Hestamennska á tímum kórónuveirunnar

4425
Hestar á húsi. Förum eftir reglum um hreinlæti og fjarlægð, líka í hesthúsinu. ©axeljón

Hestar á húsi þurfa sitt fóður og umhirðu og helst reglubundna hreyfingu þrátt fyrir heimsfaraldur á borð við kórónuveiruna. Þó að keppni og nánast allt íþróttastarf sé lagt niður ætti heilbrigt fólk að geta haldið áfram að ríða út ef allrar varúðar er gætt. Það er vel hægt að fara einn í reiðtúr eða halda tveggja metra fjarlægð á milli fólks ef allir vanda sig.

Hins vegar getur verið flókið að halda þessari reglu inni í þröngum hesthúsum. Þeir sem deila hesthúsi geta gert með sér samkomulag um einhvers konar stundatöflu þar sem ákveðið er hvenær hver og einn verður í hesthúsinu og hver eigi að sjá um að moka og gefa og hvenær. Takmörkuð umferð um hesthúsið er nauðsynleg á meðan ástandið varir.

Enn hefur faraldurinn ekki náð hámarki hér á landi. Búast má við að hestamenn lendi í sóttkví eins og aðrir í samfélaginu og smitist jafnvel og þá reynir á skipulag hesthúsfélaganna. Til að minnka líkurnar er áríðandi að fara eftir leiðbeiningum almannavarna og sóttvarnarlæknis og gæta fyllsta hreinlætis með því að þrífa og spritta helstu snertifleti í hesthúsi og á kaffistofum og halda að lágmarki tveggja metra fjarlægð.

Ef fyllstu varkárni er ekki gætt, og jafnvel þrátt fyrir það, og smit breiðist út meðal þeirra sem deila hesthúsi hver á þá að sinna hrossunum? Hugum að því og tökum reglur og leiðbeiningar alvarlega svo hestarnir fái þá umhirðu sem þeim ber.

https://www.covid.is – Tilkynning frá ÍSÍ

Fyrri greinAlgengustu mistökin eru að nota of löng mél
Næsta greinHófsperra – kvalarfullur velferðarsjúkdómur í hrossum