Jarðskjálftarnir virðast ekki hafa mikil áhrif á hross

1933
Hross virðast taka jarðskjálftum með ró. ©asdishar

Hross virðast yfirleitt ekki kippa sér upp við jarðskjálfta og kemur það eflaust mörgum á óvart. Eftir fyrsta stóra skjálftann fór undirrituð rakleitt út í hesthús og þar átu hrossin sitt hey eins og ekkert hefði í skorist.

Í jarðskjálftahrinunni á Reykjanesi sem staðið hefur yfir í viku þegar þetta er skrifað hafa borist margar fréttir af því hvernig fólk bregst við jarðskjálftum. Í ljós kemur að fólk bregst afar mismunandi við og fer það eflaust eftir því hversu næmt það er en ekki síður eftir staðsetningu, hvort fólk stendur, situr eða er á ferðinni og eins hvernig húsin sem það er statt í eru byggð, á klöpp, púðum og jafnvel ef það er statt úti hvort það stendur á steinsteypu eða úti í mýri.

Hundar virðast margir vera mjög viðkvæmir fyrir jarðskjálftum og sú sem þetta ritar á sjö mánaða gamalli íslenskri tík sem hristist og skelfur af hræðslu við skjálftana, aðallega þá stóru. Í fréttum á RÚV kom fram að margir hundaeigendur hafa leitað til dýralækna og jafnvel þurft að gefa hundunum róandi lyf.

En hvernig stendur á því að hrossin, þessi viðkvæmu flóttadýr, virðast ekki láta þessar jarðhræringar á sig fá? Það er erfitt að svara því, en til að forvitnast um hvort dýralæknar hefðu orðið varir við hræðslu í hrossum vegna jarðskjálftanna hafði Hestamennska samband við Björgvin Þórisson dýralækni, en hann rekur dýralæknaþjónustuna Drösul í Spretti í Kópavogi. Hann sagðist ekkert hafa þurft að sinna hrossum vegna jarðskjálfta. Hestarnir í húsinu hjá honum hafa verið sallarólegir og varla litið upp þó að aðeins hristist.

„Þetta virðist ekki trufla þá mikið og þeir virðast ekki kippa sér upp við jarðskjálfta. Það hefur enginn hringt í mig vegna órólegra hesta út af jarðskjálftum, ekki einn einasti,“ sagði Björgvin. „Ég var einmitt að gera aðgerð hérna hjá mér þegar stærsti skjálftinn kom og ég heyrði allar innréttingarnar hristast. En hestarnir voru sultuslakir.“

Eigendur hrossa hljóta að taka þessum tíðindum fagnandi og það gerðu einnig stjórnendur og eigendur hrossa á stórri hestasýningu í Washingtonfylki í Bandaríkjunum í fyrra þegar jarðsksjálfti reið yfir. Eigendurnir ruku til og ætluðu að tengja hestakerrurnar við bíla sína og fara og sækja hrossin inn í risastórt hesthús á svæðinu. Þegar þangað var komið voru allir 414 hestarnir sem þar voru inni sallarólegir að éta. Sjá hér.

Enn vitum við ekki hvernig hross bregðast við ef byrjar að gjósa. En Matvælastofnun hefur gefið út viðbúnað dýraeigenda vegna náttúruhamfara  Sjá hér.

Einnig sérstakar leiðbeiningar fyrir dýraeigendur vegna eldgoss. Sjá hér

 

Fyrri greinSkæður veirusjúkdómur, EHV-1, herjar á hross í Evrópu
Næsta greinHugsa þarf vel um reiðtygi og olíubera oft og vel til að þau endist vel