Nauðsynlegt er að skoða munnhol hesta reglulega

Segir Sonja Líndal Þórisdóttir hestatannlæknir og reiðkennari

5490
Hægt er að skoða munnhol hesta með myndavél og sjá myndina í farsímanum. Mynd frá Sonju Líndal.

Sár í munni hryssu sem Sonja Líndal Þórisdóttir var með í námi sínu á reiðkennarabraut við Háskólann á Hólum varð til þess að hún fékk áhuga á hestatannlækningum. Sonja fór nokkuð óhefðbundna leið í námi sínu vegna þess að hún hafði lokið tveimur árum á Hólum þegar hún ákvað að hefja nám við Dýralæknaháskólann í Kaupmannahöfn. Í millitíðinni var verið að breyta náminu á Hólum svo hún dreif sig heim til að klára nám í reiðkennslu í miðju dýralæknanáminu.

Hún var með góða 1. verðlauna hryssu í náminu en var ekki sátt við að sjá að hún var alltaf með sár í munni, samt var hryssan feit og góð í beisli og hún gat riðið henni til afkasta. Ekki vildi dýralæknaneminn lenda í því að komast ekki í gegnum heilbrigðisskoðun með hrossið sitt svo hún fékk dýralækni í lið með sér til þess að deyfa hryssuna og skoða betur munnholið. Í ljós kom að hryssan var með bil á milli jaxla og sýkingu í tannholdinu sem þurfti meðhöndlun. Þegar búið var að greina vandamálið svo hægt væri að fást við það hugsaði hún að ef eitt einkennalaust hross væri með þessi vandamál væri mjög líklegt að fleiri af þeim 200 hrossum sem voru í hesthúsinu á Hólum ættu við einhver vandamál að stríða í munnholi. Þar með var áhugi vakinn á viðfangsefninu

Eftir að Sonja útskrifaðist sem dýralæknir árið 2014 hefur hún sérhæft sig í tannheilbrigði hrossa með því að sækja námskeið og ráðstefnur víða um heim auk þess að dvelja hjá kollegum í öðrum löndum og öðlast þannig reynslu í faginu.

Húsvist breytir átmynstri sem skapar vandamál

Sonja segir að nokkuð mikið sé um vandamál í munni hesta. Hestar eru ekki skapaðir til þess að bera mann á bakinu eða standa í húsi og fá að éta tvisvar á dag því úti í náttúrunni éta þeir í 16-18 klukkustundir á sólarhring. Húsvistin veldur því mikilli breytingu á átmynstri. Þessu veldur hærri tíðni tannvandamála og sára, hærri hjá tamda hestinum en þeim villta.

En hver eru helstu vandamálin?

Tannbroddar myndast hjá flestum hestum. Þeir myndast vegna þess að neðri kjálki hrossa er þrengri en sá efri og því nær hesturinn ekki að slíta öllum tannfletinum jafnt, sérstaklega ef áttími hans er skertur eða ef hann er með mein í kjaftinum. Tannbroddar myndast utan á tönnum í efri gómi en innan á í neðri gómi. Tannbroddar í efri gómi særa því kinnarnar, en tunguna ef þeir eru í neðri gómi.

Nokkuð algengt er að framtennur brotni, sérstaklega hjá stóðhestum. Ekki síst þeim ungu sem alast upp í stóðhestahólfum. Brotin tönn getur orsakað sýkingu og þá er nauðsynlegt að taka tönnina.

Hestar geta jafnframt kjálkabrotnað. Ef það uppgötvast fljótt er hægt að spengja saman brotið.

Það kom Sonju á óvart hversu algengt er að tryppi missi ekki mjólkurtennur. Hún mælir með að taka þær því þær geta valdið tryppinu miklu óþægindum. Eins geta þær komið í veg fyrir að hrossið éti almennilega.

Hestar geta haft skúffubit. Þá þarf hestatannlæknir að skoða hestinn reglulega og halda honum góðum.

EOTRH (Equine odontoclastic tooth resorption and hypercementosis) er sársaukafullur sjúkdómur sem aðallega finnst í hestum erlendis, einnig íslenskum. Hann leggst aðallega á eldri hross. Framtennurnar verða lengri og tannholdið veikara og það kemst fóður á milli tannanna og myndar sýkingu. Oft geta myndast djúpir pollar af sýkingu í tannholdið. Sonja segir að þótt þessi sjúkdómur sé sjaldgæfur hér á landi hafi hún séð í auknum mæli hross með óeðlilega langar framtennur, aðallega keppnishesta, þá sérstaklega stóðhesta, sem hafðir eru á húsi meira og minna allt árið. Hún veltir því fyrir sér hvort það sé nóg að leyfa þeim að bíta öðru hvoru. Hvort ekki þurfi meiri beit til þess að halda framtönnunum eðlilegum og hvort breytingar í hestahaldi, svo sem að halda hross á húsi allan ársins hring, gæti orsakað aukningu á EOTRH.

Hestar geta fengið æxli í munnholið af mörgum ástæðum, t.d. vegna brotinna tanna.

Nokkuð algengt er að tannsteinn setjist á bita. Þó hann sé yfirleitt saklaust getur hann ert tannholdið.

Úlfstennur og mjólkurtennur sem ekki losna oftast fjarlægðar

Sár myndast einnig af mismunandi orsökum, t.d. vegna tannbrodda eða að riðið er með of þröngan reiðmúl. Ef sár myndast á tungu og þá blæðir oft mikið. Tryppi í tannskiptum geta fengið sár og éta þá jafnvel ekki. Þá geta sár myndast vegna méla.

