Margt hægt að gera til að forðast slys

Rýnt í rannsókn Eddu Pálsdóttur um slys í hestamennsku

4738
Ungur drengur með hjálm, sjálfsagðan öryggisbúnað. ©axeljón

Hestamenn geta gert margt til þess að minnka líkur á slysum í hestamennskunni. Margt bendir til dæmis til þess að almenn notkun reiðhjálma hafi dregið úr alvarlegum höfuðáverkum hestamanna ef marka má rannsókn sem Edda Pálsdóttir gerði fyrir B.S. lokaverkefni sitt í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2013.

Í erlendum rannsóknum sem Edda vísar til kemur fram að fleiri hestaslys verða hjá þeim sem eru óvanari í hestamennsku, en hlutfallslega eru slysin alvarlegri hjá þeim sem eru vanari. Á tímabilinu 1995-2012 urðu 49 hestaslys sem leiddu til alvarlegra hryggáverka og voru það þessi slys sem Edda rannsakaði sérstaklega.

Fleiri slys í uppgangi í efnahagslífi

Edda telur að uppgangur í íslensku efnahagslífi á árunum 2003-2006 hafi valdið því að á því að á þessu fjögurra ára tímabili hafi orðið umtalsvert fleiri hestaslys sem höfðu alvarlega hryggáverka í för með sér en á öðrum fjögurra ára tímabilum í rannsókninni, eða 20 af 49 sem urðu á árunum 1995-2012. Á þessum árum varð umtalsverð fjölgun á iðkendum reiðmennsku samkvæmt tölum frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands. Hún telur hluta af skýringunni vera þá að þeir sem hafi byrjað í hestamennsku á þessum tíma hafi keypt sér hesta umfram eigin getu. Athygli vekur að hún telur að hestur sem er samkvæmt ræktunarmarkmiði fyrir íslenska hrossakynið henti e.t.v. ekki byrjendum. Hann á að vera fjölhæfur, taktfastur og öruggur, viljugur og geðprúður hestur sem fer glæsilega í reið, þar sem mikil áhersla er lögð á vilja og glæsileik og mikla fótlyftu. Hún telur að það gæti verið betra fyrir byrjendur að velja þéttbyggðari, minna viljugan og mjúkgengan hest frekar en vöðvastæltan og spengiviljugan gæðing.

Alvarlegustu slysin verða í maí, en síðan í apríl og júlí. Fæst slys urðu í október og endurspeglar þetta á hvaða árstíma reiðmennska er mest stunduð. Edda telur skýringuna á þessum mikla fjölda slysa í maí vera að svo síðla vors er oft komið mikið fjör í hesta. Hestar á útigangi sjást oft að kljást og hlaupa um á harðaspretti. Hins vegar þurfa hestar á húsi að vera inni mest allan daginn. Hestarnir eru þá oft að springa úr vilja þegar eigendurnir skella sér á hestbak.

…þeir sem hafi byrjað í hestamennsku á þessum tíma hafi keypt sér hesta umfram eigin getu.

Slysin sem voru í úrtaki rannsóknarinnar hlutust öll af því að knapinn datt af baki. Það samræmist sambærilegum erlendum rannsóknum. Aðeins eitt dæmi var um slys hér á landi þar sem hestur sparkaði í knapa, en það gerðist í kjölfar þess að knapi datt af baki. Í flestum tilfellum datt knapi af baki vegna þess að hestur hrekkti, eða í 22% tilvika. Í sumum tilfellum kom þó ekki fram hvernig hesturinn náði knapanum af sér þó komið hafi fram að hann hafi hent honum.

Næstflest tilfelli, eða um 20%, urðu þegar hestur hnaut. Edda telur orsakirnar ef til vill að á þessum tíma tíðkaðist í auknum mæli að hafa hófa lengri og þyngja. Hún vitnar í Sigurð Torfa Sigurðsson járningamann sem segir að þyngingar séu oft gerðar til þess að ná fram stærri hreyfingum og meiri fótalyftu hjá hestinum. Hann bendi á að þetta geti leitt til þess að hesturinn hreyfi sig á hátt sem honum er ekki eðlilegur. Það geti jafnvel skaðað fætur hestsins sog aukið líkurnar á að hann hrasi. Þá beri nokkuð á því að hestaeigendur passi ekki nægilega upp á að endurnýja járningar á hestum sínum.

Í fimm tilfellum rauk hestur með knapa með þeim afleiðingum að hann féll af baki.

Höfuðáverkar

Þrettán einstaklingar í úrtakinu eða 27% voru með höfuðáverka sem skráða greiningu auk hryggbrotsins. Samkvæmt erlendum rannsóknum er algengt að þeir sem hljóti hryggáverka hljóti einnig höfuðáverka og hlutfallið mun hærra. Edda veltir því fyrir sér hvort möguleg skýring á lágu hlutfalli höfuðáverka sé hvernig knapar detta af baki. Í þeim tilfellum þar sem brotið er neðarlega á hryggsúlunni getur verið að við fallið af hestinum hafi knapi komið fyrst niður á hliðina eða í sitjandi stöðu en ekki á höfuðið.

Önnur líkleg skýring er að þeir sem lentu í slysunum hafi verið með hjálm sem verndaði þá fyrir höfuðáverkum. Ekki er þó hægt að fullyrða um hjálmanotkun út frá þessari rannsókn því einungis var skráð í níu tilfellum að viðkomandi hafi verið með hjálm þegar slys varð. Edda telur áhugavert að rannsaka betur tengsl höfuð– og hryggáverka vegna hestaslysa sem og hjálmanotkun hestamanna.

