. Sérstaklega er tekið fram að óheimilt er að folaldshryssur séu vatnlausar eða án fóðurs lengur en í tvo tíma.

Auðveldara er að gera sér grein fyrir hversu mikið hross drekka af vatn þegar þau eru á húsi. Ljóst er að það er afar mismunandi milli einstaklinga sem sést meðal annars á því að stíurnar hjá sumum hrossum eru mun blautari en hjá öðrum og þarf því að bera meira undir þau.

Í rannsókn sem Einar Ásgeirsson gerði fyrir BS-verkefni sitt við Háskólann á Hólum árið 2014 kom meðal annars fram að hross á góðri sumarbeit þurfa að drekka mun minna af vatni en hross sem eru á húsi og fá þurrfóður. Um 62-68% af heildar líkamsþyngd fullorðinna hrossa er vatn, og allt að 70% af heildar lífþunga folalda. Vatnsforði í líkama hestsins er mun óstöðugri en orkuforðinn og geta því hross þolað fæðuskort mun lengur en vatnsskort. Samkvæmt rannsókninni drekka hestar á húsi að meðaltali 15 l af vatni á sólarhring.

Talið er að hross á góðum sumarhaga fái um 80-90% af vatnsþörf sinni uppfyllta með nýsprottnu grasi,en hross fóðruð á húsi á gróffóðri, þ.e. heyi og einnig kjarnfóðri, þurfa mikið vatn aukalega. Hross sem höfð eru á húsi í nútímalegum hesthúsum hafa yfirleitt aðgang að sjálfrennandi vatni og stjórna drykkjunni sjálf. Ýmislegt hefur þó áhrif á hvað hestur drekkur mikið vatn, t.d. hitastig, rakastig í loft, heilbrigði hestsins og hve mikið hann er þjálfaður. Eftir því sem þjálfunin er meiri svitnar hann meira og þarf því að drekka meira. Þó var ekki marktækur munur á vatnsdrykkju hrossa í þjálfun og óþjálfuðum hrossum í rannsókninni.

Bændur á Innri-Skeljabrekku fundu snjalla lausn til að brynna hrossunum.
©Dagný Sigurðardóttir

Hross sem eru á beit og hafa frjálsan aðgang að stóru svæði sækja sér vatn í fá skipti en drekka meira magn í einu, en hross sem eru á húsi drekka oftar og minna í einu. Kemur fram hjá Einari að hross sem hafa frjálsan aðgang að vatni á húsi drekki oftar en telst vera eðlileg hegðun. Hann veltir fyrir sér hvort slíkt geti jafnvel verið óheilsusamlegt hestunum og hvort þeir drekki sér til dægradvalar en ekki endilega til að uppfylla vatnsþörf. Einnig geta ýmsir sjúkdómar haft áhrif á vatnsdrykkju hrossa.

Stóra spurningin þessa dagana er hvort hross fái fullnægt mestri vatnsþörf sinni í gegnum nýsprottið gras í sumarhaganum þegar ekki hefur rignt í margar vikur. Aðstæðurnar kalla á að vel sé fylgst með að þau hafi aðgang að vatni í haganum. Ef vatn er ekki nóg eða ekki nógu hreint er nauðsynlegt að brynna hrossunum.

 

 

Fyrri greinUndirbúa þarf reiðhesta áður en þeim er sleppt í sumarhagann
Næsta greinMerkilegar rannsóknir á uppruna og sögu tamda hestsins