Efnaskiptaröskun í hrossum vegna offóðrunar er vandamál víða

-Frekari rannsókna er þörf að mati Berglindar Ýrar Ingvarsdóttur sem gerði frumathugun á umfangi sjúkdómsins í BS-ritgerð sinni.

3218
Hross með greinileg einkenni EMS. ©asdishar

Á sama tíma og það gerist enn að hross séu vanfóðruð er þó offóðrun og þar af leiðandi offita sífellt meira vandamál hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Íslenski hesturinn, sem talinn er til hóps hrossakynja sem er auðvelt að halda og fóðra, þurfti lengi vel að treysta á Guð og gaddinn. Viðsnúningurinn yfir í að hafa of auðveldan aðgang að fóðri hefur verið snöggur og margir sem halda hross hafa ef til vill ekki áttað sig nógu fljótt á því. Margt getur valdið þessu, hlýrra veður og betri spretta samhliða mikilli tæknivæðingu í öflun heyja sem gerir það að verkum að bæði eykst framboðið og heyin eru sterkara fóður en áður var. Auk þess er hestum ef til vill gefið of mikið. Algengt er að útigangshross standa í vel verkuðu rúlluheyi alla daga í þröngum haga, þar sem þau hafa hvorki tækifæri til að hreyfa sig nóg né éta sinu með. Íslenskir hestar þurft að aðlagast þessari velmegun á tiltölulega stuttum tíma, sem og önnur hrossakyn því ekki eru nema 10 ár frá því að bandarískir dýralæknar settu fyrst fram sameiginlegt álit á sjúkdómnum.

Berglind Ýr Ingvarsdóttir rannsakaði EMS – Equine Metabolic Syndrom, efnaskiptaröskun í hrossum, í lokaritgerð sinni til BS gráðu við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Markmiðið var að gera forathugun á umfangi EMS í hrossum hér á landi og voru einkennin metin sjónrænt við eftirlit með velferð hrossa. Ekki voru þó gerð sértæk próf til að staðfesta greininguna. En einkenni EMS eða efnaskiptaröskunar hjá hrossum eru nokkuð auðgreinanleg. Einkennin eru helst offita og/eða staðbundin fitusöfnun á makka og/eða lend, hækkun á insúlíni í blóði, óeðlileg insúlínsvörun við inngjöf glúkósa, auk hófsperru. EMS er samheiti yfir ýmis frávik í efnaskiptum sem auka hættu á hófsperru, en talið er að allt að 90% tilvika hófsperru orsakist af EMS.

Eins lítið magn léttleysanlegra sykra í fóðri og mögulegt er

Markmiðið var einnig að lýsa í grófum dráttum aðstæðum hrossa sem bersýnilega voru með einkenni sjúkdómsins. Sendur var rafrænn spurningalisti til dýraeftirlitsmanna og eftirlitsdýralækna Matvælastofnunar og var beðið um eitt svar frá hverju eftirlitsumdæmi.

Einkennin eru helst offita og/eða staðbundin fitusöfnun á makka og/eða lend, hækkun á insúlíni í blóði, óeðlileg insúlínsvörun við inngjöf glúkósa, auk hófsperru.

Í ritgerðinni er vitnað í ýmsar rannsóknir og kemur meðal annars fram að stöðug fóðrun með fóðri sem inniheldur mikið af léttleysanlegum sykrum dregur úr insúlínnæmi samanborið við fituríkt fæði og ætti því almennt að gilda sú regla að innihald léttleysanlegra sykra í fóðri ætti að vera eins lítið og mögulegt er fyrir hesta. Með því að gefa hestinum smærri skammta í einu, oftar á dag, eru meiri líkur á því að hægt sé að draga úr hækkun á insúlíni í blóði eftir át. Samkvæmt rannsóknum er mælt með því að fóður innihaldi minna en 10-12% af léttleysanlegum sykrum og er stundum mælt með því að leggja heyið í bleyti áður en það er gefið til þess að skola léttleystar sykrur út. Þó er hætta á að mikilvæg næringarefni skolist einnig úr fóðrinu.

