Kjarkleysi er kvöl. Það veit það hestafólk sem upplifað hefur að missa kjarkinn. Fólk sem hefur ástríðu fyrir hestum og hestamennsku upplifir jafnvel áfall þegar það missir skyndilega, eða smám saman, kjarkinn. Tilhugsunin um að fara á bak er allt í einu orðin taugatrekkjandi og veldur kvíða, þrátt fyrir löngun til þess að fara á hestbak. Fólk finnur fyrir líkamlegri vanlíðan og jafnvel djúpri sorg en finnur sér allt til afsökunar til að sleppa við að fara á hestbak. Vandamálið er algengara en virðist við fyrstu sýn, enda er það vel falið og hafa fáir stigið fram og viðurkennt að þeir séu búnir að missa kjarkinn og kvíði því að fara á hestbak.
Eftir að hafa umgengist hesta frá blautu barnsbeini og riðið út frá fimm ára aldri hélt sú sem þetta ritar að það gæti ekki gerst að hún missti kjarkinn eftir að hafa eignast barn. Þá hafði ég reyndar riðið út í 30 ár og hafði sannast sagna átt bágt með að trúa konum sem sögðu frá sömu reynslu áður. Ég reið ekki út á meðgöngunni en umgekkst hesta eins og venjulega og fann engan mun. En þegar ég ætlaði að fara að klöngrast á bak eftir að barnið var fætt þyrmdi yfir mig, enda var reiðskjótinn 5 vetra gamall nýtaminn hestur. Kaldur sviti spratt út og hjartað sló örar og ekki var ég mikill stuðningur fyrir hestinn unga sem auðvitað vantaði leiðtoga. Ég var sannfærð um að ég mundi detta af baki og deyja og skilja barnið eftir móðurlaust. Það sem áður hafði verið hrein ánægja var örðið kvöl og pína. Mig dreymdi um hesta bæði dag og nótt og í draumunum var gamli kjarkurinn alltaf til staðar. Þrátt fyrir að vilja taka mig á og bæta ástandið tók það langan tíma. Kjarkurinn kom þó smám saman og hesturinn ungi varð minn traustasti reiðhestur næstu 20 árin.
Á þeim 27 árum sem liðin eru frá þessu fyrsta kjarkleysi mínu og hefur kjarkurinn verið mismikill. Ég hef nokkrum sinnum síðan misst kjarkinn af ýmsum ástæðum, en oftast hefur það komið eftir að hafa farið sjaldnar á bak, t.d. eftir veikindi, að hafa fengið nýjan hest og við hrein kynslóðaskipti í hestahópnum svo dæmi séu nefnd.
En þótt vitað sé að margt geti valdið kjarkleysi er ljóst að barneignir eru ein algengasta orsökin. Í það minnsta sú sem þó eitthvað er rætt um jafnvel þótt vandamálið sé vel falið meðal hestafólks.
Þegar Svandís Elísa Margrét Sveinsdóttir setti eftirfarandi færslu um kjarkleysi og kvíða í hestamennsku inn á Facebooksíðuna Hestasamfélagið skapaðist góð umræða og fékk færslan yfir 50 ummæli. Það segir eitthvað og athygli vekur að allir sem svöruðu voru konur. En svona var færsla Svandísar:
„Að missa kjarkinn eftir barneignir, 8 ár í ströggl við að ná honum upp aftur. Hræðslan mest utan gerðis. Með hest sem kom fyrri eiganda í gegnum hræðsluna en núverandi eigandi svitnar í lófana og fær hnút í magann við það eitt að hugsa um reiðtúr og finnur allar afsakanir í heiminum til að sleppa við að fara á bak. En ég elska allt sem tengist hestum og þrái að njóta þess að fara í reiðtúr. Hvað get ég gert? Hef farið á „hræðslupúkanámskeið“ en þau hafa öll verið inni í höll eða í gerði.“
Króaði mömmu sína af og heimtaði hest
Svandís féllst á að koma í viðtal við Hestamennsku til að ræða um vandamálið. Hún er ein þeirra sem kemur ekki úr hestafjölskyldu heldur kom hún fjölskyldu sinni á óvart með því að laðast mikið að hestum í barnæsku. Hún byrjaði að fara með bekkjarsystrum sínum upp í hesthús og svo á hestbak þegar hún var 12-13 ára.
