Miklar upplýsingar fást við heyefnagreiningu

Býður upp á markvissari fóðrun hrossa

4422
Heysýni komið í hús ©asdishar

Með því að láta efnagreina heyið sem þú ætlar að gefa hestunum þínum fást mikilvægar upplýsingar um þurrefnisinnihald, meltanleika, próteinmagn, tréni og sykur auk ýmissa steinefni svo sem selen, zink og járn. Það er því svolítið undarlegt að hestamenn skuli ekki notfæra sér meira þann möguleika sem heyefnagreining er.

Eftir að hér á Hestamennsku birtist grein um rannsókn á því hvernig hestamenn fóðra hesta sína að vetri til hafa ýmsar spurningar vaknað hjá lesendum, aðallega um hvernig maður ber sig að við að senda sýni, hvaða upplýsinga má vænta og hvernig lesa má úr þeim.

Hestamennska skrapp því að Hvanneyri til þess að fá upplýsingar um þessi atriði og fleiri hjá Elísabetu Axelsdóttur, sem rekur Efnagreining ehf í gömlu Nautastöðinni, en hún stofnaði fyrirtækið árið 2015 ásamt manni sínum Arngrími Thorlacius.

Í efnagreiningu fyrir hestahey koma fram niðurstöður og viðmið sem byggð eru á þörfum hrossa. Einnig kemur fram útreikningur á hvað þarf að gefa mikið magn af heyinu miðað við enga brúkun (viðhaldsfóður), létta brúkun og mikla brúkun á hestinum.

Einnig kemur fram útreikningur á hvað þarf að gefa mikið magn af heyinu miðað við enga brúkun (viðhaldsfóður), létta brúkun og mikla brúkun á hestinum.

Eins og kom fram í rannsókninni, sem getið var um, vigtaði um helmingur þeirra sem lentu í úrtakinu heyið ofan í hestana. Elísabet segir að þeir sem eru vanir að fóðra hross geti ef til vill áttað sig þannig á þörf hestanna, t.d. með því að miða við sjónrænt mat og lykt. Þeir eru líka fljótir að sjá ef hestarnir fóðrast ekki vel. Þannig hafi hún gert þetta áður en hún fór að efnagreina heyið í sína hesta. En þannig fæst ekki nákvæmni í fóðrun, því í raun veit maður ekki hvað maður er með í höndunum, t.d. hversu þurrt eða blautt heyið er.

„Þótt þú sért með gott hestahey með góðan meltanleika þarftu kannski að gefa allt upp í 8 til  10 kíló á dag ef heyið er mjög blautt. Þetta getur komið jafnvel reyndustu hestamönnum á óvart, en eins og sumarið var á síðasta ári getur verið erfitt að ná vel þurru heyi.“

En hvernig kemur maður heysýni til efnagreiningar? Elísabet segir að hún hafi sent hestamannafélögum erindi um að fá að setja upp auglýsingar og boðið upp á að fólk gæti hitt ákveðna manneskju á ákveðnum tíma á ákveðnum stað og hún mundi sjá um að koma sýnunum til Efnagreiningar. Þetta segist hún gjarnan vilja gera víðar. En hún segist þurfa að fá viðbrögð frá hestamannafélögunum hvort þau séu tilbúin til að taka þátt í þessu. Þetta gekk ágætlega hjá Hestamannafélaginu Herði í Mosfellsbæ þar sem vinkona hennar stóð vaktina og komu nokkuð mörg sýni þaðan. Þetta var einnig gert hjá Sörla í Hafnarfirði en þaðan kom aðeins eitt sýni.

Elísabet Axelsdóttir hjá Efnagreiningu ehf.
©asdishar

„Ég held að fólki finnist þetta vera svolítið dýrt. Þess vegna bjóðum við núna upp á 10% kynningarafslátt. Með virðisaukaskatti kostar 10.504 kr. að efnagreina hey og með 10% afslætti 9.454 kr.

