Algengustu mistökin eru að nota of löng mél

Brotist í gegnum „mélafrumskóginn“ með Sonju Líndal Þórisdóttur hestatannlækni

8901

Líklegt er að flestir hestamenn hafi á einhverjum tímapunkti, eða jafnvel oft,  staðið frammi fyrir spurningunni um hvaða mél ætli henti hestinum hans best? Þegar leiðin liggur svo í hestavöruverslun til þess að fjárfesta í einu slíku blasir við manni sannkallaður frumskógur af mélum og valkvíðinn verður enn meiri? Til þess að fá einhvern botn í málið fór Hestamennska á fund við Sonju Líndal Þórisdóttur dýralækni og hestatannlækni með meiru. Margar spurningar dundu á Sonju sem snerust þó fyrst og fremst um hvaða áhrif mél hafi á hesta, hvers vegna við notum þau, en einnig um beislabúnað og múla.

Munnur hestsins er ekki skapaður fyrir mél

„Áður en maður fer að hugsa um hvaða mél passar hestinum þarf maður að vita hvort hann sé heilbrigður í munninum,“ sagði Sonja. „Það er aðalatriðið því margir þættir spila inn í hvernig hesturinn er í beisli. Einnig þarf að athuga hvort hann sé almennt heilbrigður í skrokknum, því það hefur líka áhrif. Svo megum við ekki gleyma því að vandamál í beisli eru oft tengd knapanum og taumhöndinni.“

Sonja bendir á að burtséð frá heilbrigði hestsins þurfum við að átta okkur á að munnur hestsins er ekki skapaður til þess að hafa mél uppi í sér. Í raun og veru sé ekkert pláss fyrir mél því tungan fyllir upp í munnholið. „Kerfið er í raun og veru fullt, en við ákveðum að koma mélum þar fyrir,“ segir hún.

„Það er gott að velta fyrir sér munninum. Til hvers er til dæmis tannlausa bilið? Er það til þess að geta haft mél uppi í hestinum? Nei, aldeilis ekki. Út frá þróunarsögunni hefur tannlausa bilið þróast til þess að hesturinn geti spýtt út úr sér steinum og öðru hörðu. Þeir sem gátu gert það eyðilögðu síður í sér jaxlana og voru því betur í stakk búnir til að lifa af úti í náttúrunni. Þetta er viðbragð sem við notum þegar við erum að beisla hestana og fá þá til að opna munninn. Þegar eitthvað hart kemur á þetta svæði byrja þeir að opna munninn til þess í rauninni að losa sig við þennan aðskotahlut.“

Sonja Líndal Þórisdóttir ©asdishar

Gefa þarf hrossum nægan tíma til að læra að bera mél

„Við verðum alltaf að hugsa um hvað hesturinn gerir mikið bara fyrir okkur sem er honum ekki eðlislægt,“ segir Sonja. „Við þurfum því að kenna hestinum að bera mélin rétt og að vera rólegur og nota ekki þetta viðbragð endalaust. Þessu þarf að gefa góðan tíma í tamningunni. Ef hesturinn lærir það ekki er hann alltaf órólegur í munninum, er með tunguna á mikilli hreyfingu. Hann þarf að læra að halda á mélunum með lokaðan munninn, en vera næmur þegar hann fær ábendingu. Hestar eru mjög misfljótir að læra þetta. Sumir eru fljótari að sætta sig við þetta en aðrir þurfa mikla hjálp.“

„Það er svo margt sem þarf að kenna hesti í byrjun tamningar,“ segir hún. „Hann þarf að læra að umgangast manninn, teymast og bera hnakkinn og síðan að bera knapann. Það skiptir miklu máli að geta kennt hestinum að bera knapann, fara áfram og stoppa án þess að vera með beisli með méli því þá nærðu að kenna honum eitt í einu. Hægt er að nota mélalaust beisli en ýmsar aðferðir eru til. Ég held að við séum aðeins of fljót að nota mélin. Við getum líka kennt eldri hestum að svara ábendingum án méla.