Vinkona fjölskyldunnar, kona sem hafði passað Svandísi og systkini hennar, vissi af áhuga hennar og stakk upp á að hún fengi hest í fermingargjöf. „Mamma vildi ekki ræða þetta,“ sagði Svandís. „Hún hélt að þessi áhugi mundi duga í einn vetur og svo væri þetta búið. En við héldum báðar áfram að nöldra í mömmu. Ég man þegar hún gafst upp. Við vorum að koma úr bíó og ég króaði mömmu af í strætóskýli og suðaði þangað til að hún sagði já. Ég eignaðist hana Freyju mína 2. apríl 1995, daginn sem ég fermdist. Hún var óséð, ótamin og þriggja vetra. Þá var ekki aftur snúið. Hún var tekin á hús veturinn eftir og reyndist algjörlega sjálftamin og mjög traust. Við vinkonurnar gátum gert alls konar fimleikaæfingar á henni úti í gerði og snerum öfugt og gerðum ýmsar kúnstir.“
Svandís segist hafa verið alveg óhrædd, en hún hafi þó aldrei verið þannig að hún fari á hvaða hest sem er. Ef hestar eru eitthvað stressaðir fer hún ekki á þá og segist ekki vera neinn spennufíkill. En fjórum árum eftir að hún eignaðist Freyju keypti hún tveggja vetra hest, Náttfara, af manni sem hún leigði hesthúspláss hjá. „Ég keypti hestinn í algjöru rugli, en þennan hest átti ég í 18 ár. Ég tamdi hann sjálf, eða það má segja að hann hafi líka verið sjálftaminn. Ég var mjög heppin með þessi hross. Náttfari var í miklu uppáhaldi hjá mér.“
Á tímabili reið Svandís alls konar hestum og var alls ekki hrædd. Hún datt líka margoft af baki. „Meira að segja datt ég einu sinni illa á mjöðmina og gat ekkert riðið út veturinn á eftir. En svo byrjaði ég þarn æsta vetur og það var allt í lagi,“ sagði Svandís. Hún sótti námskeið til að bæta kunnáttuna og fór í hestaferð og allt gekk vel. Á tímabili átti hún 5 hross og var á kafi í hestamennskunni. „Ég prófaði að keppa líka á hinum og þessum hestum. Það gekk reyndar ekki vel en var mjög gaman. Öll hrossin sem ég átti voru mjög þæg og góð og ganggóð. Ég lenti aldrei í neinum hrekkjum, rokum eða slíku. Náttfari var sérstaklega góður vinur minn og ég á alltaf eftir að bera alla hesta saman við hann. Allir gátu riðið honum og það var eins og að skipta um gír þegar maður vildi skipta um gangtegund, ekkert mál. Það var mikil eftirsjá þegar hann féll fyrir rúmu ári síðan.“
Svo fæddust börnin
„Svo þurftu þessi blessuð börn að fæðast,“ segir Svandís og glottir. „Þegar ég gekk með eldra barnið sem er drengur og er nú 9 ára var ég mjög veik, enda var svo sem aldrei planið að ríða út á meðgöngunni. Ég tók inn hesta veturinn eftir. Ég hafði tekið tvo hesta inn sama dag og ég komst að því að ég var orðin ófrísk aftur. Ég var búin að finna norska stelpu sem ætlaði að taka fyrir mig unga Glampadóttur sem ég átti og temja hana. Ég bað hana því að taka Náttfara fyrir mig líka. Þau voru svo sett út um vorið. Ég fór alltaf upp í hesthús þegar ég gat til að anda að mér lyktinni. Dóttir mín fæddist í júlí og ég tók svo inn í janúar árið eftir. Þá ætlaði ég að reyna að fara á bak. Náttfari var farinn að fá í fæturna en ekkert fannst að honum. Eftir það var hann úti í tvö ár. Í fyrra tók ég hann inn og var að vona að hann væri orðinn góður, en þá kom í ljós að hann var spattaður og þá var ákveðið að láta hann fara.