Fleiri konur hryggbrotna en karlar

Fleiri konur hryggbrotnuðu en karlar vegna hestaslysa á rannsóknartímabilinu og var munurinn marktækur fyrir tímabilið 1999-2012. Möguleg skýring á þessum mun milli kynjanna er að konum í hestamennsku fjölgaði meira en körlum á rannsóknartímabilinu samkvæmt ÍSÍ. Konum á tímabilinu fjölgaði um 3050 (131% hlutfallsleg aukning) en körlum um 2008 (52% hlutfallsleg aukning). Ekki er þó víst að það skýri allan muninn, en ýmsar erlendar rannsóknir hafa bent til þess að fleiri konur verði fyrir hestaslysum en karlar. Ein þessara rannsókna bendir til þess að konur væru líklegri til að slasast í hestaslysum en karlar. Mögulega skýrir munur á beinabyggingu kvenna og karla muninn að einhverju leyti, en konur hafa veikbyggðari bein en karlar. Það þyrfti að rannsaka ástæður þess að konur hryggbrotna frekar en karlar við hestaslys nánar.Í úrtakinu voru þrjú börn 18 ára eða yngri sem hryggbrotnuðu.

Hvernig má koma í veg fyrir slys?

Niðurstöður Eddu eru að lykilatriði til að koma í veg fyrir slys í hestamennsku sé góð samskipti knapa og hests. Það er á ábyrgð eiganda hestsins að hugsa vel um hann og kynna sér hvernig aðbúnaði hans og umhirðu sé best háttað. Þó markmið rannsóknarinnar hafi ekki verið að kjörbúnaði og umhirðu hesta bendir Edda þó á nokkur atriði sem hún telur að betur megi fara til að koma í veg fyrir slys.

„Þegar tíðni slysa er skoðuð vakna upp spurningar um hvort byrjendur í reiðmennsku séu að velja sér hesta við sitt hæfi. Ganggóður fjölskylduhestur er líklega oft betri kostur en keppnishestur fyrir þá sem eru að byrja í hestamennsku.

Þegar tímasetning slysa er skoðuð er hugsanlegt að hægt væri að koma í veg fyrir hluta af þeim slysum sem verða á vorin með því að sjá til þess að hesturinn fái að vera nægilega mikið úti og fái reglulega hreyfingu.

Þegar orsakir slysa eru skoðaðar er hægt að benda á nokkrar leiðir til að draga úr líkum á slysum. Með því að passa upp á að járningar hesta séu í lagi væri mögulega hægt að fækka slysum sem verða við það að hestur hrasar. Einnig skiptir máli að knapinn kunni að bregðast rétt við ef hestur hrasar með því að halla sér aftur á bak í hnakknum og toga í tauminn. Með þessu léttir knapinn þyngdina á herðar hestsins svo hann á auðveldara með að koma aftur undir sig fótunum. Ef knapinn bregst við á þennan hátt minnkar hann einnig líkurnar á því að steypast sjálfur fram af hestinum. Ef knapinn þekkir hvernig hestur lætur í ljós hræðslu og reiði getur hann greint aðstæður áður en komið er í óefni. Mikilvægt er að knapinn geri greinarmun á hræddum hesti og því að hestur sýni óþverraskap. Þegar hestar rjúka eða hrekkja er orsakanna oftar að leita hjá knapa en hesti og þýðir lítið að skamma hræddan hest. Hestar hlusta eftir og læra að þekkja rödd knapans. Róandi rödd sem hestur þekkir getur haft mikið að segja í aðstæðum sem hesturinn hræðist. Einnig gæti góð leið verið að venja hest við hluti sem vekja með honum ótta. Svo þarf knapi að hafa grundvallaratriði, eins og að gjörðin sé hert og ístöð mátulega löng, á hreinu.“

Mikilvægt að hanna góð öryggisvesti

Þótt ekki hafi verið hægt að draga ályktanir af því hvort hjálmanotkun hafi komið í veg fyrir höfuðáverka vegna þess að það var ekki skráð þá bendir allt til þess. Það er ljóst að höfuðáverkar eru færri hjá þeim sem verða fyrir áverka á hrygg hér á landi miðað við niðurstöður erlendra rannsókna. Í niðurstöðum Eddu kemur fram að gagnsemi öryggisvesta hefur verið mun minna rannsökuð en hjálma og að sama skapi eru þau almennt lítið notuð. Í þeim rannsóknum sem þó hafa verið gerðar hefur ekki tekist að sýna fram á að öryggisvesti dragi úr áverkum á bol við hestaslys og að hönnun vestanna sé ábótavant. Edda tekur undir niðurstöður erlendra rannsókna þar sem bent er á að hanna þurfi öryggisbúnað til að vernda hryggsúlu hestamanna og gerir sér vonir um að með því að rannsaka hvaða svæði hryggjarins verða verst úti þegar knapi fellur af baki sé hægt að hanna öryggisbúnað sem mundi þá jafnframt vernda önnur viðkvæm svæði og líffæri og ekki íþyngja knapanum.

Nánari upplýsingar:

B.S. ritgerð Eddu Pálsdóttir

Öryggi í hestamennsku. Bæklingur VÍS

Landsbjörg

Fyrri greinNauðsynlegt er að skoða munnhol hesta reglulega
Næsta greinValhopp