Mjög hefur færst í vöxt að fólk gefi hesti sínum nammi, sem getur verið sérstaklega framleitt sem nammi eða fóðurkögglar, við hin ýmsu tækifæri til þess að fá hann til þess að læra góða hegðun. Nammið er þá fyrst og fremst jákvæð styrking. Hestinum er gefið eitthvað sem honum finnst gott sem umbun fyrir góða hegðun eða að gera eitthvað rétt. Nammið verður því meiri áhugahvöt en t.d. þegar hesti er umbunað fyrir eitthvað með því að taka af honum þrýsting, sem er svokölluð neikvæð styrking.
Gott ráð er að gefa hesti aldrei nammi nema að hálsinn sé hvelfdur, þannig að hann taki bara við namminu við bringuna á sér.
Mette Mannseth tamningakona og yfirreiðkennari Háskólans á Hólum segir að sýna þurfi nákvæmni þegar verið er að umbuna hesti með nammi. Gott er að setja sér ákveðnar reglur um hvenær og hvenig það er notað. Gott ráð er að gefa hesti aldrei nammi nema að hálsinn sé hvelfdur, þannig að hann taki bara við namminu við bringuna á sér. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að hesturinn ýti snoppunni í mann og venjist þannig á að sníkja nammið. Ef hesturinn gerir það á alls ekki að gefa honum nammi. Ef hann er að biðja um nammi á að forðast í lengstu lög að gefa honum það, heldur hunsa hann og veita honum ekki athygli. Annars venst hann á að sníkja.
Mette segist láta hestinn bakka ef hann byrjar á þessu. Hann á að fara út fyrir hennar svæði. Hann fær síðan ekkert fyrr en hann gerir eitthvað sem hægt er að umbuna honum fyrir. Maður þarf að passa sig á að nota nammið rétt. Það á ekki að vera mútur, heldur umbun. Ef maður notar nammi til dæmis til þess að ná hesti úti í gerði á ekki að gefa honum það fyrr en búið er að setja á hann múlinn. Þá fær hann fyrst umbunina.
Ekki passar það öllum hrossum að fá nammi sem umbun. Mette tekur dæmi af hryssu í hennar eigu sem hún byrjaði að gefa nammi í byrjun tamningar. Hryssan varð strax mjög frek á nammið svo hún hætti strax að gefa henni. Nokkrum árum seinna er hún að prófa að umbuna henni með nammi.
Mette segir að auðvitað sé hægt að umbuna hrossum á annan hátt, en óneitanlega virkar nammið oft vel og flýtir fyrir að þau læri. Hins vegar verður maður að átti sig á því að ef maður byrjar verður maður að taka afleiðingunum.