Ég var búin að gefa Freyju. Ég var eiginlega vaxin upp úr henni og það var níu ára stelpa sem fékk hana. Svo seldi ég Glampadótturina sem er nú ræktunarmeri í Hornafirðinum. Ég var því aðallega á lánshestum á þessu tímabili en áður en Náttfari fór hafði ég keypt meri sem átti að vera voða góð. Hún var lítið tamin og mér fannst ég nokkuð örugg á henni. Ég kaupi hana að vori til og veturinn eftir kemur hún ekki inn fyrr en í maí, grindhoruð. Það fór því svo að ég fór ekki á bak henni það vorið. Hún fór svo í haga á Suðurlandi þar sem hún jafnaði sig mjög vel. Ég tók hana inn í fyrra og hún fór í þjálfun í mánuð og ég skynjaði fljótt að hún var ekki hross fyrir mig. Hún var ágeng og ég treysti henni ekki í kringum krakkana. Ég auglýsti hana til sölu og nú er komið ár síðan að ég fékk hest í skiptum, voðalega góðan hest sem hafði komið fyrri eiganda sínum í gegnum hræðslutímabil.“
Þetta dugði þó ekki til fyrir Svandísi og hún fann að hún var virkilega hrædd. Hún leigir hjá vinkonu sinni sem rekur hestaleigu og hefur verið að reyna að vera með á námskeiðum hjá henni.
„Ég er ekki hrædd við að umgangast hesta og ég er ekki hrædd við að fara á bak inni í gerði. En ef það er beinn og breiður vegur framundan þá missi ég allan kjark. Ég veit að ég er með rétta hestinn í höndunum og stefni að því að taka hann inn í janúar næstkomandi. Ég þarf bara að komast í einkatíma. Ég hef farið á námskeið fyrir hræddar konur, rosalega gott námskeið, en það var allt inni í reiðhöll og ég er ekkert hrædd þar.“
Hrædd við rokur, en hefur aldrei upplifað þær
En við hvað er Svandís hrædd? „Ég er hrædd um að ef ég fer út úr gerðinu þá rjúki hesturinn. Ég er hrædd við rokur, en ég hef aldrei lent í því að hestur rjúki með mig. Ég er í nýja hverfinu í Sörla og í staðinn fyrir að gera ekki neitt fór ég í fetreiðtúr um hverfið. Ég huggaði mig við að ef hesturinn mundi rjúka þar gæti ég stoppað hann á næsta húsi. Ég var orðin smeik á Náttfara mínum sem aldrei hafði gert neitt í öll þessi ár. Ég var hrædd við að ef einhver kæmi aftan að mér og honum mundi bregða og hann mundi rjúka. Hann hafði samt aldrei rokið. Þetta er bara einhver hugsun sem er föst í hausnum á mér. Mér fyndist ég öruggari ef ég færi bara í fetreiðtúr og vissi að ég væri bara ein á öllu svæðinu. Ég veit samt alveg hvernig ég á að bregðast við ef hestur rýkur. Ég kann þetta alveg, en samt.“
En finnst Svandísi ekki betra að ríða út með öðrum? „Nei. Mér finnst það eiginlega verra“, segir hún. „Til dæmis fór ég á námskeið hjá vinkonu minni og var aðeins að hjálpa henni. Það gekk mjög vel svona inni í reiðhöll og í gerði. Svo komst ég ekki í eitt skipti og hún sendi mér skilaboð og spurði hvort ég ætli ekki að koma. Nú ætti að fara í smá reiðtúr. Það bara frussaðist svitinn úr lófunum á mér og maginn í mér fór í hnút. Ég vissi þó að það yrði farið mjög rólega í einfaldri röð. Ég átti samt að vera á rólegasta hestinum í húsinu sem kippir sér ekki upp við neitt, jafnvel þótt flugvél mundi lenda við hliðina á honum. Ég svitna bara við að tala um þetta.“
Svandís finnur fyrir miklum söknuði og jafnvel sorg þegar hún hugsar um þetta kjarkleysi og löngun til að yfirvinna hræðsluna. Hún fór og horfði á Íslandsmótið í sumar og við að sjá alla þessa fallegu hesta langaði hana átakanlega mikið á bak. Hún hugsar oft um margar góðar stundir sem hún hefur átt í hestamennskunni sem eykur enn á löngunina. Börnin hennar tvö eru búin að fara á námskeið og sýna hestamennskunni mikinn áhuga. Svandís vill alls ekki að hennar hræðsla smitist yfir á þau. Hennar draumur er að geta farið í reiðtúr með þeim. Eins og staðan er núna mundi hún ekki geta það.
