Uppbygging reiðhests yfir vetrartímann

Hvað segir Benedikt Líndal tamningameistari um þjálfun reiðhesta?

9425
Benedikt Líndal tamningameistari með tvo til reiðar. Ekki óalgeng sjón. Mynd frá Benedikt Líndal.

Þó markmiðið sé að þjálfa hest fyrir hestaferðalög að sumri eða lengri reiðtúra er um að gera að njóta hestsins miðað við reiðfæri og veðurfar að vetrinum með það að markmiði að hann sé vel þjálfaður þegar að sumri kemur. Þá taka við útivera og ferðalög jafnvel, eða lengri útreiðartúrar.

Benedikt Líndal tamningameistari og reiðkennari vill líta svolítið til baka og hugsa ferllið lengra aftur í tímann. Hann hefur áhyggjur af því að offita hjá hrossum sé vaxandi vandamál hin síðari ár. Því skipti máli í hvernig ástandi hesturinn er þegar honum er sleppt að hausti. Ef fólk hefur ekki sjálft reynslu af því að hafa hross í hagagöngu er gríðarlega mikilvægt að hans mati að fólk fái leiðbeiningar.

Sterkur og þolinn hestur í mátulegum holdum er fljótur að komast í form

Mikilvægt er að hrossin séu á passlegum haga og hafi vatn og skjól, en að haginn sé ekki þannig að beitin steypi þeim út í offitu. Þetta á jafnt við í sumarhaganum og á haust- og vetrarbeit. „Ég sé það í vaxandi mæli að hross eru orðin of feit hér á Íslandi. Þetta er orðið mikið vandamál. Þau eru á kröftugu landi og hafa mikið fóður og jafnvel standa sí og æ í rúllu á haustinn eða þegar líða fer á veturinn. Þegar hross eru orðinn stinn og mikil yfir makkann er það merki þess að þetta sé komið á það stig að við þurfum að grípa inn í vegna þess að þá er stutt í sykursýki og afleiðingin af henni er oftast hófsperra. Þá erum við í mjög slæmum málum. Eftir að þessir hestar stinnast svona í makkann þá er ekkert löng leið í að þeir fari að stirðna í liðum og lokastigið er svo hófsperra.

Ef hross eru farin að stinnast í makka getur tekið marga mánuði að ná þeim til baka, ef það tekst þá yfir höfuð. Að mínu mati mjög mikilvægt að fylgjast með þessu. “

Benedikt telur að það sé eitthvað til sem heitir vöðvaminni, eða þolminni í líkamsstarfseminni. Hann segist hafa orðið var við þetta hjá hestum. Ef hestur er í góðu formi að hausti, sterkur, þolinn og duglegur og ekki of feitur, þá ætti ekki að koma að sök þó hann standi í tvo til þrjá mánuði. Ef hann er tekinn inn í passlega miklum holdum þá er hann ekki lengi að komast í trimm.

Eftir að búið er að járna, gefa ormalyf, raspa tennur og fleira til að undirbúa hestinn undir þjálfun þá hefjast útreiðar. „Menn þurfa ekkert að vera feimnir við bara leggja á og ríða út í góðu veðri á tömdum hesti.“

Teymingar hafa margvíslegan tilgang og kosti

Benedikt leggur mikla áhersu á að teyma hesta á öðrum hesti. „Það er gríðarlega verðmætt og ætti að vera sjálfsagt í tamningu og þjálfun hjá öllum hestum að hestarnir teymist vel með öðrum hesti. Hestamaður sem ætlar að leggja af stað með sína tvo hesta og hesturinn teymist alls ekki, nýkominn úr tamningu, þá er ekkert víst að hann leiti aftur eftir þjónustu hjá sama aðila. Burtséð frá því þá er þetta þannig eiginleiki að hann hefur svo margvíslegan tilgang og kosti m.a. að trimma hestinn án þess að vera allan tímann á honum.

Það er líka mikilvægt að halda því til haga að hesturinn sjái tilgang í því að leggja sig fram. Að teyma hestinn með öðrum þar sem ekkert er ókunnugt fyrir þá og samvera og annað er skemmtileg án átaka þá er það mín reynsla að hestarnir sjái miklu frekar tilgang og eru sáttir og kátir. Ef tveir eða þrír hestar eru saman og enginn misskilningur á milli þeirra getur maður notið þess að vera á baki og það er gríðarlega skemmtilegt ef maður fær að vera þannig ótruflaður.“

Mikilvægt að fara rólega af stað

Í byrjun þjálfunar finnst Benedikt mátulegt að hreyfa hestinn í 30-40 mínútur. Þá ríður hann í rólegheitum og töluvert mikið á brokki. Hann segist ekki mikið vera að eiga við hestana fyrir utan að ákveða hraða og gangtegund. Ef hann fer fram á eitthvað meira sem tengist yfirferð á gangi eða áherslum þá hefur hann það stutt.

„Ef maður er með fleiri en einn hest er gott að hestur sé teymdur í þriðja hvert skipti. Ef maður er með tamda og góða hesta og er með einn í taumi er sjálfsagt að skipta á leiðinni, en þá þarf allt að vera spennulaust og öruggt og að maður hafi hestana hjá sér til þess að lenda ekki í veseni. Inn á milli er auðvitað mjög skemmtilegt líka að fara á einum hesti. Þá eruð þið tveir eða tvö saman og út af fyrir ykkur.

