Gera má ráð fyrir að þeir sem ætli í hestaferð í sumar séu nú þegar á fullu við að undirbúa ferðina. Hestamennska ákvað að leita ráða um undirbúning hestaferða hjá einum reyndasta hestaferðalangi um þessar mundir, Hermanni Árnasyni, en hann reið um 2.200 km á 46 dögum síðastliðið sumar þegar hann lauk seinni hluta „stjörnureiðar“ yfir landið þvert og endilangt, en fyrri hlutann fór hann árið 2016.
En hvernig er best að hefja undirbúninginn? Hermann segir líklegt að hópurinn sem ætlar saman í hestaferð byrji á því að hittast og ákveða hvert eigi að fara. Síðan þarf að ákveða dagleiðirnar, hversu langar þær eiga að vera, og hvar eigi að stoppa og gista, hvað eigi að taka af fóðri fyrir hesta og mat fyrir mannfólkið. Hann segir mjög mikilvægt að kynna sér leiðina hjá heimamönnum og kunnugum og skoða einnig vel á korti og mæla hve löng hún er. Mátulegt sé að bæta við um 10% við þær mælingar og þannig fær maður nokkurn veginn vegalengdina.
Dagleiðir ætti að miða við getu fólks
Og hvað er mátuleg dagleið? „Það er svolítið afstætt,“ segir Hermann. „Það þarf að ákveða dagleiðir í samræmi við getu fólks. Ég segi líka oft við fólk að kílómetri er ekki alltaf það sama og kílómetri. Það er svo breytilegt eftir því á hvernig landi þú ert. Þú getur verið með dálítið strembinn dag sem er 35 kílómetrar á meðan 50 km dagleið er ekkert sem þarf að hafa áhyggjur af.
Annars er 35 km dagleið mátuleg fyrir venjulegt hestafólk. Ekki eru allir í mikilli þjálfun fyrir lengri dagleiðir, en þrátt fyrir það á fólk ekki að setja það fyrir sig þó nauðsynlegt sé að fara lengri dagleiðir inn á milli. Það þarf að takast á við verkefnið af raunsæi. En ef langur dagur er í vændum er mikilvægt að taka hann snemma. Líkamsklukka mannsins er gríðarlega harður húsbóndi. Ef það kemur fram á dag verður fólk þreytt. Ef dagleiðin er löng er best að hafa lokið helmingi leiðarinnar um hádegi.“
Hermann segir að menn deili aðeins um hvernig líkamsklukka hestanna er. En ef fylgst er með þeim úti í náttúruinni þykist hann nokkuð viss um að þeirra helsti hvíldartími sé eins og hjá manninnum, um miðjan daginn, á bilinu frá kl. 13.30 til 14.30.
Einn ábyrgur „skipstjóri“
„Ég upplifi það með mína hesta í svona ferðum að á þessum tíma leggjast þeir mjög mikið ef ég stoppa og virkilega hvíla sig og sofna. Þess vegna legg ég gríðarlega mikið upp úr því ef dagleiðin er löng, kannski 50-60 km, að fara snemma af stað og reyna að helminga daginn um hádegi. Þá er yfirleitt seinni hlutinn frekar auðveldur. Aftur á móti verða bæði menn og hestar mjög þreyttir ef ekki er lagt af stað fyrr en um hádegi á langri dagleið.”
Gott er að vera í góðu sambandi við heimamenn á því svæði sem riðið er um og mikilvægt að kynna sig vel. Hermann liggur yfir kortum og upplýsingum frá heimamönnum og kunnugum. Hann segir að mikilvægt sé að vera í góðum samskiptum við heimamenn. Hann hafi kynnst fjölda fólks og fengið mikla aðstoð hjá þeim á sínum ferðalögum um landið.