„Ég veit innst inni að ég hef enga ástæðu til að vera hrædd. Ég er með traustan hest og það hefur ekkert komið fyrir. Ég er mjög vonsvikin með sjálfa mig af því að mér finnst ég vera hrædd án þess að hafa ástæðu til þess. Mér finnst þetta hálfgerður aumingjaskapur í mér.“
Þú þarft að vera í kvíðanum til að hann minnki
Sigrún Erlingsdóttir sálfræðingur og hestakona í Danmörku telur að kjarkleysi í hestamennsku sé vel falið leyndarmál. Hún hefur sjálf lent í því að missa kjarkinn eftir barnsburð, þrátt fyrir að hafa byrjað í sinni hestamennsku barnung. Fólk á erfitt með að viðurkenna eða leita sér hjálpar við þessu. Sigrún Sigurðardóttir, reiðkennari, móðir hennar hefur haldið námskeið fyrir hrætt fólk, aðallega konur, í mörg ár og gerir enn. Einnig hafa þær mæðgur haldið námskeið saman.
Sigrún segir að í dæmi Svandísar sé nauðsynlegt að hún fái hjálp við að yfirvinna kvíðann. „Það er eins með kvíða sem tengist hestamennsku og/eða útreiðum og kvíða almennt að fólk þarf að vera í kvíðanum til þess að hann minnki. Hægt er að skipta kvíða eða hræðslu í tvo flokka. Hræðsla getur verið eðlilegt viðbragð við aðstæðum þar sem fólk á að vera hrætt. Ef þú heyrir ískra í bremsum einhvers staðar nálægt þér áttu að vera hrædd. Þú átt að bregðast við og taka til fótanna til þess að koma þér undan. Við þekkjum öll þetta viðbragð.
Annað er að vera með kvíða, t.d. eftir fæðingu, eins og ég lenti í þrátt fyrir að vera búin að vera í hestamennsku frá því að ég var krakki. Allt í einu þorði ég ekki að ríða neinu hrossi nema hestinum sem ég fékk í fermingargjöf. Ég var meira að segja í hálfgerðri atvinnumennsku í hestamennsku. Það var ekki fyrr en maðurinn minn fór að gera athugasemdir við þetta og spurði hvort ég væri eitthvað rugluð að fara bara á eitt hross að ég fór að velta þessu fyrir mér og í raun og veru að gera mér grein fyrir því að ég væri kvíðin. Ég fór því að byrja að þróa aðferðir til þess að takast á við vandamálið, allt byggt á minni reynslu og menntun í sálfræði. Ég og mamma notuðum síðan þessa aðferð í námskeiði sem við héldum fyrir nokkrum árum.“
Gott er að setja sér markmið og taka eitt skref í einu
Sigrún segir að maður þurfi fyrst að leggja það niður fyrir sér að hverju maður ætlar að stefna. Ætlar þú að stefna að því að geta aftur keppt á hestum? Eða ætlar þú að miða við að geta aftur riðið út með fjölskyldunni? „Þú þarf hægt og rólega að gera áætlun um hvaða markmiði þú ætlar að ná. Best er að byrja á því að ríða inni í gerði og gefa sér góðan og langan tíma í að öðlast kjark við að gera það. Hræðslan minnkar við þetta, svo framarlega sem þú ert á hesti sem hægt er að treysta, enda eru það einu hestarnir sem nota ætti við þetta verkefni.
