Hnakkur, knapi og tannheilsa meðal þess sem veldur stoðkerfisvanda hjá hestum

4356
Alls konar hnakkar ©asdishar

Nú eru margir hestar nýkomnir á hús og smám saman að komast í þjálfun. Ekki er óalgengt að upp komi ýmis vandamál þegar fólk fer að ríða út og stundum er erfitt að finna út hvað er nákvæmlega að. Fólk talar stundum um að allt í einu sé hesturinn orðinn stífari á annan tauminn, eða kannski bregst hann illa við þegar hnakkur er lagður á hann svo eitthvað sé nefnt.

Auður Sigurðardóttir hestanuddari og -sjúkraþjálfari segir að ástæðurnar fyrir vandamálum hjá hestum geti verið margar og oft er ekki um eitt vandamál að ræða heldur samspil nokkurra þátta. Það sé í raun algengt að eitthvað hrjái hestana okkar.

Ungir hestar þurfa tíma til að styrkja réttu vöðvahópana

Algengt er að hestar eru ekki tilbúnir líkamlega til að framkvæma það sem knapinn biður um. Hann er þjálfaður umfram getu. Oft eru unghestar þjálfaðir of hratt og þeim er ekki gefinn nógu mikill tími í að styrkja réttu vöðvahópana til þess að ná að vera í svokölluðum burði, til að ná jafnvægi við að bera sjálfan sig og knapann. Ekki má gleyma því að hestar eru ekki fullvaxnir fyrr en þeir eru 6 vetra gamlir. Afleiðingarnar geta orðið mikið álag á vöðvana og það getur leitt til eymsla og skertrar getu vöðvanna til að byggja sig upp. Hesturinn reynir að bæta upp það sem á vantar með breyttri líkamsstöðu og notar vöðva sem ekki eru til þess gerðir að þola álagið.

Önnur algeng ástæða er sú að hnakkurinn passar ekki hestinum. Hann getur passað illa, setið illa, verið of langur, lagður á of aftarlega eða of framarlega. Þetta leiðir oft til þess að hesturinn reynir að víkja undan þrýstingi frá hnakknum sem veldur eymslum. Það leiðir aftur til þess að hesturinn venur sig á slæma líkamsbeitingu sem veldur álagi á vöðva, liðamót, sinar og liðbönd.

Reiðmaðurinn sjálfur hefur gríðarleg áhrif á heilbrigði hestsins og segir Auður að meira þyrfti að tala um líkamsbeitingu knapans. Reiðmaðurinn þarf að spyrja sig hvort hann sé sjálfur í jafnvægi. Þetta getur haft meiri áhrif á hestinn en þungur knapi sem er í góðu jafnvægi. Ef fólk situr skakkt á hesti, t.d. vegna þess að það á sjálft við stoðkerfisvanda að stríða, getur það haft áhrif á hvernig vöðvar hestanna þeirra þróast. Hestarnir reyna alltaf að stilla okkur af og það getur komið þeim illa og sumir enda með stærri vöðva á annarri hliðinni sem dæmi. Því er nauðsynlegt að meta hestinn og knapann sem eina heild.

Einhliða þjálfun getur leitt til endurtekins álags á vöðva sem ef til vill eru ekki tilbúnir eða til þess gerðir að taka við slíku álagi sem einnig getur leitt til of mikils álags á liðamót, sinar og liðbönd.

Þá hefur byggingarlag hestsins sjálfs mikið að segja. Hestar sem eru með langt bak eða hærri á lend en herðar glíma oft við vandamál. Þetta hefur áhrif á hvernig þeir þroskast og þessir hestar hafa meira fyrir því að tölta og uppfylla óskir knapans.

Hófaheilsa, járningar og tannheilsa

Hófaheilsa og járningar hafa mikið að segja. Járningin þarf að vera í samræmi við lagið á hófnum og fótastöðu. Það er mikilvægt að huga að þessu og varasamt að fikta mikið í hófalaginu og fótastöðunni.

Ekki má gleyma tannheilsu hrossa. Hún getur haft afgerandi áhrif á líkamsbeitingu hestsins og líðan.

Næring hefur áhrif á vöðvavöxt og beinvöxt. Unghestur sem hefur ekki fengið gott hey í uppeldinu er illa búinn undir að takast á við tamningu og þjálfun. Meltingin þarf að vera í lagi. Í fullkomnum heimi segir Auður að allir tækju blóðprufu af hestum sínum. Það gæti breytt miklu. Skortur á B- og D-vítamíni hefur bæði áhrif á uppbyggingu beina og geðslag. Oft eru þetta lítil atriði sem auðvelt er að laga en breyta mjög miklu. Best væri ef hestaeigendur tækju bæði blóðprufu af hestinum og sendu heysýni til efnagreiningar. Þannig er auðveldara að stjórna fóðruninni eftir þörfum hvers hests.

Fyrri greinHestur í toppþjálfun er mjög líklega aumur einhvers staðar
Næsta greinNauðsynlegt er að skoða munnhol hesta reglulega