Ábyrgðartrygging og slysatrygging eru grunntryggingar fyrir hestafólk

4380
Hross eru fljót að uppgötva opið hlið og verða frelsinu fegin. ©asdishar

Hestar eru ólíkindatól sem ekki er alltaf hægt að passa upp á að þau fari ekki sjálfum sér eða öðrum að voða. Það þarf ekki annað en að það snjói hressilega til þess að hestaeigendur eigi það á hættu að hestar sleppi út úr girðingum og hlaupi jafnvel upp á veg. Það gerðist til dæmis tvívegis í umdæmi lögreglunnar á Vesturlandi seinni hluta febrúar síðastliðinn að hrossastóð hlupu upp á veg. Sem betur fer hlaust ekki tjón af.

Ef dómar í málum sem tengjast tjóni af völdum hrossa eru skoðaðir kemur í ljós að þeir hafa fallið á þann veg að hestaeigandi hefur þurft að taka á sig tjón, en einnig hefur hestaeiganda verið dæmdar bætur. Allt fer þetta eftir aðstæðum og hvort eigandinn sé skaðabótaskyldur eða ekki, hvort t.d. girðingar hafi verið í ólestri eða hvort hross hafi fælst og brotið niður girðingar.

En hvað geta eigendur hrossa gert til að koma í veg fyrir að þurfa að greiða háar fjárhæðir vegna tjóns sem hross þeirra valda þriðja aðila?

Ábyrgðartrygging vegna tjóns sem hestur veldur þriðja aðila

Tryggingafélögin bjóða upp á ábyrgðartryggingu sem ætti að dekka kostnað vegna tjóna sem hrossin valda á fólki, fasteignum og lausafé, þar með talið á dýrum.  En samkvæmt upplýsingum frá tryggingafélögum þarf að meta hvert atvik fyrir sig.

Valgeir Páll Guðmundsson sérfræðingur um hestatryggingar hjá Sjóvá sagði í samtali við Hestamennskuað að hægt væri að kaupa Frjálsa ábyrgðartryggingu. Þetta er ekki skyldutrygging en bætir tjón sem hestur tryggingarhafa veldur þriðja aðila. Hann segist hafa ráðlagt hestafólki að vera með slíka tryggingu. Hún dekkar ekki allt, en er byggð á skaðabótalögum. Það þarf sem sagt að sanna sök til þess að hestaeigandinn sé skaðabótaskyldur.

Hægt er að tryggja hóp hesta í Frjálsri ábyrgðartryggingu. Ef tjón verður er yfirleitt hægt að láta lesa örmerki á hestinum til að sanna eignarhald þess hests sem valdið hefur tjóni. Einnig er hægt að tryggja hvern hest fyrir sig.

Aðspurður um hvort iðgjald fyrir slíkar tryggingar sé hátt sagði Valgeir að það færi eftir svo mörgu. Hann ráðlegði því þeim sem vilja fá Frjálsa ábyrgðartryggingu að hafa samband við sitt tryggingafélag því starfsmenn tryggingafélaga geta leiðbeint um hvers konar trygging hentar hverjum og einum auk þess sem iðgjaldið fari mikið eftir öðrum viðskiptum við tryggingafélagið.

Í svipaðan streng tekur Telma  Eir Aðalsteinsdóttir hjá Vátryggingafélagi Íslands. Hún segir mikilvægt að fólk hafi samband við sitt tryggingafélag og fái leiðbeiningar. Það sama gildi hjá VÍS og Sjóvá að það fer eftir viðskiptum viðkomandi hvað iðgjaldið sé hátt, en það sé alls ekki hátt að hennar mati. Telma segir að samkvæmt skaðabótalögum beri menn skaðabótaábyrgð á tjóni sem þeir valda öðrum með saknæmum og ólögmætum hætti. Þessi regla er nefnd sakarregla og er grundvallarregla í íslenskum rétti.

