Notagildi hestsins byggist að miklu leyti á fótunum, segir Ingimar Sveinsson í bók sinni Hrossafræði Ingimars. Hann ítrekar að rétt og reglubundin hófhirða og járning sé lykilatriði til þess að halda fótum og hófum hestsins heilbrigðum og þannig stuðla að endingu hestsins.
Gunnar Halldórsson járningarmaður á Arnbjörgum á Mýrum, þrefaldur Íslandsmeistari í járningum, tekur í sama streng. Hestamennska leitaði til hans til að fá upplýsingar um mikilvægi hófhirðu og góðrar járningar. Spurningar sem vakna eru t.d. hvað þarf að járna hest oft?
„Það fer eftir hófvexti hjá hestinum,“ sagði Gunnar. „Algengast er að járna þurfi hest á 8 vikna fresti, en það getur farið niður í 6 vikur og allt upp í 10 vikur. En alls ekki ætti að láta það dragast lengur en það.“
Þegar Gunnar var spurður hvenær ætti að huga að því að járna hross á flatar skeifur sagði hann að hann væri þegar farinn að járna á flatt. Hann segir að ágætt sé að miða við nagladekkinn. Eftir 15. apríl ætti að vera óhætt að járna á flatar skeifur. „Það er engin ástæða til þess að vera á sköflum fram í júní,“ sagði hann. „Hestar geta þá farið að skaða sjálfa sig og aðra með sköflunum.“
En hvað getur hestafólk gert til þess að fylgjast með ástandi járningar og fóta hestanna sinna? „Aðalatriðið er að sjá til þess að þeir séu vel járnaðir. Einnig er mikilvægt að passa upp á að hófarnir þorni ekki. Hófarnir virka sem dempun fyrir hestinn og ef hófarnir verða harðir minnkar hún. Margir eru með allt of þurrar stíur. Það er ekki hollt fyrir hestinn, þótt hann verði hreinn og fínn. Hófarnir þorna þá og þá hætta þeir að virka sem þessi náttúrulega dempun. Þá er gott að fylgjast með því og bera olíu eða feiti í hófana tvisvar, þrisvar í viku.“
Ekki telur Gunnar að það beri mikinn árangur að bleyta hófana með vatni. „Það er svipað og að stökkva vatni á gæs,“ sagði hann. „Hins vegar er gott að það sé raki í kringum hófinn. Hófveggurinn dregur heldur ekkert mikið inn í sig og best er að bera olíu eða feiti í hófbotninn, hóftunguraufina í kringum hóftunguna og þófana, allan mýkri vef. Hófveggurinn hrindir frekar frá sér raka.“
Til þess að fylgjast með hvernig skeifurnar fara undir verður að skoða hófana á hestinum reglulega og nokkuð oft. Ef skeifa er farin að losna er ekki gott að hnykkja hóffjaðrirnar. Þá er í raun verið að víkka götin í kringum fjaðrirnar og losa um þær. „Best er að járna hestinn upp ef farið er að losna undir honum. Ég set yfirleitt ekki fjaðrir í hælgötin af því að ég vil ekki stoppa festuna í hófnum því að hann þarf að fá að virka sem höggpúði. Þá getur fólk bjargað sér í vandræðum með því að setja hóffjaðrir í þau þangað til það fær járningu. Ég mæli ekki með því að hafa þetta lengi þannig.“
Gunnar segir að það sé góð regla að strjúka niður fótinn á hestinum til þess að athuga sinarnar, hvort hesturinn sé með múkk og síðast en ekki síst hvernig skeifurnar fara á hestinum, t.d. að hófurinn sé ekki kominn út fyrir skeifuna. Ef hælarnir eru komnir út fyrir er hætta á að hófveggurinn skemmist fljótt. Hestar stíga líka stundum á skeifurnar og beygja þær. Það sé því mikilvægt að venja sig á að taka upp fótinn, jafnvel bera á hófbotninn og athuga að allt fari vel nokkrum sinnum í viku. Ekki bara bíða eftir því að járningarmaðurinn geri það.
Góð járning skiptir mjög miklu máli fyrir alla reiðhesta. Auk þess getur járningarmaður lagfært ýmsa galla með ýmsum ráðum. Svo dæmi sé tekið segir Gunnar að sjálfsagt sé að járna hesta sem eru með grunna hófa á botna. „Ef hestar eru gjarnir á að merjast í hófbotninn þá er það vörn fyrir þá að vera á léttum botnum með silikon fyllingu eða á leðurbotnum. Eins á það við um hesta sem þurfa hjálp við að ná jafnvægi á gangtegundum. Efnin eru orðin mjög góð og því ætti þau ekki að skaða hestinn. Kannski er ekki gott að hross séu alltaf á botnum. Það þarf bara að fylgjast með ástandi hófanna.“
Gunnar segir að fólki finnist hann stundum járna á stórar skeifur og spyr hvort þetta henti ef það er að fara í hestaferð eða leitir. „Ef þú ert að fara í hestaferð eða leitir þá á að járna stutt og þröngt,“ segir hann. „Hina ellefu mánuðina á árinu lætur þú járna eðlilega. Það er sjálfsagt að járna miðað við þau verkefni sem hesturinn á að takast á við. Ef hestur er að fara á fjall járna ég þröngt og stutt og set átta fjaðrir í hverja skeifu því ekki viljum við missa skeifu undan við slíkar aðstæður. Við köllum það smalajárningu þegar skeifan er látin fylgja hófnum alveg. Það er þekkt alls staðar.“
Mikilvægast af öllu, segir Gunnar, sé að fá fagmann til að járna. Hann tekur það þó fram að hann sé ekki að auglýsa sig því það sé nóg að gera. „Góð og rétt járning skiptir sköpum fyrir hestinn og ætti fólk ekki að spara sér þann pening. Járningin hefur bein áhrif á heilbrigði hestsins og hvernig hann endist sem reiðhestur og ég hef séð afleiðingar af því að hestur sé ekki rétt járnaður. Járningarmaður, fagmaður, veit nákvæmlega hvernig hófurinn er upp byggður. Hann getur metið fótstöðu, hvort einhverjar skekkjur séu í fætinum og hvort hófveggurinn sé þunnur eða þykkur. Þannig getur hann séð það sem betur má fara á augabragði og brugðist við því samkvæmt reynslu og þekkingu.
Fólk er í auknum mæli farið að átta sig á að þó það geti riðið út geti það ekki endilega járnað sjálft. Þetta er tvennt ólíkt. Ég mæli með því að þeir sem hafa áhuga á að leggja járningar fyrir sig fái að fylgja reyndum járningarmanni til þess að fylgjast með og læra, vera nemi í ákveðinn tíma til að öðlast reynslu,“ sagði Gunnar.