„Ég held að í svona ferðum sé yfirleitt besti kosturinn að þetta sé dálítið eins og til sjós. Að það sé einn skipstjóri, einn fararstjóri. Hann er þá sá sem er ábyrgur þó hann þurfi ekki að ráða öllu. En þetta þarf að vera ábyrgur aðili sem fer fyrir hópnum og er talsmaður hans. Mjög mikilvægt er að það sé góður andi í hópnum sem ferðast saman á hestum. Það er aðal málið. Ég hef farið með marga vinahópa og það er mjög mikið atriði að samkomulagið sé gott. Ef maður lendir í því, sem er betur fer sjaldan, að eitthvað ósamkomulag sé getur það orðið mjög erfitt. Því er mikilvægt að leggja mikið upp úr því að það sé einn fararstjóri í hópnum.“
Hermann tekur ferðahestana ekki á hús yfir veturinn. Hann notar veturinn í að temja trippi, en lætur eldri hrossin ganga úti á góðri gjöf. Á hverju vori, yfirleitt í lok maí, tekur hann hrossin og byrjar að járna. Hrossin eru því oft vel feit þegar komið er að því að taka þau í notkun. En þau eru fljót að hlaupa af sér fituna enda eru þetta hross sem mikið eru notuð yfir sumarið og standa aldrei og verða þar af leiðandi ekki feit þá.
Þjálfunin felst í því að taka hrossin með í rekstur. „Ég legg af stað, oft svona kvöldstund, og fer 20-25 km. Tek nokkur svoleiðis skipti og reyni að ríða ekkert mjög langt, en ég fer ekkert endilega mjög hægt. Bara að hrossin fái að pústa vel á milli.
Þessir ferðahestar eru eins og sveitamenn sem smala mikið. Þeir fara af stað og eru ekkert að þjálfa sig. Fyrsta daginn eru þeir svolítið lúnir og kannski annan daginn stirðir og svo er þetta bara komið. Ég hef reynt þetta á sjálfum mér i smalamennsku.“ En það er ekki eins og Hermann ríði ekkert út á veturna því hann notar þá í tamningar. Nú er hann með átta trippi í tamningu.
Nauðsynlegt að vera gríðarlega vel hestaður í langferðum
Lykilatriðið er að hafa vön ferðahross sem kjarna í hrossahópnum í slíkum langferðum. „Þessi hross bíða eftir að komast af stað í ferð,“ segir Hermann. „Því get ég lofað. Þegar maður tekur þau á vorin og byrjar að járna þá er strax komin eftirvænting í hópinn. Þau bíða eftir að komast af stað og að fá að koma með.“
En á hverju ári kemur nýr árgangur fjögurra vetra trippa. Hann leyfir þeim að hlaupa með. Í sumar hlupu þau með fyrstu níu daga ferðarinnar en voru þá send heim og dregið undan þeim. Fjögur fimm vetra hross voru með allan tímann. Hann notaði þau ekkert til reiðar og leyfði þeim að hlaupa þessa 2.200 km. á 46 dögum.
„Maður fer ekki svona ferð nema gríðarlega vel hestaður þannig að maður geti deilt álaginu. Fjórir til fimm hestar á mann er mátulegt,“ segir hann. Hermann er stór og þarf nokkuð marga hesta og duglega. Það þarf að gera ráð fyrir því að fólk er misjafnt og þarf mismarga hesta. Hermann er duglegur að skipta oft um hesta. „Ég held að það séu algeng mistök að menn eru ekki nógu viljugir að skipta. Ég legg mikið upp úr því að skipta nógu oft sérstaklega framan af ferðum og taka hestana þá frekar aftur. Fimm til sex kílómetrar er alveg nógu langur áfangi fyrir hest í byrjun ferðar og framan af túr. Síðan gerast undur þegar hrossin fara að komast í mikið form að þá lengist þessi tími um helming og kannsk ríflega það.“
Hestarnir þurfa að fá að grípa niður í áningu
Hermann hugsar einnig mikið um hvernig hestarnir hafa það á leiðinni. „Ég legg mikið upp úr því, sem ég lærði ungur, að hrossin geti gripið niður í áningu. Enda er hrossasótt eitthvað sem ég þekki varla í þessum ferðum. Eins og áningarhólf eru annars góð er það vandamál að þar er engin beit. Að þessu þarf að huga vel. Á hálendinu þar sem ekki er hagi þarf að vera með fóður handa hrossunum. Þetta er gríðarlegt atriði. Hrossin þurfa að geta byrjað að bíta þegar þau stoppa í hestaferðum. Ef vel ætti að vera þyrfti því að vera fóður í áningahólfunum.
Í seinni tíð hefur tíðkast að reka hross inn dálítið löngu áður en lagt er af stað og láta þau skíta úr sér. Að mínu áliti er varhugavert að gera þetta og eins að hafa hross á mjög snöggu landi fyrir ferðir. Það leiðir fljótt til orkutaps. Í lok langrar ferðar hafa hrossin auðvitað lagt nokkuð af og þá verður maður að passa sérstaklega vel að þau grípi niður, bíti, því þau eru mjög fljót að tapa orku ef þau eru orðin grönn.
