Lárus Ástmar Hannesson var nýlega endurkjörinn formaður Landssambands hestamannafélaga. Hestamennska mælti sér mót við hann til þess að spyrjast fyrir um hvernig hinn almenni hestamaður kemur inn í starf Landssambandsins.

Lárus telur stöðu hins almenna hestamanns vera prýðilega innan LH. Verið sé að vinna að því að fara í stefnumótun með það að markmiði að auka nýliðun í hestamennsku. Það verkefni þarf að vinna í samstarfi við hestamannafélögin og skólana og æskulýðsnefnd og menntanefnd LH.

Þarf að ná til áhugasamra krakka sem hafa ekki tengingu inn í hestamennskuna

„Við þurfum að ná, helst í gegnum reiðskóla eða eitthvað slíkt, til krakka sem eru áhugasamir en hafa enga möguleika á að komast af stað í hestamennsku vegna þess að þeir hafa enga tengingu inn í hestamannsku. Við þurfum einhvern veginn að reyna að brúa þetta bil.“

Hann segir aðstæður áhugasamra krakka vera allt aðrar nú en áður var þegar þeir löbbuðu bara upp í hesthús og fengu að vera þar og fara á bak hjá einhverjum. Nú er allt orðið meira mál og snýst meira um ábyrgð, hver beri ábyrgð á barninu. Einnig vanti fleiri hesta sem hægt er að setja óvana krakka á.

Lausn á þessu gæti verið að endurvekja félagshesthús, sem hestamannafélögin reka og bjóða börnum að hafa hesta eða aðgang að hestum. Einnig þekkist erlendis að tveir sameinist um einn hest, deili kostnaðinum og skiptist á að hafa hann í þrjá daga og gefi honum frí í einn. Lárus segist aðeins hafa heyrt um að þetta fyrirkomulag sé til hér á landi.

„Það þarf að hjálpa krökkunum að byrja,“ segir Lárus. „Þau sem eru að byrja geta ekki ein borið ábyrgð á hesti. Auk þess sem þetta sé dýrt, dýrara en áður var. Hesthús eru orðin dýrari og betri, hnakkar eru dýrir, undirburður og eitt og annað. Það er mikið af þægum hestum, en flestir þeirra hafa verið seldir í hestaleigur og ferðaþjónustu. Þeir eru kannski notaðir mest á sumrin og þarna gæti verið verkefni fyrir þá á veturna. Það eru alls konar möguleikar í þessu. Við þurfum að setja upp eitthvert módel og hvetja hestamannafélögin til þess að vinna í því að setja upp góða umgjörð. Áður fyrr var svolítið um svona félagshesthús og einhver hestamannafélög eru nú þegar komin með starfsemi af þessu tagi en það er hægt að finna ýmsar lausnir. Það þarf að ná niður kostnaði til þess að draga að fólk.”

Lárus telur að ekki sé gott að of ungir krakkar taki ábyrgð á hesti og sinni hestamennsku. Áhugasamir krakkar ættu að halda áfram á reiðnámskeiðum og læra smám saman meira og meira og ná líkamlegri getu. Um fermingaraldur ættu þau að geta tekið meiri ábyrgð.

Fyrir fullorðið fólk sem er nýbyrjað í hestamennsku telur Lárus að það skipti miklu máli að varðveita þessi grunnámskeið um stjórnun, jafnvægi og ásetu í litlum hópum og reyna að hafa þau skemmtileg. Þannig fær fólk sjálfstraust og traust á hestinum. Boðið er upp á ýmis námskeið af þessu tagi og gott ef fólk lærir stig af stigi. Þar nefnir hann Knapamerkin og Reiðmanninn sem góða menntun fyrir hestamenn.

