Skæður veirusjúkdómur, EHV-1, herjar á hross í Evrópu

Mikilvægt að sýna varkárni til að koma í veg fyrir smit hér á landi

6146
Mikilvægt er að koma í veg fyrir að EHV-1 veiran berist til landsins. Hún veldur meðal annars fósturláti hjá hryssum. ©asdishar
Á sýningarsvæði í Valencia á Spáni hefur verið í gangi alþjóðleg keppni í hindrunarstökki frá því í lok janúar. Mikill fjöldi hrossa hefur komið á og farið af svæðinu á þessum tíma. Nú hefur því verið lokað vegna mikillar útbreiðslu skæðs veirusjúkdóms, EHV-1 (Equine Horse Virus) á svæðinu. Hross hafa veikst alvarlega, nokkur hafa drepist og yfir 80 hross sýna einkenni og eru í meðferð.
Í frétt á eurodressage.com frá 1. mars er greint frá því að FEI, alþjóðasamtök hestamanna, hafi gefið út yfirlýsingu um að vegna þess hve vírusinn er bráðsmitandi og staðfest smit hafi greinst í Frakklandi, Belgíu og Þýskalandi séu áhyggjur uppi um að veiran hafi dreifst þangað af svæðinu í Valencia áður en því var lokað. Talið er að þessi EHV-1 faraldur sé líklega einn sá alvarlegasti sem skollið hafi á Evrópu í nokkra áratugi.
Mörgum hestatengdum viðburðum hefur verið aflýst til 28. mars a.m.k. í mörgum Evrópulöndum. FEI hefur merkt við öll hross sem komið hafa á keppnina í Valencia á tímabilinu í gagnagrunni sínum til þess að koma í veg fyrir að þau keppi á öðrum mótum.
Sami veirusjúkdómur kom upp í Svíþjóð fyrir tveimur árum og gaf Matvælastofnun þá út viðvörun og hvatti til sóttvarna til að koma í veg fyrir að hann breiddist út hér á landi.

Hér er hægt að lesa fréttina um smitið í Svíþjóð frá 2019:

Skæður veirusjúkdómur, EHV-1, hefur að undanförnu breiðst út í hrossum í Svíþjóð. Veiran er oftast tengd fósturláti hjá hryssum, en það afbrigði sem nú herjar á hrossin hefur einnig áhrif á öndunarfæri auk þess sem hann veldur taugaskaða í afturparti hrossa og jafnvel lömun. Sjúkdómurinn smitast milli manna og dýra og einnig í lofti. Brýnt er að allir sem fara til útlanda og umgangast hesta og hestamenn hafi þetta í huga og beiti ítrustu varkárni og smitvörnum áður en heim er komið.

Talið er að flest hross beri með sér vírusinn EHV-1, en ekki er vitað til þess að hross hafi veikst af honum hér á landi. Samkvæmt frétt í sænska sjónvarpinu er óvenjulegra að afbrigðið sem hefur áhrif á heilann og veldur lömun herji á hross í Svíþjóð. Dæmi er um að loka hafi þurft og einangra reiðskóla, t.d. í Österåker og hesthús í Östhammar. Þetta var í janúar og voru ekki fréttir um ný tilfelli þar til upp kom tilfelli í hesti í hesthúsi í Värmdö 13. febrúar. Fleiri hestar voru með hita í hesthúsinu sem hefur verið sett í einangrun.

Á heimasíðu Sænsku dýralæknastofnunarinnar segir að hestaeigendur hafi almennt verið meira vakandi og haft betra eftirlit með hestum sínum eftir að veiran kom upp. Margir hafi takmarkað umgengni við annað hestafólk og hesthús. Auk þess sem margir hestaeigendur hafi sent sýni til stofnunarinnar til greiningar ef vart hefur orðið við hita eða kvef í hestum. Öllum hesthúsum þar sem hestar hafa greinst með veiruna er haldið í einangrun.

Bent er á að stunda almenna varkárni t.d. með því að láta hesta ekki snerta aðra hesta. Ef nýir hestar koma í hesthúsið að halda þeim í sér stíum, einangra hesta með sjúkdómseinkenni og ekki má gleyma góðum handþvotti.

Vegna útbreiðslu þessarar veiru hefur Matvælastofnun ítrekað mikilvægi þess að hestamenn og aðrir séu á varðbergi. Á vefsíðu MAST segir m.a. :

„Mikilvægt er að þessi sjúkdómur berist ekki til landsins. Eins og lýst er hér á eftir er sjúkdómurinn lúmskur og smitberar geta hæglega leynst í hesthúsum þó ekki sjáist veikindi á hrossunum.

Hestamenn verða sem aldrei fyrr að uppfylla ýtrustu kröfur um smitvarnir þegar farið er á milli landa hvort heldur sem er vegna atvinnu eða í frístundum og að gera sömu kröfur til viðskiptavina sinna og annarra gesta.

Með öllu er óheimilt að koma með til landsins notuð reiðtygi, s.s. hnakka, mél, höfuðleður, múla, hlífar, dýnur, yfirbreiðslur, píska o.s.frv., sem og notaða reiðhanska.

Notaðan reiðfatnað og annan fatnað sem notaður hefur verið í umhverfi hrossa erlendis, skal þvo í þvottavél eða þurrhreinsa í efnalaug áður en komið er til landsins.

Aðeins má flytja til landsins notaða hestaskó, -stígvél og hjálma sem hafa verið hreinsaðir og sótthreinsaðir með eftirfarandi hætti:

  1. Þvegnir vel með sápuvatni

2. Þurrkaðir

3. Sótthreinsaðir með 1% VirkonS® (10g í hvern lítra af vatni) eða öðru breiðvirku sótthreinsiefni

Að auki skulu líða a.m.k. 5 dagar frá sótthreinsun þar til en fatnaðurinn er notaður í umhverfi hesta hér á landi.

Hestamenn sem ekki eru í aðstöðu til að þrífa og sótthreinsa notaðan reiðfatnað áður en komið er til landsins geta afhent hann í „rauða hliðinu“ í tollinum í lokuðum plastpokum og fengið hann hreinsaðan og heimsendan gegn gjaldi.“

 

Nánar er hægt að lesa um sjúkdóminn hjá:

Sænska sjónvarpinu

Sænsku dýralæknastofnuninni

Matvælastofnun

Viðbót:

Frétt eurodressage.com um útbreiðslu EHV-1 í Evrópu frá 1. mars 2021

Fyrri greinHæfileiki íslenskra hrossa til að takast á við útigang og vetrarveður
Næsta greinJarðskjálftarnir virðast ekki hafa mikil áhrif á hross