Meðferð hrossa í áhættuhópi ætti að byggja á breyttri fóðrun og aukinni hreyfingu hrossanna sem stuðlar að bættri insúlínstjórnun og dregur úr offitu. En sjúkdómurinn er algengari í hrossum sem eru í lítilli þjálfun. Það getur bent til þess að þjálfunin sem slík hafi jákvæð áhrif á insúlínstjórnun auk þess sem hún dregur úr líkum á offitu.

Síðslegið hey talið vera heppilegast fyrir íslensk hross

Í rannsóknum á fóðrun íslenska hestsins sem Berglind vitnar í kemur fram að orku- og próteinþarfir íslenska hestsins í hvíld svara til lægstu gilda sem mælt er með í fóðurleiðbeiningum fyrir hross. Viðhaldsþörf íslenska hestsins er því lítil. Einnig hafa rannsóknir sýnt fram á að gróffóður eigi alltaf að vera meiri hluti fóðurs hjá hestum. Þá hefur sláttutími áhrif á sykurinnihald í rúlluheyi á Íslandi og minnkar styrkur sykru því seinna sem grasið er slegið. Síðslegið hey er því talið vera heppilegasta heyið fyrir íslensk hross, þar sem léttleystar sykrur eru í lágmarki.

Ekki hafa verið gerðar faraldsfræðilegar rannsóknir á algengi efnaskiptaröskunar í hrossum hér á landi og því ekki til gögn um slíkt. Hins vegar hefur þessi forathugun Berglindar staðfest að sjúkdómurinn er vel þekktur á öllu landinu.

Í ljós kom að hross sem sýna einkenni sjúkdómsins hér á landi eru oftast haldin á útigangi í litlum hjörðum. Berglind ályktar að: „Sjúkdómurinn birtist fremur sem, einstaklingsvandamál en hjarðvandamál en á því eru þó undantekningar. Möguleg ástæða fyrir því getur verið að eigendur flokki ekki hrossin sín eftir fóðurþörfum þegar hjarðirnar eru litlar eða færri en 10 hross. Hross á útigangi eru ekki einstaklingsfóðruð og eru ekki í þjálfun eins og algengast er með hross sem haldin eru á húsi. Vandamálið virðist sjaldgæfara í stórum hjörðum sem kannski endurspeglar að þar er samkeppnin um fóður, hvort sem það er beit eða hey, meiri og því minni hætta á að þau fitni.“

Athyglisvert er að niðurstöður könnunarinnar benda til þess að holdastigun getur verið breytileg hjá hrossum með einkenni insúlínröskunar. Oftast eru þau feit, holdastigun 4-5, en stundum bara í reiðhestaholdum eða minna. Þá segir: „Alltaf var þó um staðbundna fitusöfnun að ræða sem bendir til þess að hross sem samt eru grönn á síðu hafi verið lengi með sjúkdóminn á krónísku formi og hafa því grennst vegna veikindanna.“

Samkvæmt erlendum rannsóknum þróa eldri hross frekar með sér insúlínröskun en yngri hross og kemur það heim og saman við þau hross sem dýraeftirlitsmenn og eftirlitsdýralæknar MAST hafa séð með þessi einkenni. Dregin er sú ályktun að það sé vegna þess að þau séu minna notuð sem reiðhestar. Þá virðast eldri hryssur líklegri til að þróa með sér insúlínröskun en geldingar og stóðhestar hér á landi.

„Alltaf var þó um staðbundna fitusöfnun að ræða sem bendir til þess að hross sem samt eru grönn á síðu hafi verið lengi með sjúkdóminn á krónísku formi og hafa því grennst vegna veikindanna.“

 

Ýmis ráð til að koma í veg fyrir efnaskiptaröskun í hrossum

Að lokum segir í ritgerð Berglindar: „Eigendur þurfa að vera meðvitaðir um fóðurþarfir hrossa, ekki síst þeirra sem haldin eru á útigangi. Offóðrun getur verið hættuleg og þá sérstaklega ef hross hafa ótakmarkaðan aðgang að grasi með háu innihaldi sykra, eins og gjarnan verður fyrrihluta sumars. Hross þurfa hreyfingu, einkum þau sem ekki eru í mikilli framleiðslu, þ.e. önnur en fylfullar eða mjólkandi hryssur. Verkefnalausir geldingar og geldar hryssur eru í mestri hættu á að fitna og þar með að þróa með sér sjúkdóminn.

