Magasár mun algengara í íslenskum hrossum en áður var talið

3130
Tryooi í haga

Magasár er mun algengara í íslenskum hestum en áður hefur verið talið. Í rannsókn á tíðni magasára í íslenskum hestum, sem Úndína Ýr Þorgrímsdóttir dýralæknir framkvæmdi ásamt Nönnu Luthersson dýralækni, sem stjórnaði rannsókninni, og vísindamönnunum Patricia A Harris, Tim Parkins og Euan D. Bennet, voru 71 hross rannsökuð frá 10 bæjum á4 ólíkum landssvæðum á Íslandi. Meðalaldur þeirra var þriggja vetra.

Magaspeglun var gerð á hrossunum innan tveggja vikna frá því að þau voru tekin á hús til tamningar eða þjálfunar. Af þessum hrossum voru 71 spegluð aftur að átta vikum liðnum. Einnig voru ýmsir þættir, svo sem umhirða og aðstæður, ásamt hegðun hrossanna, athugaðir með því að spyrja eigendur eða þjálfara hrossanna beint. Metin var breyting á hrossunum á þessu átta vikna tímabili.

Hestamennska ræddi við Úndínu um niðurstöður á rannsókninni sem birtar hafa verið í vísindatímariti Bandarísku dýralæknasamtakanna, AVMA Journal (American Veterinary Medical Association). Hún sagði niðurstöðurnar hafa komið verulega á óvart.

Tryppi koma inn af útigangi með magasár

„Þetta voru eiginlega sjokkerandi niðurstöður þegar við skoðuðum tryppin í fyrri hluta rannsóknarinnar,“ sagði hún. Hátt hlutfall tryppanna, eða 71,6%,  voru með sár í hvíta hluta magans, þ.e. efri hluta magans.Upprunaleg hugmynd okkar var að taka inn tryppi sem helst höfðu aldrei verið snert áður og spegla þau sem fyrst eftir að þau komu inn og síðan aftur eftir átta vikur til þess að sjá hvernig meðhöndlun okkar mannanna hefði áhrif á sjúkdóminn. Það hefur alltaf verið talið að þessi sjúkdómur tengist mjög því hvernig við höldum hestana, stressið í kringum frumtamningar, hvað hrossunum er gefið oft og fleiru. En þetta var algjörlega þveröfugt. Í ljós kom að tryppin sem voru að koma inn á hús í fyrsta sinn voru með alvarleg magasár, en skánuðu eftir að þau komust í umsjá manna og greindust ekki nema 25,4% tryppanna með magasár eftir að hafa verið á húsi í átta vikur.

Magasár
Magaspeglun. Úndína Ýr Þorgrímsdóttir. Þorgrímur Hallgrímsson faðir hennar aðstoðar.
©️Úndína Ýr Þorgrímsdóttir

Þar sem að niðurstöðurnar úr trypparannsókninni okkar voru svo slándi, var ákveðið að drífa í næstu rannsókn, sem gæti vonandi fært okkur nær svarinu af hverju tryppin sem komu á hús í október voru með magasár í hvíta hluta. Úrtakið er 80 hross sem eru á útigangi allt árið og eru þau magaspegluð fjórum sinnum yfir árið. Auk þess erum við núna að taka grasasýni í þeim högum sem hrossin eru á hverju sinni og erum búin að skrá næstu veðurstöð við bæina til að geta fylgst með veðráttunni yfir árið.

Við ætlum að athuga hvaða áhrif það hefur á hrossin þegar grösin eru að breytast á haustin. Grösin breytast mikið, til dæmis magn trénis og því hafa hrossinn kannski ekki jafn mikið til að tyggja. Þá gerist það að þau framleiða ekki nógu mikið munnvatn sem hjálpar til við að hækka sýrustigið í maganum. Magasár orsakast af sýruertingu. Sýrustig í maga hests sem er fastandi er í kringum 1,6. Eftir gjöf er sýrustigið í kringum 4, en 4 til 5 tímum lækkar það aftur niður í 1,6. Þegar hesturinn tyggur heyið þá myndar hann munnvatn. Munnvatn hestsins inniheldur ensím sem hjálpa til við niðurbrot og basa (bikarbonat) sem vegur á móti sýrunni í maganum og hækkar sýrustigið.