Ég verð aðeins var við að þessi þekking og önnur er svolítið að tapast. Svipað á við um að ríða vatsnföll. Sú þekking er á hraðri útleið. Það er kannski ekki óeðlilegt af því að það hefur ekki verið þörf á henni.“
Hermann segist nota ósköp venjuleg reiðtygi. Hann hefur alltaf riðið í spaðahnakk og flestir hans hnakkar eru þannig. „Sumir halda því fram að það sé ógurlega óhollt fyrir hestana að ríða í spaðahnakk, en ég held að þannig dreifist álagið betur yfir bak hestsins. Ég legg mikið upp úr því að undirdýnur séu góðar. Hvað er gott og hvað er ekki gott er alltaf umdeilt en persónulega er ég ekki hrifinn af geldýnum því mér finnst það límast of mikið við hárinn á hestinum. Svampdýnur sem gefa vel eftir hafa reynst ágætlega en ég held að bæði góð ull og gæra séu það besta sem hægt er að nota undir hnakk.
Annars þarf að passa mjög vel upp á að hreinsa skánina sem myndast undir hnökkunum úr svita og fitu og óhreinindum. Ef þetta er ekki hreinsað fer það fljótt að særa hestana í bakið. Hestarnir sækjast í að velta sér í mold og því er mjög mikilvægt að vera duglegur að bursta þá. Mér hefur oft reynst best að nota fingurna og virkilega klóra upp úr hnakkfarinu á hestunum og losa þannig um skánina sem myndast, bæði áður en þeim er sleppt og eins þegar þeir eru teknir aftur.“
Þrjár staðgóðar máltíðir á dag
En aftur að mannfólkinu. Hvernig mat er best að hafa með í hestaferð? Hermann segir aðalatriðið að hafa matinn staðgóðan. „Við fáum okkur alltaf hafragraut með rjóma á morgnana. Rjóminn er mikið atriði. Síðan mæli ég með slátri og eggjum. En við fáum okkur alltaf miðdegisverð af kerrunni í langa stoppinu um miðjan dag. Stundum eru þetta tilbúnir réttir sem hægt er að kaupa í stóru upplagi hjá ýmsum fyrirtækjum nú til dags og hita. Við steikjum líka hiklaust beikon og hamborgara á staðnum. Svo er góð máltíð á kvöldin. Við höfum þannig þrjár góðar máltíðir yfir daginn og þurfum ekki að að smyrja okkur nesti yfir daginn. Ekki nema trússbíllinn geti ekki fylgt. En þá finnst mér gott að hafa kalt kjöt sem einhver veigur er í. Þetta góða stopp um miðjan dag reynist því vel bæði fyrir menn og hesta í okkar hópi til að hvílast og nærast. Fram að þeim tíma er ég ekki mikið að drolla og stoppa rétt til að skipta um hesta og láta það ganga og halda á, eins og ég kalla það. Sérstaklega fyrri hluta dags. Þá verður allt miklu léttara.“
Þrjú atriði tekur Hermann fram um búnað fyrir mannfólkið. Hann leggur ríka áherslu á ullarfatnað og að allir séu í ullarnærfötum. Þá fær hann Stein Másson á Hjarðarbrekku til að smíða svokölluð Helluístöð handa ferðalöngunum. Þetta eru ístöð með öryggisbogum og breiðum fleti til að standa í, sem Hermann telur mikið atriði í löngum hestaferðum. Öll eru ístöðin merkt fangamarki hvers ferðafélaga í botninn. Að síðustu má nefna að Hermann lætur sérsauma skálmar hjá Baldvin og Þorvaldi á Selfossi og úthlutar þeim til þátttakenda fyrir stórar ferðir. Skálmarnar segir hann mikið þarfaþing hvað hreinlæti varðar.
Sérvitur hvað varðar járningar á ferðahrossum
Hermann segist vera sérvitur þegar kemur að járningu á ferðahrossunum. „Þótt ég þykist ekki vera mjög gamall þá nota ég ennþá pottaðar skeifur, meira að segja extra ásoðnar. Ég trúi því ekki að það sé gott fyrir hesta að slíta skeifu alveg niður öðrum meginn og tiltölulega fljótt og ganga þannig. Það er betra að hún sé sem jöfnust. Það er alla vega talið betra fyrir mannfólkið. Ef einhver gengur skóna sína skakka þarf að sóla þá til að rétta þá af.