Ég hef séð fullorðna hesta sem tengja ábendingar með fótum við mélin og byrja að djöflast með þau. Þá hefur þeim kannski verið kennt of margt í einu og þeir byrjað að tengja saman ólíka hluti. Alla vega er mjög mikilvægt að ríða þeim í byrjun á algjörlega slökum taumum án alls taumsambands, bæði fyrir framhugsun og marga aðra þætti.  Hrossin þurfa að fá að vera með slaka tauma og vera frjáls með að nota hálsinn sem jafnvægisstöng, enda nógu mikil breyting fyrir hest að vera með knapa á baki. Þá er bara annar taumurinn notaður til að hægja á. Síðan er hægt að hafa mél upp í þeim en nota þau ekki, bara til að leyfa þeim að venjast þeim hægt og rólega. Þau þurfa að fá að læra að bera mélin og samþykkja þennan aðskotahlut án þess að þurfa strax að læra að hlýða þeim og stoppa og beygja og svo framvegis. Við flýtum okkur yfirleitt of mikið í tamningunni.“

„Járnmél bruddu graðhestar“

Svo kvað Jón Hreggviðsson sögupersóna í Íslandsklukku Halldórs Laxness þegar hann fór með Pontusrímur eldri. Það hefur yfirleitt verið talið hestum til hróss að bryðja mélin og margir líta á það sem viljamerki. Sonju finnst það aftur á móti af og frá. „Það er svo langt frá því að það sé gott fyrir hesta að bryðja mél,“ segir hún. „Hestar sem eru órólegir í munninum eru sífellt að japla á mélunum. Því miður er algengt að þeir lyfti mélunum og bíti svo í þau og eyðileggja tennurnar. Heilbrigðar tennur eru með svörtum röndum eða blettum, en hægt er að sjá hjá mörgum hestum að tennurnar eru það eyddar að þessar rendur sjást ekki lengur. Þá getur opnast inn í tönnina og þá er hætta á rótarsýkingu sem leiðir til tannpínu og eyðileggingar tannarinnar.“

Þegar Sonja sér svona tennur bendir hún fólki á að það verði að athuga með mélin sem notuð eru upp í hestinn. Þetta er í raun stærsta ástæðan fyrir því að hún heldur fjölda fyrirlestra til þess að fræða fólk um munnheilsu hesta.

Hvað veldur þessu?

„Ein aðalástæðan fyrir því að þetta gerist er sú að fólk notar of löng mél. Ég hef mælt munnbreidd ótal margra hesta. Lang flestir hestar mælast með 10 sentimetra breiðan munn en einnig eru þó nokkuð margir með 10,5 sm. Þótt mörgum finnist það ótrúlegt þá mæli ég fleiri hesta sem eru með 9,5 sm breiðan munn en þá sem eru 11 sm. Það er ágætt að nota 0,5 sm lengri mél en munnurinn mælist. En mikilvægast er að festa sig ekki í einhverjum kassa hvað þetta varðar. Hlustum á hestinn til þess að finna út hvað honum líkar best. Hvernig getum við gert það? Til dæmis með því að athuga hvort hann er að djöflast í mélunum eða ekki. Ein mél henta alls ekki öllum hestunum. Þau geta hentað mjög vel fyrir einn en verið vonlaus fyrir annan. Því þurfum við að eiga nokkur ólík mél.“

„Algengustu mistökin sem fólk gerir eru sem sagt að nota of löng mél. Það eru þau sem hestarnir eru að bíta í. Tengt vandamál er að við höfum of stutt í beislinu.  Ef þú hefur löngu mélin þannig að þau eru við munnvikin fara þau að glamra og þá stytta margir of mikið í beislinu. Að það komi tvær hrukkur í munnvikið er mýta sem ég er að reyna að útrýma. Mélin eiga að liggja að munnvikinu. Mér finnst það rökrétt. Ef of stutt er í beislinu þá er þrýstingur á munninn stöðugur og hvernig eigum við þá að umbuna hestinum ef ekki er hægt að létta þrýstingnum af munninn? Að sama skapi kemur þrýstingur á hnakka hestsins ef of stutt er upp í honum. “

Margir eru hrifnir af því ef hestar freyða mikið. Hvað finnst þér um það?

