Hófsperra er æ algengari velferðarsjúkdómur í hrossum. Áður var oftast talað um hófsperru í sambandi við fóðurbreytingar, þ.e. ef hrossum var sleppt á græn grös án aðlögunar, eða veikindi svo sem hrossasótt. Nú er þetta vandamál orðið mjög algengt víða um heim og sést hér á landi í auknum mæli. Tíðni hófsperru hjá íslenskum hestum á meginlandinu hefur líka aukist mjög. Hófsperra er mikið heilsufarslegt vandamál hjá hrossum og sársaukafull og skapast aðallega nú til dags vegna offitu og hreyfingarleysis.
Enn er þó talið að helsta ástæða bráðrar hófsperru sé snögg fóðurbreyting samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun þar sem nákvæm lýsingu á hófsperru er að finna. Fóðurbreyting verður meðal annars ef hross komast í fóðurbæti eða þegar þau komast skyndilega á græn grös án þess að hafa aðlagast beitinni smám saman. Á sólríkum og köldum dögum, aðallega að vori eða hausti, innihalda grös mikið fruktan (sykur). Við fóðurbreytinguna lækkar sýrustig í víðgirni og raskar miklivægri þarmaflórunni. Við það skaðast þarmaveggurinn og eitruð efni eiga greiða leið inn í blóðrásina. Kvikan sem tengir hófbeinið við hófvegginn er viðkvæm fyrir áhrifum þeirra, þó allur líkaminn verði fyrir áhrifum. En á vefsíðu MAST segir m.a.:
„Röskun verður á blóðrás kvikunnar sem leiðir til kvikubólgu. Kvikubólga er það sem við í daglegu tali köllum hófsperru. Umfangsmikil og alvarleg kvikubólga getur leitt til þess að hófbeinið missir hina sterku tengingu við hófvegginn og getur tekið að snúast inni í hófnum. Ekki þarf að fjölyrða hversu sársaukafullt það er og þó svo hægt sé að draga úr bólgunni með lyfjagjöf er hætt við að hófurinn verði aldrei samur.“
Þótt erfitt sé að útskýra öll tilfelli hófsperru með þessu er vitað að of feitum hrossum hættir til að fá hófpserru. Sú röskun í efnaskiptum sem á sér stað hefur verið líkt við sykursýki 2 í mönnum. Talið er að smærri hestakynjum sé hættara við slíkri efnaskiptaröskun.
„Hófsperra er afar kvalafullur sjúkdómur sem leiðir í verstu tilfellum til þess að hesturinn fær sig ekki hreyft,“ segir á vefsíðu MAST. „Alla jafna er sársaukinn meiri í framhófunum og standa hestar með hófsperru því gjarnan með afturfæturna langt innundir sig til að létta á framhlutanum. Í sumum tilfellum má sjá þá víxla stöðugt þunganum milli framfótanna en mjög erftitt getur þó verið að fá þá til að lyfta fæti. Við þreifingu má finna að hófarnir eru heitir með miklum slætti í aðliggjandi æðum.
Líðan hestsins ræður framhaldinu
Batahorfur ráðast að miklu leyti af því hversu alvarleg sjúkdómseinkennin eru og hvort hófbeinið hafi hreyfst til innan í hófnum. Röntgenmyndataka er oftast nauðsynleg til að meta það en líðan hestsins og svörun við verkjastillandi meðhöndlun segir þó mest til um framvinduna. Nauðsynlegt getur verið að aflífa hross sem þjást mikið enda eru batahorfurnar þá litlar.