Hægt er að koma í veg fyrir efnaskiptaröskun í hrossum með því að:

  1. Flokka og fóðra hross á útigangi eftir fóðurþörfum og fóðra í samræmi við það.
  2. Halda reiðhestum í góðri þjálfun stærsta hluta ársins.
  3. Gæta þess að hross fitni ekki um of og fari ekki yfir holdastig 4, sem þó er ásættanlegt og jafnvel nauðsynlegt fyrir útigangshross að hausti.“

Auka þarf upplýsingar um sjúkdóminn og kanna umfang hans

Í samtali við Hestamennsku sagðist Berglind Ýr alltaf hafa verið ákveðin í að fjalla um íslenska hestinn þegar kom að því að skrifa lokaritgerð í náminu. „Spurningin var bara hvað ég vildi skrifa um. Mér þótti áhugavert að skrifa um fóðrun hrossa og endanlega niðurstaðan var að skrifa um efnaskiptaröskun í hrossum af völdum offóðrunar. Ekki er vitað mikið um algengi sjúkdómsins hér á landi en það getur verið vegna þess hversu erfitt getur verið að skilgreina klínísk tilfelli. Ein leiðin til auka upplýsingar um sjúkdóminn hér á landi kanna umfang hans og koma fram með niðurstöður úr erlendum rannsóknum sem nýtast til upplýsingagjafar.

Upphaflega hugmyndin var sú að ná að komast í hjarðir og holdastiga hross og kanna þannig umfang sjúkdómsins hér á landi en ekki vannst nægur tími í það svo forathugun hjá dýralæknum og eftirlitsmönnum Matvælastofnunar var loka niðurstaðan. Það væri því mjög fróðlegt verkefni að ná að holdastiga fjölda hrossa, í mismunandi aðstæðum og kanna umfang sjúkdómsins á þann hátt.

Án þess að fullyrða neitt þá grunar mig að margir telji það frekar vandamál ef hesturinn þeirra er of magur, heldur en of feitur, bæði flokkast þetta undir vandamál sem þarf að huga að. Þar kemur holdastigunarskalinn einmitt sterkur inn, ég mæli með að allir sem haldi hross tileinki sér hann. Ég tel það alveg nauðsynlegt að flokka útigangshrossin í stórum hjörðum eftir aldri og reyna að komast sem mest hjá því að hross eigi á hættu að fá efnaskiptaröskun. Ungviðið vill oft verða útundan á gjöf og þau eldri taka yfir með þeim afleiðingum sem það getur haft í för með sér, bæði á þau yngri og eldri.“

 

 

Hestamennska hvetur alla hestamenn til að lesa ritgerð Berglindar í heild sinni. Hægt er að nálgast hana á skemman.is

Holdstigunarkvarði hrossa hjá MAST

Einnig er bent á mjög góða og fróðlega (nokkuð fræðilega) grein hjá Equus Magazine um sykrur í grasi. Þar kemur m.a. fram að hættulegt getur reynst fyrir hross sem eru í hættu á að fá EMS eða eru komin með sjúkdóminn að vera á snöggri beit, þar sem mestar sykrur eru í stönglinum en ekki í blöðunum. Einnig kemur fram að það skiptir máli á hvaða tíma dags hrossunum er beitt og á hvaða tíma árs, vor og haust þegar grös eru að falla.

Sjá einnig grein hér á Hestamennsku um hófsperru

Fyrri greinKnapamerkin eru markvisst, stigskipt nám í hestamennsku
Næsta greinUppbygging reiðhests yfir vetrartímann