Hvíld er hestum nauðsynleg

og þeir eiga rétt á henni

6528
Hvíld í öruggu skjóli mömmu. ©asdishar

Hestar þurfa hvíld og eiga rétt á henni samkvæmt reglugerð. Talið er að hestar þurfi um það bil fjögurra stunda svefn á sólarhring, en ekki er líklegt að þeir sofi svo lengi í einum dúr. Þeir sem hafa hesta nálægt sér að vori og sumri taka gjarnan eftir að hestarnir kjósa að leggja sig á morgnana, standa svo kannski upp og fara að bíta, en leggja sig jafnvel aftur rétt fyrir hádegi. Á heitum sumardögum liggja hestar stundum alveg flatir með kviðinn á móti sól.

Reyndir hestaferðamenn taka yfirleitt tillit til þessa og leggja ekki af stað fyrr en eftir að hestarnir hafa fengið sinn morgunblund. Ef dagleið er löng og nauðsynlegt er að leggja snemma af stað skipuleggja margir áningu þar sem hestar geta bitið eða þeim gefið hey og fengið góða hvíld um hádegisbilið.

Ferðahestar fá sér morgunblund ©asdishar

Líklegra er að hestar leggi sig þegar þeir eru saddir og sælir og oft má sjá hesta liggja utan í heyrúllum á vetrum, enda fá þeir ákveðna hlýju úr heyinu. En hestar þurfa ekki að leggjast til að hvíla sig. Þeir eru þannig útbúnir að þeir geta sofið standandi. Þá „læsa“ þeir olnbogaliðum á framfótum og hnéskel á afturfótum, loka augum og hengja jafnvel haus. Þeir standa í þrjá fætur, en hvíla annan afturfótinn til skiptist, þ.e. tylla tánni í jörðina.

Á húsi þarf að tryggja hestum góða aðstöðu þannig að þeir geti hvílst. Hvíldin er þeim nauðsynleg. Ef stíur eru fremur þurrar með góðum undirburði og vel rúmar leggjast hestarnir jafnvel flatir inni í þeim. Sérstaklega ef þeir eru einir í stíu. Þar sem tveir hestar eru í stíu er alltaf hætta á að sá frekari taki sér pláss til að hvílast og getur það komið í veg fyrir að hinn nái að leggjast. Róleg umgengni og hávaðalaus stuðlar að því að hestar hvílist inni í hesthúsum því stressaðir hestar eiga erfiðara með að hvílast, jafnvel úti í haga.

Rannsókn Sigtryggs Veigars Herbertssonar og Önnu Guðrúnar Þórhallsdóttur við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri bendir til þess að stíur þurfa að vera nægilega stórar til þess að tryggja velferð hrossa. Þegar tvö hross voru saman í stíu átu þau t.d. mun hraðar en þegar þau voru ein sem bendir til þess að þau séu afslappaðri í einstaklingsstíu. Þá kom fram að hestar leggjast marktækt mun oftar flatir í einstaklingsstíum.

Í rannsókninni kemur fram að svefn og hvíld hrossa á sér stað í mörgum lotum á sólarhring. Þessar lotur eru flokkaðar í annarsvegar bliksvefn (REM/paradoxical) og hinsvegar í annan svefn (aðallega hægbylgju). Komið hefur fram í erlendum rannsóknum að með því að bera saman stöðu hrossanna við heilarafritara er hægt að greina í hvaða svefnástandi hrossin eru. Til þess að hross geti upplifað fullkomnar svefnlotur þurfa þeir að leggjast alveg flatir og ná þannig fullkominni slökun. Bent er á að skiptar skoðanir séu um mikilvægi bliksvefns fyrir velferð hrossa en rannsóknir bendi til þess að samhengi sé með bliksvefni og getu hrossa til þess að læra flóknari hluti. Þörfin fyrir bliksvefn sé mestur hjá ungviði en minnki eftir því sem hrossið eldist.

Hvíld á sunnudagsmorgni ©asdishar

Í Reglugerð um aðbúnað hrossa (2014) segir meðal annars að innréttingar hesthúsa skuli tryggja hrossum næði til að hvílast og nærast án stöðugs áreitis og/eða yfirgangs frá öðrum hrossum. Ennfremur segir að stíur í hesthúsum skulu vera þannig að hross geti auðveldlega legið og snúið sér innan þeirra. Þær skulu uppfylla kröfur um lágmarksstærðir. Þá er sérstaklega kveðið á um að hross skuli ekki vera í stöðugum hávaða.

Athyglisverð grein í Equus Magazine um áhrif svefnleysis á hross. Þar er m.a. talið að liðverkir geti valdið því að hross leggist síður og geti því þjáðst af svefnleysi

Fyrri greinTölum um hesta
Næsta greinHuga þarf vel að hrossum sem fá holdhnjúska