Knapi í andlegu og líkamlegu jafnvægi hefur góð áhrif á hestinn

Bergrún Ingólfsdóttir reiðkennari og einkaþjálfari leggur áherslu á hreysti og góða líkamsbeitingu knapa.

5998
Líkamsbeiting
Bergrún á hestinum Þórbirni frá Tvennu. Mynd frá Bergrúnu.

Hvað hefur gott líkamlegt ástand að segja fyrir knapa og hest? Bergrún Ingólfsdóttir reiðkennari og einkaþjálfari segir að gott líkamlegt ástand knapa sé fyrst og fremst að vera í góðu jafnvægi líkamlega og andlega og vera hraustur og meðvitaður. Það hafi mikil áhrif á hestinn, getu hans, heilbrigði og jafnvægi.

Bergrún heldur fyrirlestur og námskeið á vegum Fræðslunefndar Hestamannafélagsins Skagfirðings nú um helgina þar sem hún mun fjalla um líkamlegt ástand knapa auk þess sem hún býður upp á reiðnámskeið, einkakennslu, þar sem áhersla er lögð á knapann, hvernig hann beitir sér og hefur áhrif á hestinn. Einnig fá þátttakendur almennar ráðleggingar til að bæta sig og hestinn og aðstoð við að greina styrkleika sína og veikleika.

Þetta er annar veturinn sem Bergrún kennir knapaþjálfun við Háskólann á Hólum. Hún segist alltaf hafa haft áhuga á íþróttaiðkun og tók til dæmis stúdentspróf af íþróttabraut og félagsfræðibraut frá Fjölbrautaskólanum Suðurlands á Selfossi.

Fann mun á hestunum eftir að haf byrjað í einkaþjálfun

„Ég hef alltaf haft áhuga á líkamsbeitingu knapa og gaman að horfa á fallega ásetu og samspil knapa og hests. En áhuginn á áhrifum líkamsbeitingar knapa kviknaði þegar ég datt af hestbaki og slasaðist. Í batanum fór ég sjálf til einkaþjálfara og þá fór ég að finna mun á hestunum hjá mér. Ákveðin atriði sem höfðu verið vandamál, til dæmis að hesturinn var stífur öðrum meginn eða með misstyrk, löguðust allt í einu. Þá fór ég að hugsa um að vandamálið lægi ef til vill ekki hjá hestinum heldur mér sjálfri. Það væri kannski einhver misstyrkur hjá mér sem væri því valdandi að hesturinn svaraði mér svona.“

Bergrún segir að þegar hún fór að gera sér grein fyrir þessum atriðum og vera meðvituð um líkamlegar takmarkanir hjá sér þá lærði hún að beita sér þannig að hún hefði minni áhrif  á hestinn. „Ég er réttfætt og hægri fóturinn er sterkari. Þegar ég fór að gera æfingar hjá einkaþjálfaranum varð ég jafnari og þá bötnuðu allar fótaábendingar og vinstri fóturinn fór að geta unnið til jafns við þann hægri.“

Bergrún kenndi töluvert eftir að hún lauk reiðkennaranáminu og áður en hún bætti við sig námi í einkaþjálfun. „Ég spurði oft nemendur mína að því upp á hvora höndina þeim fannst betra að ríða. Í ljós kom að þeim fannst betra að ríða upp á aðra höndina frekar en hina og auðvitað gerum við meira af því sem er þægilegra fyrir okkur líkamlega því okkur finnst það auðveldara. En þetta er hægt að leiðrétta með því að vera meðvitaður um vandann. Um leið og ég hugsa meðvitað um að ég hafi tilhneygingu til þess að ríða meira upp á hægri hönd frekar en vinstri þá fyrst get ég brugðist við því. En ég geri það ekki ef ég átta mig ekki á því.

Þegar kemur að sterkum einkennum hjá knöpum þarf að huga að mörgu. Ég er einkaþjálfari en hvorki læknir né sjúkraþjálfari. En ég sé þegar knapi er skakkur, hokinn eða fattur eða ef  önnur öxlin hærri en hin. Þá bendi ég viðkomandi á það og ég get hjálpað honum út frá vöðvafræðinni. En það kemur fyrir að ég hef verið með nemendur sem eru með vandamál sem eru fyrir utan mitt svið. Þá ráðlegg ég fólki að leita til sjúkraþjálfara og síðan get ég hjálpað þegar búið er að greina vandann.“

Heilt yfir telur Bergrún að hestamenn hafi áhuga á að bæta líkamlegt ástand sitt. Þetta virðist vera farið að skipta máli í auknum mæli. „Við reynum að bæta þjálfun hestanna með endingu þeirra í huga og mér finnst þetta miða að því að bæta endingu okkar knapanna líka. Mér finnst áhuginn þó aðeins fara eftir aldri knapa. Þeir sem hafa riðið út í mörg ár eru kannski ekki eins opnir fyrir því. En það er alls ekki síður og alveg jafn mikilvægt fyrir hinn almenna hestamann, útreiðarfólkið, að bæta líkamlegt ástand sitt.

Ég kenni þó nokkuð í útlöndum og þar er algengt að fólk eigi bara einn hest og ríði því alltaf sama hestinum. Ef það er einhver skekkja í líkama knapans eða hann beitir sér ekki rétt og ríður sama hestinum ár eftir ár er viðbúið að það fari smám saman að hafa áhrif á hestinn og getur jafnvel leitt til stærri vandamála. Það er því mikilvægt fyrir alla sem starfa við hross og þá sem vilja ríða sér til ánægju að hafa þetta í huga.

Reynir að ýta undir heilbrigðari lífstíl

Ég legg áherslu á að fólk sé fyrst og fremst hraust og meðvitað um hvernig það beitir sér og hvernig það getur bætt líkamsbeitingu sína. Ég er alls ekki að tala um að steypa alla í sama form. Ég reyni þó að ýta undir heilbrigðari lífstíl. Það skiptir ekki öllu að vera þungur eða léttur, heldur að vera í góðu formi.  Auðvitað getur skipti máli að þyngd knapa hefur áhrif á hreyfingar hestsins. En knapi í góðu formi á auðveldara með að fylgja hreyfingum hestsins en sá sem er í ofþyngd.“

Bergrún sagði að Fræðslunefnd Skagfirðings hefði haft samband við sig um að halda námskeið og hún hafi áhuga á að opna á þessa þörfu umræðu. „Ég er líka ánægð með að það sé farið að huga meira að hinum íþróttamannlega þætti. Hestamennska hefur oft haft frekar neikvæðan lífsstílsstimpil á sér. Mér finnst gott að vekja athygli á því að við séum líka með flott íþróttafólk innan okkar raða sem hugar ekki bara að hestinum heldur einnig að sínu eigin líkamlegu formi.

Ég er sjálf alltaf að læra, vinna í mér og bæta mig og mér finnst gott ef ég get komið þessu einnig á framfæri við aðra. Maður verður aldrei fullnuma og víst er að alltaf kemur eitthvað upp á sem maður þarf að vera meðvitaður um til þess að geta bætt sig og hestinn.“

 

Áhugaverð grein um sama efni

Meistararitgerð Vilfríðar Fannberg Sæþórsdóttur um íslenska knapa

 

Fyrri greinSveittir lófar, ör hjartsláttur og maginn í hnút
Næsta greinFullorðnir, reyndir og vel tamdir hestar henta byrjendum