Hugsa þarf vel um reiðtygi og olíubera oft og vel til að þau endist vel

Helga Skowronski söðlasmiður í Mosfellsdal gefur góð ráð

2345
Vel hirt reiðtygi
Búið að olíubera reiðtygin og þau tilbúin í næstu fjöruferð.

Nú þegar vorar eru margir farnir að huga að hestaferðum sumarsins. Eitt er það sem þarf að vera í fullkomnu standi, og ekki síst í lengri ferðum eru reiðtygin. Þau eru auðvitað alltaf mikilvæg öryggistæki í hestamennskunni en sjaldan eins og í lengri ferðum þegar þau eru notuð í marga klukkutíma í senn í nokkra daga í það minnsta. Þau þurfa að vera heil og þjál og örugg og fara vel með hest og knapa. Þess vegna er mikilvægt að hirða vel um reiðtygin alveg frá þeim degi sem við fáum þau í hendur.

Mikill munur á reiðtygjum eftir því hvernig hirt er um þau

Þegar Helga Skowronski, söðlasmiður í Mosfellsdal, fær til sín reiðtygi sér hún strax mikinn mun á þeim reiðtygjum sem vel hefur verið hugsað um og hinum. „Það sést gríðarlega mikill munur,“ segir hún „Þegar maður fær nýjan hnakk er mikilvægt að vera duglegur að bera olíu á hann, sérstaklega á móttökin og þá fleti sem mikið mæðir á. Það sem fer verst með leðrið er að blotna og þorna á víxl. Þá þornar leðrið upp og byrjar að brotna og skemmast. Með því að olíubera leðrið um það bil einu sinni í mánuði í byrjun þá mettast leðrið svo vel að maður getur leyft sér að vera latari seinna.

Ef reiðtygin eru mjög óhrein er best að byrja á því að fjarlægja óhreinindi og þrífa reiðtygin með leðursápu. Ég nota svamp í sápuna. Það er allt í lagi að nota uppþvottabursta á grófari hliðina t.d. á löfunum á hnakknum ef hann er mjög óhreinn. Ég skipti oft um vatn. Síðan þarf að þurrka sápuna af með hreinum svampi eða tusku og bíða þar til leðrið er orðið snertiþurrt.“

Vel hirt reiðtygi
Helga Skowronski söðlasmiður í Mosfellsdal. (Mynd frá Helgu)

Best er að nota fljótandi olíu og bera á þangað til leðrið mettast

Þá er komið að því að olíubera. Auðveldara er að bera olíu á höfuðleður og tauma, en hnakkarnir eru aðeins flóknari. Helgu finnst best að hella olíu í krukku og nota pensil til að bera á. „Hold hliðin, eða grófari hliðin á leðrinu, tekur best við olíunni og óhætt er að bera á þangað til leðrið hættir að taka við. Þegar maður tekur eftir því að leðrið er orðið vel mettað, þá minnkar uppsogið. Þá þurrkar maður olíuna sem ekki sogast inn með hreinni tusku eða eldhúsbréfi.

Helga notar olíu sem framleidd er á minkabúinu heima hjá henni. „Sjálf mundi ég alltaf velja fljótandi olíu,“ segir hún. „Mín reynsla er að hún virkar best og sogast betur inn í leðrið. Áburður veitir vörn en nærir ekki leðrið innan frá.“

Helga ber á allan hnakkinn, sæti og púðana undir líka, en segir það fara svolítið eftir hnökkum hversu vel þeir taka við leðurolíu. Hún segir að þær leðurgerðir sem soga olíuna betur í sig endist best. „Ef þú kæmir með hnakk til mín sem væri orðinn nokkuð þurr þá mundi ég byrja á að olíubera grófari hliðina sem sogar betur í sig, löf og móttök, en líka sæti og púða, bara allt sem ég næ til.“

Vel hirt reiðtygi
Ýmsir fletir á hnakknum taka misvel við olíunni. Olía sem situr eftir er þurrkuð af en borið á fleti sem taka vel við þangað til leðrið mettast. Á þessum hnakk voru það allt yfirborð hnakksins, móttök og ístaðsólar sem tóku best við. Því næst neðanverð löfin.
Vel hirt reiðtygi
Á þessu höfuðleðri er ýmiss konar leður. Sumt er greinilega meðhöndlað, en allar ólar sem þarf að spenna tóku vel við olíunni.

Öryggi knapans veltur mikið á því að móttökin séu sterk og heil og leggur Helga mikla áherslu á að huga alltaf sérstaklega vel að þeim og bera vel af olíu þannig haldast þau mjúk og sterk og endist vel. Það sama á við um ístaðsólar.

Undirbúa þarf hnakkana sérstaklega fyrir fjöruferðir

Ég sé mikinn mun á reiðtygjum sem borið hefur verið vel á. Ég hef fengið 20 ára gamla hnakka frá ákveðnum framleiðendum og leðrið í þeim er enn í toppstandi. Þetta er mjög misjafnt en skiptir miklu máli.“

Vönduð reiðtygi eru dýr en sé þeim vel við haldið geta þau enst vel og lengi. Helga mælir með að komi saumspretta í hnakk láti fólk laga hana strax því það sé mun auðveldara en að þurfa kannski að taka allan hnakkinn í sundur og gera við ef þetta er látið dankast. Einnig mælir hún með að nota undirlag undir hnakknum því að sviti og óhreinindi valda því að leðrið þornar.

Þá vill hún sérstaklega benda fólki sem fer í fjöruferðir á að huga vel að reiðtygjum sínum. „Þegar fólk fer í fjörureið er mjög mikilvægt að bera vel á hnakkana áður. Þegar heim er komið er jafn mikilvægt að skola saltið og sandinn vel af honum og bera aftur á hann því saltið þurrkar leðrið mjög mikið.“

 

Hægt er að fylgjast með Helgu á Facebooksíðu Söðlasmiðsins í Mosfellsdal

 

Fyrri greinJarðskjálftarnir virðast ekki hafa mikil áhrif á hross
Næsta greinTölum um hesta