„Það er ekki góðs viti ef hestur freyðir mjög mikið. Það bendir til þess að hann japlar of mikið á mélunum og er órólegur í munninum. Hann nær ekki að kingja og því myndast svona mikil froða. Hins vegar er æskileg að hann fái smá „varalit“. Það er þegar það kemur smá froða á varirnar. Það er eðlilegt.“

Fyrst og fremst þarf að hlusta á hestinn og prófa sig áfram

Sonja vill líka skoða ýmsar lífeðlisfræðilegar takmarkanir. Sumir hestar eru með mjög þrönga kjálka og þá liggur tungan mikið ofan á og þeir eru oft að basla. Ef kjálkarnir eru breiðari liggur tungan meira á milli tanngarðanna og þá er meira pláss fyrir mélin. Einnig þarf að athuga hvort hesturinn er með grunnan góm eða stutt eða löng munnvik. Þetta hefur allt áhrif á hvernig mél henta þeim best.

„Ég reyni að skipta hestum í þrjá flokka. Það eru þessir rólegu sem halda á mélunum og svara vel ábendingum. Svo eru þeir órólegu sem byrja að hreyfa mélin eða djöflast í þeim um leið og þau eru komin upp í þá. Í þriðja hópnum eru svo freðnir hestar, sem bíta saman og bregðast ekki við ábendingum. Oftast er það eitthvað tengt tamningunni, því náttúrulegt viðbragð hesta er að bregðast við aðskotahlutum í munninum. Ég skipti svo mélunum á svipaðan hátt, í róleg mél eins og t.d. múffur, einjárnungs hringamél eða eitthvað sem hreyfist lítið. Grönnu mélin eru rólegri af því að því fyrirferðarminni sem mélin eru því betra er það fyrir munnheilbrigði hestsins. En maður verður að vera mjög hreinskilinn við sjálfan sig og spyrja sig hvort maður ráði við að ríða með slík mél vegna þess að meiri hætta er á að meiða með grönnum mélum. En ef sambandið við hestinn er gott geta grönnu mélin verið góð fyrir hestinn. Mörgum hestum líkar vel við þau af því að þau fylla ekki upp í munninn, þeim finnst best að vera með sem minnst af málmi uppi í sér og eiga þá auðveldara að bera mélin rólega.“

Sonja segir að því stöðugri sem mélin eru því rólegri eru þau. Henni finnst til dæmis að allir ættu að eiga einjárnungs hringamél og prófa að nota þau fyrst ef hestur er mjög órólegur í munninum og bítur í mélin. Þau hreyfast lítið og eru stöðug þannig að hesturinn róast. Hökuól geri þau svo enn stöðugri, hvort sem hún er notuð með eða án múls. Einnig séu Þ-mélin mjög stöðug og gott að temja hesta með þeim þar sem engin hætta er á að þau dragist til í munninum.

„Noti maður þrískipt mél þarf miðjubitinn að vera lítill.  Ef miðjubitinn er of langur á liðurinn, sem tengir hann, til að fara ofan í tannlausa bilið hjá hestinum og getur sært hann. Því miður sé ég mjög mörg dæmi um þetta. Langur miðjubiti getur líka sært munnvikið. Ekki bætir úr ef mélin eru líka í heild sinni of löng. Því miður er mikið til af svona mélum í verslunum hér. Þrískipt mél setja jafnan þrýsting á alla tunguna og mörgum hestum líkar það vel. En þessi einbrotnu brotna fram á tunguna og ef til vill með aðeins meiri þrýsting á tannlausa bilið. En ef þau eru grönn þá er meira pláss fyrir tunguna. Jafnvel tungubaslarar sætta sig þannig mél. Ég mæli með að fólk prófi tvískiptu grönnu mélin á tungubaslara, en maður þarf auðvitað verið meðvitaður um að þau geta meitt og því þarf að passa vel upp á taumhaldið. Eins og með önnur mél þá er nauðsynlegt að skipta ef minnsti grunur leikur á því að þau geti meitt og prófa eitthvað annað.