Skeifur í dag eru bara ekki nógu sterkar fyrir svona langar ferðir. Það væri endalaust verið að járna ef þær væru notaðar óbreyttar. Ég kaupir ópottaðar skeifur og sýð í þær sjálfur. Þetta er sérviska, en þetta er auðvitað umdeilt meðal hestamanna. Ég tel mig þó hafa afsannað að þetta sé eitthvað óhollt. Stefnan hefur verið að reyna að fækka hrossum af því að ég ætla að fara að taka því rólega en það er dálítið erfitt af því að ég á svo marga höfðingja. Ég er núna með 10 hross sem eru eldri en 20 vetra. Elsti hesturinn sem fór í ferðina síðasta sumar var 26 vetra og annar 24 vetra. Þeir hafa aldrei stigið á annað en pottaðar skeifur og hafa aldrei heltst. Ég er líka mjög sérvitur hvað varðar að láta hófana ekki vaxa mikið. Eins þarf að halda hælunum, þannig að þeir fari aldrei niður á hælinn og að hælarnir verði lágir. Þó ég járni mest sjálfur fæ ég stundum hjálp við það og alltaf er viðkvæðið hjá mér: Passið að taka ekki niður hælana! Hestarnir þurfa að halda hælunum því þeir slíta þeim á svona langferðum. Ef hestar eru með eðlislága hæla nota ég fleyga, ekki botna, heldur opna fleyga til að hjálpa þeim. Þetta er mikið atriði.“
Hættur í langferðum, en á eftir að fara víða
Síðasta sumar lauk Hermann við stjörnureiðina ásamt eiginkonu sinnni og nokkrum félögum. Reið hann frá Hvolsvelli á Reykjanes og þaðan að Fonti á Langanesi. Síðan frá Dalatanga að Öndverðarnesi á Snæfellsnesi. Hann fór fyrri hluta stjörnureiðarinnar 2016 og reið þá frá Vík í Mýrdal norður á Hraun á Skaga, þaðan vestur í Miðfjörð, að Gauksmýri. Þaðan voru 20 hrossum ekið til Bolungarvíkur sem var eina keyrslan í allri stjörnureiðinni. Frá Bolungarvík var farið í Skálavík fyrir utan Bolungarvík og endað við Ingólfshöfða undir Vatnajökli.
Viku eftir að fyrri ferðinni lauk reið Hermann tvisvar frá Svínafelli að Hvolsvelli. „Fyrst fór ég með hluta af ferðahestunum, en reið svo Flosagötu ásamt félögum mínum á ellefu hestum því markmiðið var að líkja eftir því sem sagt er frá í Brennu-Njálssögu. Við riðum þessa 220 km á 36 og hálfum tíma. Reyndar var þessi leið heldur lengri en menn höfðu áætlað áður. Ég var búinn að mæla þetta á korti 186 km, en það kemur heim og saman við reynslu mína að rétt er að bæta 10% við þá mælingu til að fá rétta útkomu.“
Síðasta sumar, að lokinni stjörnureiðinni, fór Hermann og Sigríður kona hans með hóp af fólki austur Löngufjörur og enduðu í Staðarhúsum í Borgarfirði.
Við heimkomu efndu Reiðhöllin á Hvolsvelli, Rangárþing Eystra, Hesteigendafélagið í Miðkrika og Hestamannafélagið Sindri til móttökufagnaðar og heiðruðu Hermann og Sigríði fyrir afrekið og Hestamannafélagið Sindri veitti svo Hermanni sérstaka heiðursviðurkenningu á aðalfundi félagsins.
Landssamband hestamannafélaga veitti Hermanni Árnasyni heiðursverðlaun LH á Uppskeruhátíð hestamanna síðastliðið haust.
Þótt Hermann ætli að hætta að fara í langferðir á hestum segist hann þó eiga eftir að ríða um marga áhugaverða staði á landinu. Hann hafi kynnst mörgu góðu fólki í þessum ferðum sínum og eigi víða heimboð á fallega staði.
Nánar um stjörnureiðina á RÚV 2018
og á Horses of Iceland