Úlfstennur geta valdið vandræðum. Þær eru litlar tennur sem geta verið fyrir framan jaxla í efri gómi. Mjög einstaklingsbundið er hversu mikið úlfstennur trufla hesta, en Sonja mælir með að taka þær.

Tennur geta skemmst í hestum. Þetta vandamál er algengara erlendis en hér, enda meira gefið gróffóður hér. Þó þekkist þetta hér á landi.

Of mikið bil getur myndast milli tanna, eins og hjá hryssu Sonju sem sagt var frá hér að framan. Þá fer fóður á milli þeirra og veldur sýkingu. Þetta á sérstaklega við um jaxla.

Þá eru dæmi um að högg utan á hausinn geti valdið sýkingu í tönnum og jafnvel sýkt kinnholur. Einnig kemur fyrir að hross séu með tennur við eyrun. Oft sést þetta ekki fyrr en sýking kemst í tönnina og gröftur leitar út úr holdinu á höfðinu. Stundum getur verið erfitt að taka þessar tennur sem myndast á fósturskeiði og eru í engum tengslum við hinar tennur hestsins.

Ójafnvægi á bitfleti getur haft áhrif á það hvernig hesturinn bregst við beislinu, t.d. háar fremri tennur í neðri gómi. Því er mikilvægt að koma jafnvægi á bitflötinn. Einnig getur slit undan mélum háð hestum. Þá verða tennurnar óeðlilega sléttar. Tennur hesta þurfa að vera grófar til að vinna á fóðrinu. Ef hestar eru að djöflastmikið í mélunum er ráð Sonju að reyna að finna „rólegri“ mél, jafnvel heil mél eða gúmmímél.

Tennur í hrossum eiga að vera grófar. Hér hafa þær slitnað undan mélum.
Tennur í hrossum eiga að vera grófar. Hér hafa þær slitnað undan mélum. Mynd frá fyrirlestri Sonju.

Greinilegt er að margs konar vandamál tengt tönnum og munnholi getur hugsanlega hrjáð hrossin okkar og sársauki í kjafti hefur mikil áhrif á jafnvægi hestsins og hreyfingar og getur valdið spennu. En flest er hægt að laga. Mikilvægast er að láta skoða hestinn. Ef eitthvað er óljóst og erfitt að greina er hægt að taka röntgenmynd og nú er Sonja komin með myndavél sem hún getur skoðað munn hesta með meiri nákvæmni, t.d. sprungur í glerungi, holur ofl.

Flestar aðgerðir eru einfaldar

Oftast þarf lítið til að lagfæra vandamál og oftast eru aðgerðirnar einfaldar, t.d. með því að raspa brodda af tönnum og laga ójafnvægi í bitfleti. Næst algengast er að taka þurfi úlfstennur og þar á eftir að taka mjólkurtennur. Þar á eftir koma sýkingar í tannholdi, t.d. vegna bils milli jaxla og síðan brotnar framtennur eða bitar. Annað sem talið var upp hér að framan eru sjaldgæfari vandamál.

Ekki er alltaf víst að röspun sé það sem hesturinn þarf að mati Sonju. Það þarf að skoða hvern hest vel og meta enda er breytileiki milli hesta mjög mikill, t.d. hvort og hve miklir broddar myndast. Aðalatriðið er að ná góðu jafnvægi. Þegar búið er að laga helstu vankanta, t.d. laga bitflöt og raspa brodda er oft hægt að halda tönnunum góðum lengi með góðu eftirliti. Fagleg tannröspun hefur jákvæð áhrif á reiðhesta og í lokaverkefni Sonju var niðurstaðan sú að 36% hesta sem knaparnir töldu vandamálalausa bötnuðu við tannröspun.

Sonja Líndal Þórisdóttir hestatannlæknir ©asdishar

Regluleg skoðun og mél sem passa

Sonja leggur því áherslu á að skoða munnhol reiðhrossa með reglulegu millibili, stundum árlega. Þetta á reyndar líka við um stóðhross. Ýmis vandamál geta auðvitað komið upp hjá þeim líka. Hjá ungum hrossum þarf að hafa tannskipti í huga og athuga úlfstennur, hjá reiðhestinum er það helst að kjálkinn getur læstst, þ.e. hreyfist ekki eðlilega við át m.a. vegna ójafnvægis í bitfleti, hann er með sár í munni og fleiri mein, t.d. brotnar tennur. Helstu vandamál gamalla hrossa eru lausar tennur.

Sonju finnst skipta máli að nota góð mél upp í hestana. Næstum öllum íslensk hross eru með 10-10,5 sm munnbreidd þó að auðvitað séu undantekningar á því. Þá er eðlilegt að nota 0,5 sm lengri mél upp í hrossin. Hún telur að einfaldleikinn sé bestur en mestu skiptir hvernig haldið er um taumana. Ef notuð eru þrískipt mél er mikilvægt að miðjubitinn sé sem minnstur. Mjög misjafnt sé hvernig mél hentar hverjum hesti og ef eitthvað virkar ekki er um að gera að prófa sig áfram og breyta til.

Sjá einnig viðtal við Sonju um mél o.fl. hér á hestamennska.is

 

 

Fyrri greinHnakkur, knapi og tannheilsa meðal þess sem veldur stoðkerfisvanda hjá hestum
Næsta greinMargt hægt að gera til að forðast slys