„Menntun er lykillinn inn í framtíðina hjá okkur hestamönnum,“

„Menntun er lykillinn inn í framtíðina hjá okkur hestamönnum,“ segir hann. „Í öðrum íþróttum er fólk að æfa á sínum forsendum á ákveðnum tímum. Við sjáum ýmislegt í hestamennskunni á þessum nótum. Það var t.d. gaman að sjá um 100 konur úr nokkrum hestamannafélögum sem æfðu hjá Töltgrúppunni koma saman og sýna flókna munsturreið og hafa gaman. Þær æfðu reglulega á ákveðnum tímum, t.d. einu sinni í viku.“

Lárus vill einnig efla menntun á hærri skólastigum enda segir hann byltingu hafa orðið eftir að útskrifaðir tamningamenn og reiðkennarar frá Hólaskóla hafi komið inn á markaðinn. Á þeim byggist svo menntun allra í hestamennskunni.

 

Þarf að koma í veg fyrir brottfall

Lárus segir að allt þurfi að gera til að koma í veg fyrir brottfall þeirra sem byrja í hestamennskunni. Mikilvægt sé að fólk fái geðgóða, ganggóða reiðhesta í byrjun til þess að fá áhuga. En ekki sé óalgengt að fólk fari í hestaferð og hrífist þar af hesti og endi með að kaupa hann. Hættan er að ef fólk er óvant því að umgangast hesta og hefur e.t.v. lítinn skilning á eðli hans átti það sig ekki á því að hesturinn var í toppþjálfun í hestaferðinni. Hann fer á haustbeit og svo er hann tekinn inn næsta vetur. Þar er hann fóðraður í topp, en kannski ekki þjálfaður nema einu sinni til tvisvar í viku í nýju umhverfi. Eigandinn fer svo í viku til útlanda og hesturinn stendur á fullu fóðri. Þegar eigandinn fer á bak næst er hesturinn kannski orðinn allt annar, spenntur og ör vegna þjálfunarskorts og offóðrunar. Nýi hesteigandinn spyr sig kannski hvað hann hafi verið að koma sér út í.

Opin hesthús hafa verið notuð í útlöndum þar sem hestar eru við opið, jafnvel þótt þeim sé riðið á veturna. Þetta hefur Lárus einnig séð hér. Með þessu fyrirkomulagi fá hestarnir alltaf einhverja hreyfingu, jafnvel þótt þeim sé ekki riðið reglulega og verða því ekki eins spenntir.

Lárus nefnir að útreiðanefnd FEIF, alþjóðasamtaka eigenda íslenskra hesta, hafi þróað sérstakt staðlað reiðhestapróf. Hesturinn er þá prófaður af fagfólki sem merkir við hvernig hann stendur sig og þar með er hann kominn með ákveðinn gæðastimpil. Þetta próf er til og enginn ástæða til annars en að taka þetta upp hér á landi.

„Það er miklu betra að fara réttu leiðina, varlegu leiðina, svo hestamennskan verði varanleg. Ekki stökkva beint út í djúpu laugina og gefast kannski upp, því þá er jafnvel ekki aftur snúið. Þess vegna er ef til vill ekki slæm hugmynd að kaupa sér ekki strax hest heldur fá hest lánaðan til dæmis í eitt ár til þess að ganga úr skugga um hvort hestamennskan sé eitthvað fyrir þig.”

Lárus telur að ekki hafi fækkað í hestamennsku. Landssamband hestamannafélaga er þriðja stærsta sérsambandið innan Íþróttasambands Íslands með um 12.000 skráða félagsmenn í hestamannafélögunum. Hann hefur hins vegar áhyggjur af því að þó nokkuð sé um fólk sem er í hesthúsahverfum hestamannafélaganna og noti alla aðstöðu sem félagið hefur byggt upp en gangi ekki í félögin. „Það er vont,“ segir hann. „Þá erum við að gera eitthvað vitlaust. Fólk verður að finna kostina við að vera í hestamannafélögunum og skilji að það skiptir máli fyrir félögin að þeir sem noti aðstöðuna sem þau byggja upp taki þátt í að fjármagna hana.“

Næsta greinÁbyrgð eigenda hrossa