Við reynum að vera sanngjörn, en það eru ótrúlega mörg handtök sem felast í efnagreiningu á heyi. Heyið er þurrkað, malað og síðan þarf heyið að rakajafna sig í tvo daga fyrir NIR mælingu. Við erum með kvörðun sem gefur niðurstöður úr þeirri mælingu þ.e meltanleika, prótein, tréni og sykur. Fyrir steinefnamælinguna er sýnið vigtað og það leyst upp í saltpéturssýru við 137 gráðu hita í glerglösum í 2 sólarhringa, þynnt og vigtað aftur, glösunum velt og þá er komin lausn til þess að mæla stein- og snefilefni. Mælt er með Massagreini (ICP-MS).

Þetta mundi aldrei borga sig nema af því að maður getur í flestum tilvikum tekið mörg sýni í einu, en það er mjög dýrt „að starta tækjunum“.

Bændur senda heysýni venjulega á tímabilinu september til nóvember og þá berast einnig jarðvegssýni. Þetta er gert til að sjá hvernig áburðargjöf hefur skilað sér og einnig til þess að gera fóðuráætlanir.

„Strax eftir áramót hef ég sent póst á formenn allra hestamannafélaga og beðið þá að koma upplýsingum um heyefnagreiningu á framfæri við sína félagsmenn. Ég hef sent tengil inn á sýnishorn af efnagreiningu á heyi fyrir hesta með svo fólk geti áttað sig á hvaða upplýsingar koma fram. “Ég hef aðgang að fóðurfræðingi ef fólk þarf nánari skýringar á efnagreiningunni .“

má segja að gott hestahey sé ilmandi hey, þurrt og þannig lítið verkað

En stóra spurningin er: Hvernig er besta hestaheyið?

„Það er mátulega þurrt,“ segir Elísabet. „Þá erum við að tala um 67-75% þurrt, þannig að það sé ekki ryk í því. Meltanleikinn þarf að vera í meðallagi. Þá skiptir próteinmagn miklu máli. Kúabændur og sauðfjárbændur vilja hafa mikið prótein, en það viljum við alls ekki fyrir hestana okkar. Það er æskilegt að prótein sé mun minna í hestaheyi. Tréni skiptir líka máli þarf að vera yfir meðallagi fyrir hesta. Einnig þarf að passa upp á að það sé lágt sykurinnihald í heyinu því það getur haft slæmar afleiðingar, t.d. hófsperru. Þegar þetta er tekið saman má segja að gott hestahey sé ilmandi hey, þurrt og þannig lítið verkað.

Mikið hefur verið talað um selenskort í hestum, en selen er þeim mikilvægt. Ef ekki er borinn á áburður með seleni getur það vantað nánast alveg í heyið. Jafnhættulegt er að gefa of mikið selen. Með vaxandi selenáburðargjöf greinist selen í æ meira mæli í hestaheyi og þá þarf að fara varlega í að gefa t.d. steinefnafötu eða saltstein með seleni. Selenmagn kemur fram í efnagreiningunni og því hægt að gefa fóðurbæti og bætiefni samkvæmt henni.“

Elísabet var spurð hvað fólk ætti að gera ef það fær ekki alltaf hey frá sama aðilanum, þ.e. ef hey er keypt héðan og þaðan yfir veturinn. Hún sagði að algengast væri að fólk kaupi hey af sama aðilanum og þá dugar ein efnagreining þó svo að einhver smávægilegur munur geti verið á heyi milli sendinga. Hins vegar býður hún fólki upp á að koma með fleiri en eitt sýni yfir veturinn og þá fær það aukinn afslátt. Einnig er alltaf hægt að hafa samband við Efnagreiningu og vera jafnvel með áskrift af sýnum og fá þá enn meiri afslátt. En Elísabet ítrekar að ef heyið kemur frá sama aðilanum er algjör óþarfi að taka fleiri en eitt sýni, nema eitthvað sérstakt komi upp á.

Fyrri greinFylgt úr hlaði
Næsta greinMenn og hestar á hásumardegi