Hestar eru að vísu svolítið misjafnir að teyma á, sumir spennast upp við mikla umferð hesta í kringum sig, því er gott að velja hesta vel saman svo að allt verði átaka- og spennulaust. Það er frumskilyrði því annars gengur þetta ekki. Þetta er eins og allt annað að það þarf að undirbúa. Það felst ákveðin vinna í að velja saman hesta og venja þá við, en hún skilar svo gríðarlega miklu að hún borgar sig alltaf.

Ef maður er með taminn hest eða eldri hest þá er ekkert athugavert við að ríða honum á tölti og brokki og ekki þarf að vera með neinar sérstakar kúnstir þó að hann sé að koma inn eftir að hafa staðið í einhvern tíma. Mikilvægast er að gera þetta bara í rólegheitunum og hafa passlega mikla fjölbreytni milli gangtegunda. Gott er að láta hann líka stökkva upp halla úti og þess háttar. Þótt útreiðarnar séu efst í huga hjá flestum hestamönnum er ekkert athugavert við að vinna með hest inni í gerði eða reiðskemmu líka og taka þann undirbúning með sér í útreiðarnar“.

Góður vinnufriður og vel valdir samreiðarmenn

„En fyrst og fremst þarf maður og hestur sinn vinnufrið. Hvort sem þú ert að ríða út eða ert inni í reiðhöll þurfa allir að passa að skemma ekki fyrir öðrum, þ.e.a.s. að skapa ekki óþarfa spennu í kringum hestana. Ef það gerist getur knapinn lent í því að hafa hestinn ekki alveg hjá sér og jafnvel að geta ekki stjórnað hraðanum hjá hestinum.“

Benedikt gefur fleiri góð ráð. Hann segir að gott sé að hugsa um og undirbúa sig áður en maður fer á bak. Undirbúningurinn getur meðal annars falist í því að hleypa hestinum út áður en farið er í reiðtúr. Leyfa honum að velta sér eða hlaupa. Allt slíkt minnkar spennu hjá hestinum. Gott er að átta sig á því hvernig hesturinn er í raun og undirbúa hann samkvæmt því.

Hann segir að maður þurfi líka að velja sér samreiðarmenn sem passa, að menn séu ekki að trufla hvern annan. „Ég segi þetta alveg hiklaust,“ segir hann. „Sumir hestar eru mjög næmir fyrir því að ef það er riðið aðeins hraðar en þeirra þolmörk leyfa í sambandi við gangtegundir og lundarfar. Þess vegna þurfum við að hugsa um hvernig við viljum hafa útreiðartúrinn og hvað við þurfum að gera til þess að hann heppnist. Þetta þarf allt að hugsa fyrirfram. Aðalatriðið er að geta komið heim með hestana sátta og yfirvegaða. Þeir mega vera pínu þreyttir, en slakir og glaðir. Það er gríðarlegt atriði.”

Hægt er að ríða landshorna á milli á nokkrum vel þjálfuðum hestum

„Með áframhaldandi þjálfun er gott ef fólk getur hreyft hestana annan hvern dag, eða fimm sinnum í viku. Smám saman kemst hesturinn í þjálfun og á góðviðrisdegi er allt í lagi að fara í tveggja til þriggja tíma reiðtúr með fleiri en einn hest og hafa hestaskipti. Þegar farið er lengra er mikilvægt að fara jafna og rólega ferð, ekki að ríða fet og síðan gassast áfram fram úr hófi. Þó að ég sé ekkert hrifinn af því að fara langt á einum hesti þá er það auðvitað hægt. En það er alltaf svo mikil umbun fyrir hestinn að fara af honum áður en hann verður þreyttur og leyfa honum að hlaupa með. Ef fólk fer langt á einum hesti þarf að ríða töluvert á feti inn á milli.

Alla jafna er hæfilegt að venjulegir útreiðartúrar að vetri séu 3-5 km ef riðið er á jafnri, rólegri ferð. Þegar daginn fer að lengja má lengja reiðtúrinn alveg upp í 3-4 tíma, en þá er skemmtilegt að vera með hest í taumi til að hafa hestaskipti. Í miklu frosti ætti ekki að ríða hesti lengi og ekki hratt, alls ekki svo að hann verði móður því það getur haft mjög slæm áhrif á lungun.“

Ef skynsamlega er að málum staðið telur Benedikt að maður geti verið með gríðarlega vel undirbúna hesta til að njóta þess að fara í útreiðartúra og ferðalög um sumarið. Ef maður hefur tvo til þrjá, jafnvel fleiri vel þjálfaða hesta, er í raun og veru hægt að ríða landshorna á milli svo framarlega sem hestarnir verði aldrei þreyttir, stigið sé af baki þeim óþreyttum og skipt oft um hesta svo þeir haldi gleðinni.

Uppfært 26.11. 2021:

Nú eru tvö fræðslumyndbönd Benedikts Líndal komin á YouTube og eru opin öllum án endurgjalds. Sjá hlekki hér fyrir neðan.

Þjálfun

Frumtamning

Fyrri greinEfnaskiptaröskun í hrossum vegna offóðrunar er vandamál víða
Næsta greinGleðilega hátíð