Ég skoða hvernig hesturinn minn ber mélin. Heldur hann á þeim rólegur með lokaðan munninn þangað til að eitthvað áreiti kemur? Eða er hann mjög órólegur? Þá þarf að nota róleg mél. En ef hesturinn er alveg freðinn í munninum þá þarf maður að finna mél sem hreyfast meira eða eru með sæta málma, rúllur eða þess háttar til þess að lífga hann við í munninum.  Fyrst og fremst þarf maður að hlusta á hestinn og prófa sig áfram með hvað passar honum. Oftast er það einfaldasta best. Þegar mél eru orðin eins og perlufesti þá hlýtur að vera til einfaldari lausn. Flestir eiga fullan kassa af mélum en oftast notar maður tvenn mél sem flestum hestum líkar vel við. Flækjum ekki málin.“

Hvað þarf að hafa í huga ef maður vill ríða við stangir?

„Stangir eru alveg sér kafli. Almennt má segja að mélin á stöngunum þurfi að vera aðeins lengri en hringamél til að augun hafi pláss, en oft er búið að gera ráð fyrir þessu. Ég á sérsmíðaðar stangir sem mér líkar vel við. Þá eru kjálkarnir aðeins styttri en á venjulegum stöngum og vogaraflið því ekki eins mikið. En fólk þarf að læra að ríða með stangir. Það er ekki það sama og að ríða með hringamél. Stangir geta verið alveg æðislegar og mér finnst þær oft gera góðan hest ennþá betri. Þeir verða oft léttari og skemmtilegri. Þeir búa sjálfir til umbun með keðjunni og læra að gefa eftir undan henni. Þá fá þeir ekki bara umbun með taumnum heldur einnig þegar þeir finna að keðjan gefur eftir. Þeir eru fljótir að læra þetta.“

Hefur prófað mélalaus beisli á alls kyns hestum

Við ræðum líka um þörfina á að nota mél. „Það er í raun og veru ekkert mál að ríða frá A til B, beygja, stoppa og ríða gangtegundir án þess að nota mél. Fólk heldur bara að þau séu nauðsynleg. Þetta er allt í kollinum á knapanum. Honum líður eins og að hann hafi ekki eins mikla stjórn á hestinum án méla.  En það er ekkert mál að kenna hestum þetta. Það er þeim í raun og veru miklu eðlislægara að stoppa frá þrýstingi á nefið en að stoppa frá þrýstingi á munninn. Ég hef prófað þetta á alls kyns hestum, líka þeim sem eru vanir að hafa mél. En það er samt eitthvað með þetta þegar þú ert farin að gera meiri kröfur, eins og í keppni, þá vilja þeir missa hollninguna fyrr. En undir venjulegum kringumstæðum, þá er fínt að ríða þeim með mélalaust beisli.

Sem þjálfara líst mér best á mélalaus beisli sem skila umbuninni strax. Ég hef notað mélalaust beisli mikið á einn hest sem á erfitt með að vera rólegur í munninum. Það hefur mjög góð áhrif á hann. Mér hefur reynst best að  nota það sem kallað er Side Pull. Einnig hef ég notað það sem kallað er Caveson, en þá getur þú notað það eins og mélalaust beisli en getur samt sem áður haft mél á því án þess að nota það. Það er gott að nota þetta þegar þú ert að kenna hestinum á mél. Það eru margs konar útfærslur í boði, þó ekki hér á landi. En auðvelt er að panta þetta frá netverslunum erlendis.