Í vægari tilfellum verða hestar stirðir til gangs en ekki er víst að eigandinn verði þess var, t.d. yfir sumarið, ef hesturinn er ekki í notkun á þeim tíma. Ef ástandið varir lengi munu afleiðingarnar þó sjást á hófunum, t.d. með breikkaðri hvítu línu. Fóðurbreytingalínur sem gleikka til jaðranna eru einnig öruggt merki um að hesturinn hafi fengið hófsperru. Hross með mjög mild einkenni geta fengið bata innan eins til þriggja daga.“
Ef vart verður við áðurnefnd einkenni er brýnt að hafa strax samband við dýralækni. Ekki ætti að hreyfa hestinn úr stað og helst að hafa hann á mjög mjúku undirlagi, sandi eða miklu sagi eða spónum. Hestur með hófsperru ætti ekki að fá annað en gróft hey eða hálm og alls ekki kjarnfóður. Hesturinn þarf verkjastillandi meðferð og þegar hann getur aftur hreyft sig eða lyft fótum þarf að fá járningarmann til að klippa hófana og sjúkrajárna.
Hætt er við að hross sem hafa fengið hófsperru fái hana aftur. Þau þurfa að aðlagast beit á grængresi í tvær til þrjár vikur og helst eiga þau að vera eingöngu á beit á útjörð og alls ekki á túnum.
Hæfilegt holdafar og hreyfing besta forvörnin
Besta forvörnin felst í því að passa upp á að hross verði ekki mjög feit og að tryggja þeim nægilega hreyfingu. Stundum takmarkar fólk tímann sem hross fá að vera á beit á hverjum degi en samkvæmt upplýsingum MAST sýna rannsóknir fram á að þá éti þau mun hraðar þegar þau komast á beit og vinna sér upp tapaðan tíma. Svo það getur verið heilmikil vinna að halda hrossunum í hæfilegum holdum. Einnig er mikilvægt að ung hross alist upp á rúmu landi með jafnöldrum sínum við hlaup og leik.
Sjá nánar á: MAST og Amerísku hestadýralæknasamtökunum
Hestamennska bendir á facebooksíðu Helgu Gunnarsdóttur dýralæknis hrossa, en þar eru mjög góðar upplýsingar um heilsufar hrossa.
Athugasemd 2. júní 2020:
Upplýsingar um hófsperru hafa verið teknar af vef Matvælastofnunar og er því ekki hægt að fá þær upplýsingar sem þessi grein byggist á þar. Engar nýjar upplýsingar um vandamálið er þar að finna. Hestamennska fékk athugasemd frá dýralækni hrossasjúkdóma um að upplýsingarnar væru ekki nýjar þegar vitnað var í hana í þessari grein, en jafnframt að upplýsingarnar væru ekki rangar.
Upplýsingar frá Amerísku hestadýralæknasamtökunum til samanburðar
Þar sem upplýsingarnar eru ekki lengur á síðu Mast eru hér birtar upplýsingar af síðu Amerísku hestadýralæknasamtakanna svo hægt sé að bera þær saman og meta. Virðast upplýsingar yfirleitt samhljóða.:
Á vef Amerísku hestadýralæknasamtakanna er fjallað ítarlega um hófsperru, enda er hún mikið vandamál alls staðar. Þar kemur fram að einkenni hófsperru koma ekki eingöngu fram á hófum hrossa, heldur má sjá hana víðar í líkamanum. Sennilega er helsta orsök hófsperru hér á landi offita hrossa, þau hafa of mikið fóður á sama tíma og þau fá of litla hreyfingu. Í Bandaríkjunum og víðar leynist hættan einnig í því að hross komast í fóðurbæti.
En fleiri orsakir eru nefndar. Hvers kyns eiturefni sem myndast í líkama hestsins geta líka orsakað hófsperru, einnig veikindi með háum hita og meltingartruflanir, ekki síst slæm hrossasótt.
Ef fylgja losnar ekki eftir köstun hjá hryssum geta þær fengið hófsperru. Þá hefur högg á fætur og hófa valdið hófsperru og jafnvel þegar hross hafa legið í stíum með spæni sem inniheldur svarta hnotu.
