Aukin hætta er á slysum á hestum úti í gerði á þessum árstíma

Helga Gunnarsdóttir dýralæknir fær reglulega til sín hross með sár eftir skafla.

5309
Gamall hestur lagður í einelti úti í gerði. ©asdishar

Helga Gunnarsdóttir dýralæknir fær hún reglulega til sín hross sem hafa slasast i hesthúsagerðum. Oftast leikur grunur á að þau hafi verið slegin.

„Þetta gerist sérstaklega á þessum árstíma. Nú er vorið að koma, hryssurnar í hestalátum, birtan að aukast, veðrið að hlýna og komið er meira líf í hrossin. Fólk freistast því til að hafa hrossin lengur úti í gerði. Vorið er því erfiðasti tíminn hvað þetta varðar,“ sagði Helga

„Helstu áverkarnir eru sár eftir skaflaskeifur. Þau geta verið mjög erfið vegna þess að þá kemur oft lítið punktsár sem fer í gegnum húðina og opnar oft mikið í undirhúðina. Lítið eða ekkert blæðir úr svona sárum og íslenski hesturinn er harður af sér og kveinkar sér lítið. Þarna geta bakteríur fjölgað sér vel í hita og næringu og þessi sár geta mjög fljótt orðið sýkt. Oft tekur eigandinn því ekkert endilega eftir svona sári fyrr en hesturinn er orðinn haltur eða bólginn og þá þarf að opna sárið og þrífa og setja hann á sýklalyf.“

Helga segir að í slagsmálum verði hross oft fyrir höggi. Þá er þeim til dæmis hætt við að griffilbeinsbrotna eða bólgna á bógunum. Þá eru bitsár algeng, oft á baki eða hálsi. Hestar sem verða fyrir einelti úti í gerði geta verið illa bitnir. Þegar hestar bíta klemma þeir mjög fast og það kemur blæðing undir húð. Þetta eru því sársaukafull sár og getur tekið langan tíma að jafna sig, ekki síst ef það er á hnakkstæðinu.

„Það er allur gangur á því hversu vel eigandinn tekur eftir svona áverkum. Slík sár eru oft í náranum líka og valda þá hárlausum blettum. Fólk veltir stundum fyrir sér hvort þetta sé eftir lús eða að hesturinn sé með húðsýkingu. Oftast eru þetta þó þessi klassísku bitsár.“

En hvernig er hægt að koma í veg fyrir þetta? „Við verðum að gera okkur grein fyrir því að hesturinn er hópsál og þegar hann er úti í hópi með öðrum hestum hafa þeir mjög skýra goggunarröð,“ segir Helga. „Það er eins inni í hesthúsi og ef þú sestur hesta saman út í gerði. Ef þetta er ókunnugur hópur þá byrjar strax val um það hver ræður, hver er undir og er einhver hryssa í látum. Ef hestar sem ekki þekkjast og ef alltaf eru nýir og nýir hestar í hópnum sem ekki þekkjast verður alltaf órói. Goggunarröðin nær ekki að festa sig í sessi. Þetta gerist til dæmis á tamningastöðum þar sem oft er skipt um hesta. Í slíkum tilfellum er ef til vill best að setja hrossin út í hollum. Annað gildir í hesthúsum þar sem hrossin þekkjast vel.

Hryssur í látum eru beinlínis slysahætta og það á við hvort sem hópurinn þekkist eða ekki. Þær geta verið erfiðar við önnur hross og önnur hross sækja í þær. Að mínu mati á hryssa í látum ekki endilega heima úti í gerði með hestahópnum, nema verið sé að fylgjast með með hrossunum. Einnig getur verið varasamt að setja saman hryssur sem eru í látum því þær geta verið mjög erfiðar hver við aðra.“

Helga ítrekar að það þurfi að fylgjast með hrossum sem eru úti í gerði. Gerðin séu líka þannig að hrossin hafa enga flóttaleið. Þannig er það ólíkt því sem gerist úti í náttúrunni þar sem þau geta flúið undan þeim sem ræðst á þau. Gerðin eru oft lítil og flóttaleiðirnar engar og það er því hægt að halda áfram að ráðast á hest sem á sér engrar undankomu auðið. Auðvitað verður þó að gera greinarmun á því þegar hrossin eru að leika sér og kljást, sem þau hafa gott af, og þegar þau eru að farin að slást af alvöru og hætta skapast á áverkum. Þá verður að skerast í leikinn.

Oft er orðið þungt loft í hesthúsunum þegar komið er fram á vor. Helga mælir þó frekar með því að lofta vel út úr hesthúsinu en að láta hrossin híma lengi úti í gerði, því auðvitað vilja flestir síður að hestarnir þeirra verði fyrir áverkum sem þau eru kannski lengi að glíma við á besta útreiðartímanum.

Algengustu áverkar á hestum ef allt er talið eru að mati Helgu eftir högg í gerði. Einnig geta verið aðskotahlutir í gerðinu, ónýtar fötur, hvassar brúnir, þakrennur eða annað og hross geta rifið sig á því. Sár á flipa eru töluvert algeng og sár á neðri hluta fótar. Því er nauðsynlegt að athuga gerði reglulega til að sjá hvort eitthvað sé þar að finna sem hugsanlega getur meitt hross. Hross eru gríðarlegir hrakfallabálkar.

Á sumrin þegar hross eru komin í girðingar eru skurðskár algengari, oft eftir girðingar. Slík sár geta verið djúp og leiðinleg og oft þarf að sauma þau saman.

Fyrri greinNokkur tilfelli smitandi hósta staðfest í hrossum
Næsta greinOf „þjappaður“ höfuðburður heftir hreyfingar hests og öndun