Fákar og fólk – fjölbreyttar myndir úr hestamennsku í 30 ár

3870
Eiríkur Jónsson
Fákar og fólk hefur að geyma fjölbreyttar ljósmyndir af hestum og hestafólki og spannar feril Eiríks Jónssonar sem hestaljósmyndara í 30 ár.

Eiríkur Jónsson hestaljósmyndari með meiru gaf út bókina Fákar og fólk, svipmyndir úr hestamennsku í 30 ár fyrir síðust jól. Þar birtast fjölmargar og fjölbreyttar myndir úr hestamennskunni frá árunum 1979 til 2010. Margir hafa haft á orði við Eirík að þeir hafi rifjað upp löngu liðna tíma og jafnvel gleymd augnablik og hefur bókinni verið afar vel tekið, ekki síst af eldra hestafólki sem man þennan tíma vel. Umsjónarmaður Hestamennsku heimsótti Eirík á dögunum, spjallaði við hann og skoðaði bókina.

167.000 hestamyndir

Eiríkur á gífurlegt safn af hestamyndum, um það bil 167.000, svo það hlýtur að hafa verið mikið verk að velja myndirnar í bókina. „Ég get fundið hvaða mynd sem er á innan við mínútu. Ég hef merkt allar myndirnar mínar í Wordog flokkað þær. Ég hef til dæmis allar myndir af stóðhestum sér og allar myndir af hryssum sér og svo framvegis.

Það er þó ekki mesta vinnan að fara í gegnum allar þessar myndir, heldur að velja hvaða mynd er best af sama hestinum. Ég á allt upp í 4-500 myndir af sama hestinum. Því getur verið erfitt að velja þá bestu.  Samt hef ég flokkað myndir þannig að ég gef ekki myndum sem mér finnst ekki nógu góðar númer. Það hjálpar mér að finna og velja úr þeim bestu. Þetta er mjög skipulagt.“

Eiríkur er búinn að skanna inn allar myndirnar sínar og á því bæði stafrænar myndir og myndir af filmum í tölvutæku formi. „Ég byrjaði að taka hestamyndir árið 1979. Ég var upphaflega ráðinn á Vísi til þess að sjá um ljósmyndasafnið. Ég var í Háskólanum í ensku og bókasafnsfræði og var því ágætlega hæfur til verksins. Hins vegar var ekkert efni til um það hvernig maður átti að skipuleggja ljósmyndasafn svo ég bjó til mitt eigið kerfi. Það kerfi nýttist mér svo seinna þegar ég bjó til mitt eigið ljósmyndasafn. Reyndar er flest allt sem ég lærði í bókasafnsfræðinni úrelt núna, enda voru engar tölvur til þá.“

Eiríkur hafði þó tekið ljósmyndir áður, allt frá því að hann og móðir hans keyptu sér rússneskar kassamyndavélar þegar hann var átta eða níu ára. „Þetta voru svona þokkalegar myndavélar. Ég kunni ekkert á myndavélar þá og vissi ekkert hvað hraði eða ljósop var. Hins vegar heppnuðust sumar myndirnar bara ágætlega. Ég spyr mig núna. Af hverju virkaði þetta? Ég var að skoða Tímann frá 1958 og þar eru fínar myndir af hestamótum. Þrátt fyrir alla tækni nútímans er vert að skoða hvað mikið var tekið af góðum myndum í gamla daga.“

„Maður veit aldrei hvernig hlutirnir þróast“

En Eiríkur á ekki langt að sækja ljósmyndaáhugann því faðir hans, Jón Eiríksson frá Vorsabæ á Skeiðum, tók einnig mikið af myndum sem hafa birst í ýmsum bókum, meðal annars í Aldahvörf á Skeiðum sem kom út á 70 ára afmæli hans og Jarðarbók Skeiðahrepps um örnefni í Skeiðahreppi. En þar voru einmitt margar myndir af hestum, sem reyndar voru enn notaðir við ýmis verk þegar Eiríkur var að alast upp í Vorsabæ.

