Hestar eru oft með sérstök útlitseinkenni sem við tökum kannski ekki alltaf eftir. Einstaka hestur er með áberandi sveipi framan á brjóstinu og í gamla daga þóttu hestar með sveipi sérstakir og myndaðist ákveðin þjóðtrú um þá.
Jónas Jónasson skrifar í bók sinni Íslenskir þjóðhættir:
„Almenn trú var það, að ef hestar höfðu marga sveipi í hári um háls og brjóst (vatnasveipi), væru þeir góðir vatnahestar; hársveipur sá, sem liggur upp af brjósti hestsins og upp á hálsinn, heitir straumfjöður, og er hesturinn því betri vatnahestur, sem hún er lengri; ef hársveipir standast á beggja megin á hálsinum, heita þeir Pétursstingir, og á enginn maður að geta drukknað af þeim hestum, þá hafa.
Þessi þjóðtrú hefur verið almenn en haft er eftir Tryggva Emilssyni (f. 1902) í Þjóðháttasafni Þjóðminjasafns Íslands að Pétursstingur á hálsi á hesti hafi verið lánsmerki og hestur með sting í gegnum hálsinn eða sveipinn beggja vegna var góður vatnahestur, af honum mundi enginn drukkna.
Í gömlum bókum þar sem fjallað var um hesta þótti því sjálfsagt að segja frá þessum einkennum. Theodór Arnbjörnsson talar um sveipi í hrossum í bók sinni Hestar:
„Sveipar í hári teljast til auðkenna áhestum, og höfðu sumir þeirra ákveðin nöfn og ákveðna merkingu, eftir því, hvar þeir voru á hestinum, en fátt þekki ég af þessum nöfnum. Set hér sýnishorn.
- Flugfjaðrir kallast sveipar, sem eru í röð meðfram faxinu. Var lengi trú á því, að þeir hestar væru öðrum þolnari, sem hefðu 3 flugfjaðrir á hvorri hlið.
- Pétursstingir kallast sveipar í „æðarrennunum„ – á hálsinum – ef þeir standast á á hægri og vinstri hlið. Var mikið gæfumerki að eiga fararskjóta með þrem Pétursstingum, því þeir voru fingraför sankti Péturs, en öllum var holl snerting hans.
- Straumfjaðrir kallast sveipar á brjósti, og var þeim hestum, er báru þær treyst öðrum betur í vatni.
Fleiri sveipa hafa Íslendingar þýtt á ákveðinn hátt, svo sem sveip í augnabrún framanverðri, sem skyldi sýna, að hesturinn væri fjörugur, líklega af því að hann hýrgar svipinn, en ekki kann ég nöfn á þeim fleirum.“
Svo virðist sem fólk hafi tekið betur eftir þessum einkennum á hestum sínum áður fyrr. En væri ekki skemmtilegt að fara og skoða hestinn sinn og athuga hvort hann er með straumfjaðrir eða Pétursstingi og vera þá, ef einhverjir sveipir finnast, kannski aðeins öruggari næst þegar riðið er yfir ár og vötn?
Heimildir:
Jónas Jónasson, Íslenskir þjóðhættir, þriðja útgáfa 1961 (bls. 151)
Theodór Arnbjörnsson, Hestar, 1931 (bls. 132)
Þjóðháttasafn (http://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=540935)