Einnig þarf að athuga hvernig veðrið er. Ef það er slæmt standa þau kannski meira og híma og éta ekki eins mikið. Við höfum einnig séð að stærð á stóðum og goggunarröð hafa mikil áhrif, bæði með tilliti til sárs í hvíta hluta og rauða hluta magans.“

Stress og langvarandi verkir áhættuþættir

Úndína útskýrir hvað er hvíti hluti magans og hvað rauði: „Magi hrossa skiptist í tvær slímhúðir, hvíta hlutann og rauða hlutann. Efri hluti magans er hvít slímhúð sem hefur mjög lítið varnarlag gagnvart magasýrunni. Sár í hvíta hlutanum eru fóðurtengd. Aftur á móti eru sár í rauða hlutanum, neðri hluta magans, stresstengd. En í rauða hlutanum er mun sterkara varnarlag, enda er þessi hluti magans alltaf í snertingu við magasýruna. Þar er einnig meira blóðflæði þannig að slímhúðin getur gert örar við sig. En stress veldur magasári og hægt er að skipta ástæðu fyrir stressinu upp í frumástæðu (primary) og aukaástæðu (secundary). Frumástæða gæti verið þegar hestur er einfaldlega stressaður að eðlisfari, en aukaástæða gæti verið vegna þess að eitthvað annað hrjáir hann sem veldur stressinu, til dæmis líkamlegir áverkar, stífur spjaldhryggur, hófsperra, vandamál í stoðkerfi, brotnar tennur, sprunga í hóf og margt fleira.“

Úndína segir greinilegt að það sé tenging þarna á milli. „Ég hef verið að magaspegla hesta sem tennur hafa verið teknar úr, hafa verið með áverka á sinum og liðböndum eða sprungu í hófi. Það helst þá oft í hendur að hestar sem hafa lent í einhvers konar áfalli sem veldur þeim vanlíðan eru með magasár í rauða hluta magans. Sífelld vanlíðan og verkir leiða til streitu sem leiðir út í magann og veldur magasári.“

Magasár er því mun algengara vandamál hjá íslenska hestinum en þau sem að rannsókninni stóðu héldu fyrirfram. Ástand reiðhesta hér á landi virðist þó vera heldur skárra en erlendar rannsóknir sýna. Tíðni magasára í hvíta hluta magans er heldur lægri hér en meðaltöl sýna. Aftur á móti virðist tíðni magasára í rauða hluta magans vera svipuð hér og erlendis. „Þetta segir mér að það sé alveg jafn stressandi að vera hestur á Íslandi og í öðrum löndum,“ segir Úndína.

„Áhrifin á hestana eru mjög mismunandi,“ segir hún. „Sumir hestar eru lokaðir og virðast bara sætta sig við þennan króníska verk. Þeir húka kannski einir úti í gerði og sækjast ekki mikið eftir félagsskap. Aðrir hestar eru mjög viðkvæmir og bregðast illa við allri snertingu á síðuna og verja sig þegar verið er að leggja á þá hnakk og herða gjörðina af því að þeim finnst það óþæginlegt. Hjá þannig hestum er auðveldara að sjá einkennin þótt þau séu kannski alveg jafn slæm hjá hinum rólega sem sætta sig við verkina og vanlíðunina.

Hrossum þarf að gefa þrisvar til fjórum sinnum á dag

Enn á eftir að fá svör við ýmsum spurningum og rannsóknin heldur áfram. Til dæmis kom í ljós að fólk sem tók þessi tryppi inn sem voru í rannsókninni fundu engan mun á þeim og tryppum yfirleitt. Þau voru ekkert hrekkjóttari eða viðkvæmari en önnur. Þá vaknar sú spurning hvort ástandið sé almennt svona. „Við þurfum því að nota vitneskjuna um að tryppin lagist þegar liðnar eru nokkrar vikur í innistöðunni til að reyna að bæta velferð hrossana. Þessar niðurstöður geta því nýst okkur sem mikilvægar upplýsingar og sagt okkur að byrja að heyja tryppin okkar þegar þau koma á hús í einhvern tíma, áður en farið er að vinna með þau. Það var oftast gert í gamla daga. Þá var reyndar oftast gefið einu sinni á dag, en í ljós kemur að til þess að vel eigi að vera þarf að gefa hrossum að minnsta kosti þrisvar á dag, helst fjórum sinnum.

Ég er nýbúin að magaspegla tvo geldinga frá sama eiganda. Þeir voru í hópi sex hrossa á sama beitarstykkinu og því bjuggu þeir við nákvæmlega sömu aðstæður í jafn langan tíma. Annar þeirra var mjög slæmur í hvíta hluta magans, en ekkert sást á hinum. Í ljós kom að sá sem var slæmur hafði verið geltur fjögurra vetra og var alltaf eitthvað að vesenast í hinum hrossunum og gaf sér því varla nægan tíma til að éta. Hinn var miklu rólegri og át og át og var bara hestur. Svo þetta er mjög persónubundið líka.“

Úndína segist ekki hafa verið með neinar væntingar fyrirfram hvað varðar rannsóknina. Henni hafi bara fundist viðfangsefnið spennandi.. „Það sem stendur upp úr er að það er sífellt að koma betur í ljós hversu algengt er að íslenskir hestar séu með magasár. Ég varð vör við það að margir sem áttu hross í rannsókninni hefði aldrei grunað að hesturinn þeirra væri með magasár og hefðu kannski ekki trúað því nema að þeir voru viðstaddir og horfðu á tölvuskjáinn á meðan á magaspegluninni stóð.