Í áhættuhópi teljast þyngri hrossakyn, en einnig smærri hrossakyn, eins og Hjaltlandshesturinn og Íslenski hesturinn og of feit hross af öllum kynjum. Þá eru hross sem einu sinni hafa fengið hófsperru í mikilli hættu á að fá hana aftur. Í áhættu eru einnig hross sem hafa fengið efnaskiptasjúkdóminn sem kenndur er við Cushing, en hann lýsir sér m.a. í því að hrossin verða mjög loðin, jafnvel að sumri til.
Merki um hófsperru má sjá ef hross verða hölt, stirð eða eiga erfitt með gang. Ef hiti er í hófnum og púls finnst neðarlega í fætinum og greinilegur sársauki ef klipið er í hófinn. Þegar hestar standa með framfætur strekkta fram og afturfætur inn undir sig má segja sér að um hófsperru er að ræða.
Þá sjást merki um langvarandi hófsperru í hófnum, hvítu hringirnir verða meira áberandi og mar getur sést eins og eftir steina. Hófarnir geta orðið flatari og hófbotninn siginn. Í slæmum tilfellum aflagast hófurinn þannig að táin sveigist upp.
Einkenni sem ættu ekki að fara framhjá neinum eru mjög þykkur og harður makki á hestinum.
Bregðast þarf strax við
Amerísku hestadýralæknasamtökin benda á að því fyrr sem meðferð byrjar því meiri líkur eru á bata. Það fyrsta sem ber að gera er að hafa stjórn á fóðrun hestsins og alls ekki gefa fóðurbæti eða leyfa hrossinu óheftan aðgang að grasi. Best er að gefa hrossinu hey á meðan frekari meðferð er ákveðin. Hrossið þarf að hafa frjálsan aðgang að vatni og vera á mjúku undirlagi. Við meðferðina er nauðsynlegt að koma á samvinnu milli dýralæknis og járningamanns.
Sum hross ná góðum bata og lifa lengi eftir að hafa fengið hófsperru. En því miður þjást mörg af slæmum eftirköstum og skemmdum sem ekki er hægt að laga og því ekki annað hægt en að fella hrossin til þess að lina þjáningar þeirra.
Nái hrossið sér er alltaf hætta á að það verði aldrei samt og það var áður, hvort sem ástæðan er að hófbeinið hafi snúist eða að blóðflæðið sé ekki nægilega gott. Einnig hefur hrossið fengið efnaskiptasjúkdóm sem gengur ekki til baka. Því þarf hrossið alltaf að vera á sérstöku fóðri, góðu heyi, jafnvel olíu en forðast ætti að gefa því fóðurbæti. Góð og reglubundin hófhirða er mjög mikilvæg, jafnvel sjúkrajárning. Passa þarf upp á að gefa ormalyf og reyna að koma í veg fyrir hvers kyns veikindi. Mælt er með bíótíngjöf til þess að styrkja hófana. Einnig þarf að koma í veg fyrir að hrossið komist á óhefta beit á nýsprottið gras, sérstaklega þegar mestur sykur er í grösunum, frá seinni hluta morguns fram á kvöld. Passa þarf sérstaklega upp á hrossin á vorin og hvenær sem sprettan tekur við sér.
Allir þeir sem hafa þurft að glíma við hófsperru í hrossum vita hvað þessi sjúkdómur er erfiður við að eiga og líkurnar á að vel fari í raun fremur litlar ef ekki er tekið á málum alveg um leið og grunur um hann vaknar. Amerísku hestadýralæknasamtökin benda á að eigendur hrossa þurfa að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að reyna að koma í veg fyrir að þau fái hófsperru. Mikilvægt sé að geyma allan fóðurbæti á öruggum stað svo engin hætta sé á að hross komist í hann. Venja þurfi hross smám saman á grænu grösin. Þegar hross eru veik eða undir miklu álagi, svo ekki sé talað um séu þau of feit, er alltaf hætta á að þau geti fengið hófsperru. Því er mikilvægt að fylgjast vel með heilsu hrossa og hirða vel um hófana. Ef grunur er á hófsperru er nauðsynlegt að kalla til dýralækni strax.