Huga þarf vel að hrossum sem fá holdhnjúska

Holdhnjúskar stafa oftast af bakteríusýkingu

2428
Þessi hestur fékk hnjúska á bak, lend, haus og upp á eyru. Honum batnaði án þess að fá fúkkalyf. ©asdishar

Eins og tíðin hefur verið að undanförnu er alltaf hætta á að hross fái holdnjúska sem geta verið ansi hvimleiðir og erfiðir viðfangs. Holdhnjúskar myndast helst í rysjóttri og votviðrasamri tíð, ekki síst ef hrossin ganga á blautu landi. Þá blotnar og eyðileggst efsta lag yfirhúðarinnar, fitukirtlarnir mynda útferð sem verður að hrúðri sem klístrast fast við hárin. Þar með hættir fitan í húðinni og hárin að veita þá vörn sem þau gera hjá heilbrigðu hrossi.

Fyrir all nokkrum árum tók umsjónarmaður Hestamennsku viðtal við Eddu Þórarinsdóttur dýralækni sem hefur fylgst vel með þessu vandamáli, en í lokaritgerð sinni í dýralækningum fjallaði hún um húðsjúkdóma í hrossum. Hún segir að orsakir holdhnjúska hafi vafist fyrir mönnum, en rannsóknir hafa sýnt að þær séu aðallega og kannski eingöngu vegna bakteríusýkingarinnar Dermatophilus Congolensis.

„Bakterían Dermatophilus Congolensis hagar sér að mörgu leyti sérkennilega og minnir á sveppi. Hún myndar gró en fer yfir í hreyfanlegt stig í vætu og getur þá valdið hnjúskum Bakterían hefur ekki fundist í umhverfinu, heldur bara í skepnum. Hún er þekkt í kindum og nautgripum, sérstaklega í heitari löndum, en uppgötvaðist ekki fyrr en um 1980 á Norðurlöndunum sem orsök hnjúska í hestum, í Noregi og síðan í Danmörku.“

Edda fékk staðfestingu á að þessi baktería fyndist í hrossum með holdnjúska hér á landi þegar hún sendi sýni úr þeim til Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólans í Danmörku í janúar 1996. Af fjórum sýnum ræktaðist hún í þremur.

Hross sem fá hnjúska geta verið mjög misslæm. Allt frá því að fá þá aðeins á bak og lend í að vera með hnjúska frá leggjum og upp á eyru. Á meðan hnjúskarnir eru til staðar er auðvitað ekki hægt að leggja hnakk á hrossin, enda segir Edda að þeir geti valdið töluverðum sársauka. Vel þarf að fylgjast með hrossum sem fá hnjúska. Þau þurfa að hafa gott skjól og nægilegt fóður og nauðsynlegt er að hýsa þau fari þau að leggja af. Hross sem eru feit og með góðan vetrarfeld eru betur búin undir veturinn og ólíklegra að þau fái hnjúska.

Hægt að meðhöndla með fúkkalyfjum

Edda sagðist hafa séð nokkur tilfelli af mjög slæmum hnjúskum. Í tveimur tilfellum náðu hrossin sér varla yfir sumartímann og voru því mjög viðkvæm þegar haustaði aftur. Þetta varð því vítahringur sem erfitt var að stöðva. Um var að ræða stóðhest og hryssu. Hryssan lét til dæmis nokkrum sinnum folaldi þegar líða tók á veturinn og ég tengi það við ástand hennar. Í svona slæmum tilfellum og til dæmis þegar vessar úr hnjúskunum og kláði fylgir er hægt að grípa til þess ráðs að gefa hrossum fúkkalyf. Þannig er einnig hægt að rjúfa vítahringinn ef hross fá hnjúska ár eftir ár. Þá er fúkkalyfið gefið í háum skömmtum í að minnsta kosti 6 eða 7 daga.

Hún segir að í rauninni sé gott til þess að vita að það sé baktería sem veldur hnjúskum því þá er hægt að beita þessari meðhöndlun. „Ég mæli þó ekki með því að öllum hrossum sem fá hnjúska sé gefið fúkkalyf. Að mörgu leyti er gott ef þau geta unnið á þessu sjálf ef ástandið er ekki mjög slæmt. Þegar búið er að taka hross með hnjúska inn er til bóta að klippa verstu svæðin til að flýta fyrir því að þau grói. Þá er gott að nota græðandi smyrsl. Margir nota olíu og það geti verið ágætt, en það á alls ekki að gera ef hrossið er áfram úti.“

Fyrri greinHvíld er hestum nauðsynleg
Næsta greinVið þurfum að taka samtal um þróun íslenska hestsins