Magasár
Heilbriðgur magi. Hér sést hvíti hluti magans (efri slímhúð) og svo rauði hluti magans (neðri slímhúð) ©️Úndína Ýr Þorgrímsdóttir

Kunnáttan kemur hægt og rólega eftir því sem þekkingin eykst. Hægt er að gefa hrossum lyf og stundum er það nauðsynlegt. Ég mæli samt með því að fólk taki hrossin inn, heyi þau í tvær vikur áður en þau fara að eiga eitthvað við þau og gefi svo oftar, nokkrum sinnum á dag. Það sem er sérstakt við íslenska hestinn er að það virtist ekki skipta máli þótt þeir fái ekki gjöf í 16-18 tíma yfir nóttina, ólíkt því sem veldur vandamáli hjá hrossum víða erlendis. En mestu máli skipti hversu oft þeim er gefið á daginn.“

Sjálf hefur Úndína séð mikla breytingu á sínum hrossum eftir að hún fór að gefa þeim 3-4 sinnum á dag. „Ég gef þeim á morgnana og í hádeginu, hára þeim þegar ég kem upp í hesthús seinni partinn og gef svo kvöldgjöf. Hestarnir eru mun sáttari þegar ég fer á bak, minni slagsmál eru úti í gerði og þeir eru sáttari frá húsi og almennt mun rólegri.“

Aldrei á að hreyfa hest með tóman maga

Annað vill Úndína leggja áherslu á til þess að reyna að koma í veg fyrir að hross fái magasár í hvíta hluta magans, en það er að mjög slæmt er að hreyfa hest með tóman maga. Magasýra er saltsýra og hún ertir. Ef hestur er með tóman maga og fer hraðar en á feti slettist magasýran úr rauða hlutanum upp á hvíta hlutann, sem eins og áður segir er með mjög lítið varnarlag, og brennir slímhúðina. Þetta getur mjög líklega orsakað magasár. „Ef þú gefur hestinum um það bil hálft kíló af heyi áður en hann er hreyfður þá ertu búinn að búa til svokallaða heymottu, ágætt orð sem ég  bjó til. Heyið blandast þá magasýrunni og stillir hana svolítið af og minni líkur eru á að sýran slettist upp á hvíta lagið. Það sem gerist líka þegar maginn er tómur við þjálfun er að sýrstigið lækkar enn frekar og magasýran verður enn meira ertandi. Ég mæli ekki með því að hestur sé fastandi í meira en fjóra til fimm tíma að degi til.“

Magasár
Magasár í hvíta hluta magans.
©️Úndína Ýr Þorgrímsdóttr

Aðspurð um hvernig hey henti hrossunum best segir hún að það sé gott að heyið sé gróft. Þó ekki of gróft því það þarf að vera góð næring í því. En gróft hey eykur tyggingu og þar með munnvatn sem hjálpar til við að vernda magann. „Ég mæli þó með því að fólk taki heysýni og láti efnagreina og ef þarf á að bæta það upp með steinefnum, snefilefnum og vítamínum. Hvað varðar fóðurbæti eru sykrur og sterkja áhættuþáttur. Samanlagt magn af sterkju og sykri ætti ekki að vera meira en 15-20% í 1 kg af kraftfóðrinu.

Miklu máli skiptir líka hvenær kjarnfóður er gefið. Hætta á magasári eykst ef það er gefið á fastandi maga, hvað þá þegar hestur er nýkomin úr krefjandi aðstæðum, til dæmis keppni. Það er miklu betra fyrir hann að fá hey áður og svo kraftfóðrið sitt. Hesturinn þarf náttúrlega bara gott hey, steinefni, snefilefni og vítamínin sín.“

Fyrir þá sem hafa áhuga á að heyra í Úndínu í sambandi við magaspeglun áhrossum geta sent henni tölvupóst á dyrlaege.ehf@gmail.com.

Fyrri greinVið þurfum að taka samtal um þróun íslenska hestsins
Næsta greinHröð öndun í miklu frosti getur skaðað lungu hrossa