Svo gerir maður áætlun um næsta skref. Hvað ætlar þú að gera næst? Kannski ríða út með maka eða vini á gamla Blesa? Það gerir maður í rólegheitunum þrátt fyrir að maður sé hræddur. Þú ert þá inni í kvíðanum eins og ég nefndi áðan. Síðan tekur þú eitt skref í einu í rólegheitunum og mikilvægt er að fara ekki fram úr sér.“
En hvað veldur kvíðanum? „Það getur verið svo margt og mjög persónubundið. Sumir, þá aðallega konur væntanlega, verða hræddar eftir að eiga barn og upplifa hræðslu við að eitthvað komi fyrir og að barnið verði jafnvel móðurlaust. Öðrum veldur kvíða að missa trausta gamla reiðhestinn sinn og þurfa að takast á við að kynnast nýju hrossi svo dæmi séu nefnd.“
Talaðu í þig kjark, ekki tala hann úr þér
Sigrún segir að besta ráðið til að takast t.d. á við að kvíða því að kynnast nýju hrossi sé að fara á bak mörgum ókunnugum hrossum. „Til eru margar aðferðir til þess að breyta þankaganginum hjá manni. Spurðu þig hvað þú ert búin að ríða út í mörg ár og hvað hefur þú oft dottið af baki og meitt þig illa? Nauðsynlegt er að takast á við þennan þankagang sem maður er búinn að koma sér upp. Þú ættir að hugsa þegar þú ert að stíga á bak. Hvenær datt ég síðast af baki? Svarið er kannski: Ég man það ekki það er svo langt síðan. Meiddi ég mig? Svarið: Nei, alla vega ekki mikið. Svo má halda áfram að tala við sjálfa sig og segja t.d.: Ég er með rosalega góða reynslu í hestamennsku. Ég kann að bregðast við ef hestur hleypur útundan sér, ef hann fer á stökk, ég kann að láta hann tölta og ég kann að stöðva hann. Ég kann þetta allt. Þetta hef ég allt prófað mörg hundruð sinnum.
Þetta á við lang flesta þó auðvitað séu þeir sem missa kjarkinn við að detta af baki og meiða sig. En við erum alltaf í framtíðinni. Ef hesturinn þinn hefur hnotið með þig þá býr sá kvíðni alltaf til framtíðarmynd um að hann geti hnotið aftur. En líkindin eru ekki svo mikil.
Þú mátt ekki tala úr sér kjarkinn og ekki leyfa öðrum að gera það heldur. Þá missir þú sjálfstraustið. Þú mátt ekki fara í kringum vandamálið heldur þarf maður að takast á við það, að vera í aðstæðunum sem valda manni kvíða, fara að engu óðslega og vinna sig út úr kvíðanum stig af stig. Ekki bíða, heldur byrjaðu strax. Maður verður að vinna úr vandamálinu sjálfur og þarf að manna sig upp. Ef þú þorir ekki á einhvern hest leysir þú ekki vandamálið án þess að fara á hestinn.
Sigrún finnur aðeins fyrir kjarkleysi enn ef hún prófar ný hross eða fer á bak tryppunum sínum, en annars ekki. „Ef þú ert á hestbaki og ert hræddur ertu kjarkaður. Þetta sagði pabbi minn heitinn, Erlingur Jónsson. En ef þú ferð ekki á bak, þá ertu kjarkaus. Það þarf engan kjark til að fara á bak ef þú ert ekki hræddur,“ sagði Sigrún að lokum.
Bætt við greinina 17. október, 2019
Svandís er farin að ríða út. Hún hefur farið 7 sinnum á hestbak síðan greinin birtist 6. október sl. Hún ákvað að ef hún tækist ekki á við kvíðann væri þetta búið. Orð Sigrúnar Erlingsdóttur sálfræðings um að við þyrftum að vera í aðstæðunum og takast á við kvíðann höfðu mikið að segja. Til hamingju Svandís!
Meira um kvíða í hestamennsku:
Umræða Svandísar á Hestasamfélagið
Grein í Morgunblaðinu um kjarkleysi
Grein eftir Sigrúnu Erlingsdóttur í Eiðfaxa, 4. tbl. 1998.
Vefsíða: Annette Paterakis, hugarþjálfari hestamanna.
Bók: Brain Training for Riders eftir Andrea Monsarrat Waldo