Því miður halda venjulegir útreiðamenn að þeir hafi meiri stjórn á hestinum ef þeir ríða með mél, en það er áreiðanlega vegna þess að þeir eru vanir því. En ég held að ef þeir mundu koma í veg fyrir  mörg vandamál ef það væri almennt viðurkennt að mélalaus beisli virki vel. Það er ekki gott að vera hræddur því þá smitast hræðslan yfir í hestinn. Maður er rólegri þegar maður kann eitthvað og því þarf maður að læra á þetta og skilja að þú hefur kannski alveg jafn góða stjórn á hestinum með mélalausu beisli. Svo er alltaf gott að spyrja sig hvers vegna notum við mél.“

Múlar þrýsta á viðkvæmar taugar eða tennur og þurfa að vera rétt stilltir

„Það fer eftir ýmsu hvernig múl er best að nota,“ segir Sonja. „Samkvæmt mörgum rannsóknum sem hafa verið gerðar á áhrifum múla á hesta kemur í ljós að yfirleitt þrýsta þeir á viðkvæma staði á höfði hestsins, hvort sem það eru tennurnar eða viðkvæmar taugar. Í raun má segja að þýski, eða venjulegi reiðmúllinn, þrýsti minna á tennurnar en sá enski. Hins vegar hefur hann líka ókosti ef hann er ekki rétt stilltur. Ef nefólin er of neðarlega þrýstir hún á viðkvæmt nefbeinið og sé hann of fast hertur þá heftir hann öndun og þrýstir á viðkvæmar taugar. Það má ekki. Krossmúllinn þrýstir mélunum aftur á móti á tennurnar.

Fyrir tannheilbrigði er nasamúllinn, rétt staðsettur og ekki of hertur, heppilegastur. Þá kemur hann að notum. Hann má ekki vera of laus, því þá fær hesturinn stöðuga umbun og skilur ekki að hann á að loka munninum. Ef hann er mátulega stilltur getur hesturinn opnað munninn en finnur fyrir múlnum og fær umbun ef hann lokar munninum. Ef múllinn er of þröngt spenntur fær hesturinn aldrei umbun. Hann getur ekki opnað munninn, sem hann þarf að fá að gera, og af því að múllinn er svona fast spenntur fær hann aldrei umbun, sama hvað hann gerir. Auk þess getur hann ekki hreyft kjálkann, sem hann þarf líka að geta gert, og jafnvel ekki kyngt. Í rauninni er ástæðan fyrir því að við notum múl að auka stöðugleikann í munni hestsins og gera sambandið við hestinn betra. Það kom í ljós þegar notaðir voru þrýstimælar að þrýstingur á taumnum var minni ef riðið var með múl en án hans. Því miður er mjög algengt að múllinn sé allt of fast spenntur. Afleiðing þess að skáreim er bönnuð á enskum múl í keppni er sú að fólk lækkar hann og herðir vel og það er ekki gott fyrir tennurnar.“

Hvernig múl notar Sonja?

“Mér líkar eiginlega ekki við neinn múl og er alltaf að prófa mig áfram. Mér finnst þeir annað hvort klemma mélin eða herða að tönnunum. Ég var að kaupa mér múl sem ég hef enn ekki prófað. Þetta er múll sem er svipaður og múlar með járnspöng, en í stað járns er spöngin úr leðri og því hægt að stilla hann mun betur og hann liggur ekki að mélunum. Auk þess er hægt að færa nefólina til.  Mér virðist sem að þannig geti mélin verið svolítið frjáls. Svo má ekki gleyma því að sumir hestar eru svo góðir í beisli að í raun og veru er alveg sama hvaða mél maður notar eða múl. Þeir eru alltaf góðir.

En þegar þetta er allt tekið saman þá vil ég fyrst og fremst fá fólk til að nota styttri mél, hafa miðjubitann stuttan, ef þannig mél eru notuð, hafa beislið mátulega langt uppi í hestinum, hafa múlinn rétt stilltan og skoða taumhaldið. Mikilvægast er að hlusta á hestinn og fá hann til að vera rólegan í munninum.“

 

Sjá einnig viðtal við Sonju Líndal hér á hestamennska.is um munnheilsu hesta 

Fyrri greinFákar og fólk – fjölbreyttar myndir úr hestamennsku í 30 ár
Næsta greinHestamennska á tímum kórónuveirunnar