Hjá VÍS er ábyrgðartrygging innan Dýratryggingar tekin á hvern hest fyrir sig. Hún er oftast tekin með öðrum tryggingum og þá þarf örmerki/einstaklingsmerki að fylgja með. Einnig er hægt að taka staka ábyrgðatryggingu og þá þarf ekki örmerki/ einstaklingsmerki og hægt er að tryggja ákveðinn fjölda hesta saman.

Landbúnaðartrygging krefst ekki örmerkis/einstaklingsmerki og hægt að tryggja hóp.

Telma segir að til að bótaréttur sé til staðar þurfi að vera sýnt fram á að eigandi sé skaðabótaskyldur samkvæmt lögum þ.e. hafi gert eitthvað til að valda tjóninu. Hvert tilfelli er þó skoðað sérstaklega.

Tjón af völdum hrossa eru ekki mörg. Hins vegar getur orðið mikið fjárhagslegt tjón af völdum þeirra þegar hross valda miklu eigna- og/eða líkamstjóni hjá þriðja aðila.

Allir hestamenn ættu að vera slysatryggðir

Valgeir segist hafa velt því fyrir sér hvort ekki væri áhugi á að fá tryggingafélög til að halda fræðslufundi í hestamannafélögunum um tryggingamál. Hann segir að hestamönnum þyki sjálfsagt að tryggja hestana sjálfa, sérstaklega ef þeir eru með góða reiðhesta eða kynbótahross. Öll tryggingafélög bjóði upp á slíkar tryggingar. Einnig þyki mörgum sjálfsagt að tryggja dýran búnað sem fylgir hestamennskunni, ekki síst hnakka og önnur reiðtygi. Hægt sé að tryggja búnaðinn gegn bruna, vatnstjóni eða innbrotum, en ef tekin er innbústrygging er gerð krafa um að hesthús séu læst.

En hestamenn mega ekki gleyma sjálfum sér og fjölskyldu sinni að hans mati. Þegar upp er staðið er auðvitað mikilvægast að tryggja fólkið. Því ættu þeir sem stunda útreiðar eða taka þátt í keppni eða sýningum að hafa góða slysatryggingu. Valgeir segir að slysatrygging ætti að vera ein af grundvallartryggingum hestamanna því alvarleg slys geta verið þung í skauti, bæði heilsufarslega og fjárhagslega.

Þó að í fjölskyldutryggingum felist slysatrygging segir Valgeir að þeir sem stundi íþróttir og þar með talda hestamennsku séu mun betur tryggðir með slysatryggingu. Þar er hægt að taka fram hvers konar frístundir menn stunda og hvað þeir vilji tryggja.

Telma bendir á að þeir sem fara á hestbak beri sjálfir ábyrgð á sér og því ættu allir sem fara á hestbak að huga að sínum tryggingum. Eigandi ber til dæmis ekki ábyrgð á slysum sem hestur sem hann lánar veldur meðan knapi er á baki nema sýnt sé fram á sök hans á tjóninu.

 Hestamenn hafa einnig velt því fyrir sér hver beri ábyrgð ef hestur veldur til dæmis tjóni þegar ferðamenn stoppa við girðingar, klappa hrossum eða gefa þeim eitthvað, jafnvel fara inn í girðingarnar. Telma segir að ferðamenn nálgist hross á eigin ábyrgð hvort sem það er utan eða innan girðingar. Eigendur geta aðeins orðið skaðabótaskyldir ef að sýnt er fram á að ástæða tjónsins sé þeirra sök s.s. girðingar séu ekki samkvæmt reglum eða annað.

Ljóst er að mikilvægt er að huga að tryggingum fyrir þá sem stunda hestamennsku. Hægt er að skoða hvaða tryggingar eru í boði á vefsíðum tryggingafélaganna. En eins og fram kom hjá þeim Valgeiri og Telmu er best að fólk hafi samband við sitt tryggingafélag til þess að tala við ráðgjafa um hvað hentar því best og fá bestu upplýsingarnar um tryggingar sem í boði eru.

 

 

Fyrri greinAð mörgu þarf að hyggja við undirbúning hestaferða
Næsta greinNokkur tilfelli smitandi hósta staðfest í hrossum