Þegar ég byrjaði á ljósmyndasafni Vísis fór ég fljótlega að skrifa og taka myndir fyrir blaðið. Síðan sameinuðust Dagblaðið og Vísir í DV og ég hélt áfram að skrifa um hesta þar. Svona æxlaðist þetta bara og maður veit aldrei hvernig hlutirnir þróast. Ég fór líka að skrifa um og taka myndir af íþróttaviðburðum og síðan að fjalla um getraunir. Seinna sótti ég um vinnu hjá Getraunum og fékk hana og þar starfa ég enn.

Ég hélt þó áfram að skrifa um hestamennsku í DV í eitt eða tvö ár. Ég tók líka myndir í bækurnar hans Jónasar Kristjánssonar ritstjóra og síðan fyrir WorldFeng. Ég hætti því árið 2010. Svo nú er þetta liðin tíð. Ég fór í eitt verkefni árið 2017 en núna er ég hættur.

Eitt af því sem var farið að gera hestaljósmyndun erfiðari var að alltaf voru girðingarnar í kringum vellina að verða fyrirferðarmeiri sem eyðileggur mikið fyrir ljósmyndurum. Þetta kemur líka vel fram í bókinni. Þar er myndunum raðað eftir árum og fyrst koma myndir frá 1979 og þar er lítið um girðingar eða línur. Hins vegar eru þær orðnar mjög áberandi á síðustu myndunum.  Ljósmyndarar voru farnir að reyna að færa sig nær til þess að losna við línurnar en þá voru þeir reknir til baka. Samt sem áður vildu allir fá góða mynd af sér og hestinum.“

Hugmyndina um að gefa út bók með ljósmyndum fékk Eiríkur eftir að hann hafði sjálfur útbúið ljósmyndabók fyrir sjálfan sig í tölvunni til gamans. Þá gerði hann  sér grein fyrir því að ef til vill ættu þessar myndir erindi við fleiri en hann sjálfan. „Ég fór því að vinna í þessu og hafði samband við Ívar Gissurarson hjá útgáfufyrirtækinu Nýhöfn. Ég kannaðist aðeins við hann frá því að ég spilaði fótbolta gegn honum í gamla daga. Hann hafði líka gefið út bækurnar hans pabba um örnefni á Skeiðunum. Ívar tók vel í hugmyndina og talaði við hestafólk til að forvitnast um hvort það hefði áhuga. Svo virtist vera því ákveðið var að gefa bókina út.

Myndirnar heimild um hesta, hestamennsku og tíðaranda

Þetta var allt tilbúið hjá mér en eftir að ákveðið var að gefa bókina út fór ég að vinna meira með efnið, finna fleiri myndir og leita nánari upplýsinga. Ég vildi til dæmis hafa upplýsingar um hvaðan allir hestarnir á myndunum voru. Þótt enginn texti sé í bókinni fyrir utan myndatexta þá vildi ég að þeir segðu sem mest. En þetta varð til þess að ég fór yfir allar hestamyndirnar mínar, 167.000 talsins og ég viðurkenni að ég mundi jafnvel ekki eftir að hafa tekið sumar þeirra. Sumar myndir sem mér fannst á sínum tíma hafa misheppnast algjörlega sá ég í öðru ljósi núna og birti jafnvel í bókinni. Margar myndanna segja líka mikla sögu, ekki einungis um hvernig hestarnir voru og móthaldið, heldur sýna þær líka ýmsa staði og hvernig þeir hafa breyst. Sem dæmi eru myndir sem teknar voru á mótum hjá Gusti í Kópavogi, þar sem gífurleg uppbygging á húsnæði hefur orðið frá því myndirnar voru teknar. Myndirnar eru því heimildir á ýmsan hátt.“

Bókinni hefur verið vel tekið og selst vel og segist Eiríkur vera mjög ánægður með að hafa drifið í að gefa hana út. „Mjög margir hafa haft samband við mig og lýst því hvernig myndirnar hafi rifjað upp ýmsa skemmtilega atburði svo ekki sé talað um hestana frá þessum tíma.“

Fyrri greinGleðilega hátíð!
Næsta greinAlgengustu mistökin eru að nota of löng mél